Afnám verðtryggingar lána

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006, kl. 18:29:45 (1989)


133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:29]
Hlusta

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Fram kom í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að þetta væri ekki hugsað til enda. Þetta mundi nú ekki hvetja til sparnaðar. En ég vil að hv. þingmaður hugi að því að þetta er algjör undantekning, verðtrygging, og sparnaður fer fram í öðrum löndum þrátt fyrir að þar sé ekki verðtrygging.

Tillagan er einmitt hugsuð til þess að stýritæki Seðlabankans virki. Það er umhugsunarvert sem fram kemur í greinargerð með tillögunni að hér eru hæstu stýrivextir sem lengi hafa verið, 14%, en samt sem áður tekst ekki að ná tökum á verðbólgunni. Segja má að helsta stýritæki Seðlabankans sé óvirkt vegna verðtryggingarinnar. Og að hv. þingmaður gefi sér að hér verði um langt skeið 12% verðbólga, það er af og frá. Það er ekki nema þá að menn ætli sér ekki að ná tökum á efnahagslífinu.

Það er algjörlega ólíðandi að það sé svo há verðbólga eins og staðan er nú. Það verður að ná henni niður. Ég er ekki viss um að það gerist nema þá að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks fari frá.

En ástæðan fyrir þessari tillögu er einmitt að horfa á heildarmyndina og hvetja til sparnaðar. Ef við skoðum þær hagtölur sem Seðlabankinn birtir þá eru bankarnir ekki endilega að hvetja til sparnaðar. Nú er helsti bisnessinn hjá þeim að bera inn erlent lánsfé á lægri vöxtum og endurlána það síðan með verðtryggingu og hæstu vöxtum í heimi.

Þetta er ástand sem ábyrgir stjórnmálamenn, sem við í Frjálslynda flokknum teljum okkur vera, vilja ráða bót á svo hægt sé að ná tökum á efnahagslífinu. Ég vona svo sannarlega að sjálfstæðismenn átti sig á þessu. Þetta gengur ekki svona endalaust.