Fjarskiptasjóður

Miðvikudaginn 15. nóvember 2006, kl. 13:58:11 (1614)


133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fjarskiptasjóður.

122. mál
[13:58]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller spyr:

„Verður Fjarskiptasjóði heimilt að endurgreiða sveitarfélögum útlagðan kostnað við að koma upp háhraðatengingum ef þau kjósa að gera það fyrir eigin reikning?“

Svar mitt er svohljóðandi:

Fjarskiptasjóður starfar samkvæmt lögum nr. 132/2005. Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna, enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun, og ætla má að ekki verði í þau ráðist á markaðsforsendum.

Eitt af þeim verkefnum sem kveðið er á um í fjarskiptaáætlun og sjóðnum er ætlað að standa straum af er uppbygging á háhraðatengingum. Við þá vinnu verður Fjarskiptasjóður að gæta — nú vil ég biðja hv. þingmann að hlusta vandlega og vera ekki í samræðum úti í sal — að reglum EES um ríkisaðstoð.

Í fyrsta lagi má ekki styrkja verkefni þar sem markaðsaðilar ætla að bjóða upp á háhraðatengingar en stjórn Fjarskiptasjóðs vinnur að því að greina nákvæmlega þau svæði þar sem ekki verður ráðist í uppbyggingu á markaðsforsendum.

Í öðru lagi verður öllum sem uppfylla ákveðin skilyrði gefinn kostur á að taka þátt í bjóða í verkefnið, þ.e. viðhafa útboð. Enda er kveðið á um það í reglum um stjórn Fjarskiptasjóðs að stjórnin skuli ákveða framlög úr sjóðnum í samræmi við hlutverk sitt og fjarskiptaáætlanir að undangengnu útboði.

Í þriðja lagi verður útboð að vera tæknilega óháð, þ.e. ekki valin fyrir fram lausn. Tilgangur með sjóðnum er að byggja upp stofnkerfi fjarskipta á þeim stöðum þar sem er markaðsbrestur, þ.e. þar sem þjónustu nýtur ekki við og markaðsaðilar ætla ekki að byggja upp. Sjóðurinn á ekki að greiða fyrir þá uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað. Þá munu framlög úr sjóðnum til uppbyggingar á háhraðatengingum eingöngu verða í framhaldi af útboði, eins og reglur um sjóðinn gera ráð fyrir og ég hef hér farið yfir.

Ég vil í lokin undirstrika að þátttaka Fjarskiptasjóðs í uppbyggingu má ekki draga úr frumkvæði heimamanna og sveitarstjórna við að krefja fjarskiptafyrirtæki um viðunandi þjónustu. Fjarskiptafyrirtækin gegna að sjálfsögðu lykilhlutverki í uppbyggingu fjarskiptakerfa í landinu eins og hv. þingmenn vita mætavel.

Það vill oft brenna við að þingmenn, sem eru áhugasamir um hagsmuni sinna umbjóðenda, telji að allt gangi hægt fyrir sig og að fyrir löngu hefði átt að vera búið að gera það sem hér er um að ræða, eins og hv. þingmaður nefndi.

Ég vil aðeins rifja upp að þessi tækni var ekki nýtanleg fyrir löngu síðan. Hvað eru mörg ár síðan við samþykktum fjarskiptalög, þar sem krafan var að allir notendur skyldu hafa aðgang að gagnahraða sem kallaður var þá ISDN-tenging, sem þótti hin mesta og besta þjónusta? Áður höfðu menn notað, um nokkurra missira skeið, venjulegar símalínur og þann hraða sem þær gátu borið. Þróunin hefur því orðið geysilega hröð á síðustu sjö árum hvað þetta varðar, að ég tali ekki um síðustu fimm árin.

Enn þá meiri hraði hefur verið á þessari þróun síðustu þrjú árin. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn átti sig á því að þetta tekur sinn tíma. Um það leyti sem verið var að selja Símann voru miklar kröfur um að fjarskiptafyrirtæki sinntu þessu sem best. Niðurstaðan hjá okkur, í tengslum við símasöluna, var að til þess að tryggja hagsmuni hinna dreifðu byggða var settur á laggirnar Fjarskiptasjóður, sem sinnir þessu mikilvæga verkefni núna og mun tryggja þjónustu, bæði hvað varðar GSM-símaþjónustu á þjóðvegum og fjölförnum ferðamannastöðum, stafræna sjónvarpssendingar um gervihnött til sjófarenda og fólks í mestu dreifbýli og síðan háhraðatengingar, eins og verið er að undirbúa að byggja upp á forsendum Fjarskiptasjóðs.

En útgangspunkturinn er sá að þetta þarf að gera á forsendum útboðs á svæðum þar sem markaðsbrestur verður.