Kjarnorkuendurvinnslustöðin í Sellafield

Miðvikudaginn 22. nóvember 2006, kl. 12:14:04 (2013)


133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

kjarnorkuendurvinnslustöðin í Sellafield.

141. mál
[12:14]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson beinir til mín tveimur spurningum sem báðar varða kjarnorkuvinnslustöðina í Sellafield. Annars vegar beinir hv. þingmaður til mín þeirri spurningu hvort skýrsla breskra stjórnvalda sem ráðherra óskaði eftir í bréfi til breskra yfirvalda þar sem lýst var miklum áhyggjum af starfrækslu kjarnorkuvinnslustöðvarinnar í Sellafield og leka geislavirkra efna frá henni hafi borist íslenskum stjórnvöldum.

Þannig háttar til að í maí 2005 bárust íslenskum stjórnvöldum upplýsingar þess efnis að 83 þús. rúmlítrar af geislavirkum vökva hefðu lekið úr skemmdu röri í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield. Í kjölfar þess sendi umhverfisráðherra bréf til Margaret Beckett, þáverandi umhverfisráðherra Bretlands. Í því bréfi er lýst þungum áhyggjum vegna niðurstöðu rannsóknar sem gerð var eftir að lekinn kom í ljós og í bréfinu er rakið að rannsókn hafi leitt í ljós að geislavirk efni hafi byrjað að leka um miðjan janúar 2005 en að lekinn hafi ekki komið í ljós fyrr en 19. apríl það sama ár. Þá benda ummæli forstjóra Sellafield-stöðvarinnar til að öryggi í stöðinni hafi verið verulega ábótavant — það er jafnframt tekið fram í bréfinu — og umhverfisráðherra leggur jafnframt áherslu á það í þessu bréfi að atvikið í Sellafield sé mjög alvarlegt og veki upp spurningar um almennt rekstraröryggi endurvinnslustöðvarinnar.

Ef geislavirk efni bærust út í umhverfið frá Sellafield gætu afleiðingarnar orðið geigvænlegar fyrir íbúa norðurslóða og af þessum ástæðum öllum fór umhverfisráðherra fram á að ríkisstjórn Bretlands gerði fulla grein fyrir atvikinu í Sellafield, hvernig og hvers vegna það átti sér stað og til hvaða aðgerða ætlunin sé að grípa til að tryggja öryggi stöðvarinnar gagnvart umhverfinu. Um leið var í þessu bréfi minnt á fyrri kröfur Íslands um að tryggt yrði að mengun frá Sellafield væri hverfandi. Ef ekki sé hægt að ná því marki eru bresk stjórnvöld hvött til að íhuga alvarlega lokun stöðvarinnar.

Umhverfisráðuneytinu hefur borist svar frá breskum stjórnvöldum þess efnis að Heilsu- og öryggisstofnun Bretlands, United Kingdom: Health & Safety Executive, hafi lokið við gerð skýrslu um þetta atvik. Umrædd skýrsla er hins vegar ekki opinber vegna málaferla sem stofnunin á nú í gegn British Nuclear Group sem mun vera fyrirtækið sem rekur stöðina í Sellafield. Skýrslan verður að sögn notuð sem gagn í þessum málaferlum og verður því ekki gerð opinber fyrr en dómsmálinu er lokið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytinu hafa borist er niðurstöðu í dómsmálinu að vænta núna einhvern tíma í kringum mánaðamótin en það voru síðustu upplýsingar sem við fengum um gang mála.

Hv. fyrirspyrjandi spyr jafnframt hvort ráðherra hyggist fylgja málinu frekar eftir, og þá hvernig.

Frekari viðbrögð umhverfisráðherra og íslenskra stjórnvalda munu ráðast af þeim niðurstöðum sem koma fram í þessari skýrslu United Kingdom: Health & Safety Executive og væntanlegum ákvörðunum breskra stjórnvalda í þessu efni.