Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006, kl. 16:30:29 (1962)


133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:30]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. Hjálmar Árnason, sem sat undir þessari vetnisádrepu hv. þm. Péturs H. Blöndals, að ég er honum nokkuð sammála. Ég tel að það sé mjög langt í að vetni verði að almennum orkugjafa í samgöngum almennings.

Ég bendi hins vegar á að ríkisstjórnin hefur lagt fram margvíslegar skýrslur sem tengjast þróun losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Í einni af síðustu stóru skýrslum ríkisstjórnarinnar kemur fram að hún áætlar að fram til ársins 2020, þ.e. frá árinu 1990–2020, muni losun frá samgöngum hér á landi aukast um tæp 43%. Þetta er alveg gríðarlega mikil aukning.

Við þurfum eins og aðrar þjóðir að reyna á einhvern hátt að taka á þessu. Hv. þingmaður benti á það lofsverða fordæmi og frumkvæði sem Íslendingar hafa sýnt varðandi nýtingu jarðhita. Getum við ekki tekið frumkvæði á öðrum sviðum líka? Ég held að það væri hugsanlegt. Ég rifja upp að það var Orkuveita Reykjavíkur sem árið 1998 lagði fram skýrslu sem sýndi fram á að ef við mundum taka upp endurnýjanlega orkugjafa á 100 þúsund einkabíla mundum við minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 300 þúsund tonn á ári. Það munar nú um minna. Ég held þess vegna að við þurfum að gera allt sem við getum andspænis þeirri vá sem heimurinn og mannkynið stendur frammi fyrir til að draga úr þeirri losun. Hvernig gerum við það?

Ég held að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að sennilega er besta leiðin sú að fara leið skattalegra hvata, (Gripið fram í.) það er það sem skiptir mestu máli.

Frú forseti. Ég ætlaði einungis að varpa fram ákveðnum athugasemdum gagnvart hv. þm. Pétri H. Blöndal en ekki að halda ræðu. Hins vegar er það guðvelkomið að ég haldi hér ræðu um þetta mál. (Gripið fram í.)

Ég rifja það upp að í ritinu Velferð til framtíðar mörkuðu íslensk stjórnvöld stefnu um sjálfbæra þróun fram til ársins 2020. Þar axla Íslendingar þá skuldbindingu að draga með virkum hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda eða þá auka bindingu þeirra til að minnka hættuna á alvarlegri röskun á veðrakerfum heimsins sem tengist losun gróðurhúsalofttegunda. Það er mjög brýnt að við eins og aðrar þjóðir ráðumst í átak í þessum efnum, ekki síst á sviði samgangna.

Fyrir liggur samkvæmt tölum frá Hagstofunni að bílum hér á landi fjölgar langt umfram fjölgun íbúa. Árið 2000 voru á Íslandi u.þ.b. 180 þúsund bílar og þeim hafði þá á tveimur áratugum fjölgað um 80% á meðan íbúunum fjölgaði bara um 24%. Ég hef ekki yfir nýrri tölum að ráða um fjölgun bíla, en mig uggir að þó að fjölgunin hafi hugsanlega ekki orðið svona mikil hafi hún samt orðið alveg gríðarleg. Ég minnist þess að í greinargerð með samgönguáætlun, sem var samþykkt á Alþingi fyrir nokkrum árum, var sérstaklega dregin fram hættan á því að þessi mikla aukning mundi leiða til þess að okkur Íslendingum tækist ekki að standa við þær skuldbindingar sem við höfðum axlað með ýmsum alþjóðlegum samningum. Þess vegna tel ég svo brýnt að við tökum miklu harðar á í þessu efni, eins og mér fannst hv. þm. Pétur H. Blöndal vera sammála mér um, en hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki hafa sama skilning og ýmsir aðrir á þessum efnum.

Ég hef í þeim stuttu ræðum sem ég hef flutt um þetta mál lýst þeirri skoðun minni að nauðsynlegt sé að við stígum miklu stærri skref varðandi skattalega hvata. Ég er sammála því sem t.d. íhaldsmenn í Bretlandi segja, að nauðsynlegt sé að feta sig í átt að því að gjörbreyta skattkerfinu þannig að menn hverfi frá hinni hefðbundnu skattheimtu og tengi hana fremur við umhverfisvernd þannig að menn séu þá í framtíðinni að skattleggja ágang mannsins á umhverfið miklu fremur en þær tekjur sem þeir kunna að hafa. Ég held að það sé framtíðin. Ég vísa reyndar til þess að ríkisstjórnin hefur sýnt ágætt frumkvæði við að leiða mönnum þetta fyrir sjónir með ágætri skýrslu sem umhverfisráðuneytið gaf út fyrir nokkrum árum og fjallaði einmitt um það hvernig ætti að beita skattalegum hvötum til að draga úr mengun.

Ég verð hins vegar að segja að ef menn ætla að fara þá leið verða þeir að gera það á miklu röskari máta en núverandi ríkisstjórn er að gera. Þó að þetta litla frumvarp sem hér er lagt fram sé hið ágætasta breytir það ekki hinu að við þyrftum að fara þá leið að ekki bara veita ráðherranum heimild til að lækka eða afnema vörugjöld á tilteknum bílum, heldur á öllum vélbúnaði sem tengist framleiðslu á endurnýjanlegu eldsneyti, öllum samgöngutækjum sem ganga fyrir slíku og að sala þess eldsneytis til almennings væri sömuleiðis undanþegin sköttum. Ég veit að það er mjög drastískt skref og stórt og er mikið frávik frá núverandi kerfi en það mundi hins vegar skipta mjög miklu máli. Ég held að það sem við verðum að gera núna sé að grípa til róttækra ráðstafana.