Myndatökur fyrir vegabréf

Miðvikudaginn 15. nóvember 2006, kl. 15:07:45 (1646)


133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

myndatökur fyrir vegabréf.

123. mál
[15:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get varla þakkað ráðherra fyrir þetta snubbótta svar en ég skil það vel að hann vilji lítið ræða þetta, kominn með dómsmál á herðar sér út af þessu máli. Ég held, virðulegi forseti, að aldrei hafi verið í umræðu um það frumvarp sem hér var vitnað til og varð að lögum, rætt um að stofnuð yrði Ljósmyndastofa ríkisins hf. Það er aumt til þess að vita ef hæstv. dómsmálaráðherra, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, er að beita sér fyrir því að búa til opinbera ljósmyndastofu á öllum sýsluskrifstofum landsins. Og þegar hæstv. ráðherra svaraði fyrstu spurningu minni um það hvort nauðsynlegt sé að teknar séu myndir á umsóknarstað af öllum umsækjendum um vegabréf, sagði hann: Nei, það er ekki nauðsynlegt, það er ekki gert.

Virðulegur forseti. Á vegabref.is er talað um að eigin mynd verði að vera á rafrænu formi og á USB minnislykli o.s.frv. og svo stendur, með leyfi forseta:

„Þótt komið sé með eigin mynd í vegabréfi er samt tekin mynd af umækjanda á staðnum í öryggisskyni.“

Er þetta líka orðið, auk þess sem Ljósmyndastofa ríkisins er orðin til, eitthvert forvarnastarf, er verið að vinna þennan „fæl“ fyrir leyniþjónustuna eða hvað er að gerast hér?

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því við hæstv. dómsmálaráðherra að hann svari því sem kom fram í fyrirspurninni þó svo það hafi ekki verið lagt fram í byrjun: Er dómsmálaráðherra landsins að beita sér fyrir því að iðnaðarlöggjöfin verði brotin, iðnaðarlögin, gagnvart ljósmyndurum? Er e.t.v. líka verið að brjóta samkeppnislögin? Þegar komið er inn í Ljósmyndastofu ríkisins kostar vegabréfið 5.100 kr. sama hvort ríkið tekur myndina eða maður kemur með myndina með sér og skiptir við ljósmyndara eins og maður gerði áður. (Gripið fram í: Þetta er gott fyrir neytendur.) Það er vafalaust gott fyrir neytendur, kemur hér í frammíkalli frá einum hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Það er ágætt, en það er nú svo, hæstv. forseti, að við í Samfylkingunni erum a.m.k. ekki sammála því að dómsmálaráðherra skuli vera á gráu svæði þarna og fái á sig dómsmál í framhaldi af því.