Flutningur Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2006, kl. 15:51:27 (1667)


133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur.

[15:51]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða um framtíðina og það er auðvitað ljóst að við, margir Íslendingar sem höfum verið þeirrar skoðunar að herlaust Ísland á friðartímum væri öruggt og mikilvægt mál, stöndum nú, óvænt kannski, frammi fyrir nýrri staðreynd. Í því liggja tækifærin. Það hefur auðvitað gerst að framkoma Bush-stjórnarinnar og Bandaríkjamanna eftir áratuga samstarf var harkaleg gagnvart vinaþjóð, að nánast skella hurðum og fara með allt sitt hafurtask. Það þýðir samt ekki að harma það en vissulega mun það hafa áhrif á samskipti og trúnað og traust milli þessara tveggja vinaþjóða.

Stóra verkefnið er að vinna úr þeim málum sem hér hafa verið rædd. Ég þakka fyrir það að dómsmálaráðherra hefur rætt um að Lögregluskólinn eigi jafnvel að fara á Suðurnesin. Ég tel að Landhelgisgæslan, og þess vegna ríkislögreglustjórinn, mundi sóma sér þar. Öryggi Íslands á mikið undir því að varnir okkar verði traustar og trúverðugar. Forstofa Íslands stendur í Keflavík og þaðan verður Ísland varið. Þess vegna tel ég að við þurfum að byggja þessa þætti þar upp.

Það á að mínu mati að staðsetja miðstöð alls eftirlits með land- og lofthelgi Íslands á Keflavíkurflugvelli, svo og miðstöð alls björgunarstarfs. Öll aðstaða er þar fyrir hendi, bæði hvað varðar flug- og hafnarmannvirki, en herinn hafði komið upp miklu af mannvirkjum sem við þekkjum og standa þau nú auð og eru í góðu ástandi. Í þessu liggja stór tækifæri til að endurskipuleggja varnir og öryggismál Íslands út frá þessari aðstöðu og í það eigum (Forseti hringir.) við að fara með þeim hætti að á Suðurnesjum verði miðstöð allra þessara öryggis- og varnarmála.