Norðfjarðargöng

Miðvikudaginn 15. nóvember 2006, kl. 14:23:38 (1625)


133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Norðfjarðargöng.

124. mál
[14:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki sagt annað en að ég sé ánægður með svar hæstv. samgönguráðherra sem kom fram, og var búinn að búa mig undir að kæmi, þ.e. að hann hafi nýlega falið Vegagerðinni að setja í gang útboð varðandi þessar rannsóknarboranir, þó svo að í fyrirspurn minni mætti lesa ákveðna óþolinmæði. En betra er seint en aldrei. Nú er þetta komið í gang og rannsóknarboranir geta vonandi hafist í vetur ef við fáum þokkalega góðan og ekki harðan vetur fyrir austan, þannig að við gætum unnið tíma.

Hæstv. ráðherra lýsti því líka hvað þetta allt saman tekur í tíma, en eins og hann orðaði það er ekki víst að umhverfismat þurfi. Auðvitað fögnum við því, unnendur Vaðlaheiðarganga sem erum að berjast fyrir þeim göngum líka, að Umhverfisstofnun úrskurðaði um að þau göng þyrftu ekki í umhverfismat. Vonandi verður það líka þannig fyrir austan, að þetta sé það lítið og aðalspurningin sé um hvað skuli gera við hratið sem kemur úr þeim, hvar hægt væri að haugsetja það, eins og það er kallað.

Vonandi þurfum við ekki að fara með þetta í umhverfismat því þá vinnum við tíma. Við þurfum sennilega á því að halda vegna þess glataða tíma sem hefur liðið hvað þetta varðar. Þá er ég að tala um að við höfum verið að framkvæma aðeins ein göng í einu og ég tel að það megi spýta í þar.

Hæstv. samgönguráðherra á stuðning minn vísan þegar við förum að forgangsraða. Hann á líka stuðningsmann hér fyrir, því að hann er óhress með það að skattur og skatttekjur ríkissjóðs af bifreiðanotkun og bifreiðainnflutningi árið 2005 voru 47 milljarðar kr. en aðeins 15 milljarðar fóru til vegagerðarinnar allrar, þar með talið reksturs, vetrarviðhalds, framkvæmda og annað. Það er þannig. (Gripið fram í: Hvað með Öskjuhlíðargöngin?) Umræðu vegna frammíkalls hv. þingmanns um (Forseti hringir.) Öskjuhlíðargöng, eða göng undir kirkjugarðinn, eins og menn segja, vil ég taka síðar (Forseti hringir.) þegar ég hef betri tíma.