Hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ

Miðvikudaginn 15. nóvember 2006, kl. 18:16:49 (1678)


133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ.

119. mál
[18:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Herra forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn varðandi hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ. Ég tel óþarft að fara mjög nákvæmlega yfir málið enda hefur verið spurt um það nokkrum sinnum áður. Þess ber þó að geta að í rúman áratug hefur Mosfellsbær árlega sótt um leyfi til að hefjast handa við byggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ en án árangurs.

Í áætlun heilbrigðisráðuneytisins um uppbyggingu á öldrunarþjónustu 2002–2007 var gert ráð fyrir fjármunum að upphæð 100 millj. kr. í uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ. Það hefur enn ekki gengið eftir og er óhætt að segja að Mosfellsbær sé eitt fárra sveitarfélaga á landinu sem ekki býr við tryggan aðgang að hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og sjúka íbúa.

Herra forseti. Af þessum ástæðum ber ég fram fyrirspurn. Eins og fram kom í svari ráðherra við síðustu fyrirspurn þá hreyfa menn við málum með því að spyrja. Ég spyr því, herra forseti:

Hefur áætlun heilbrigðisráðuneytis um uppbyggingu öldrunarþjónustu 2002–2007 þar sem gert var ráð fyrir 100 millj. kr. í uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ verið fylgt eftir? Ef ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ? Hvenær munu þá framkvæmdir hefjast og hvenær er áætlað að það taki til starfa?