Starfslok starfsmanna varnarliðsins

Miðvikudaginn 22. nóvember 2006, kl. 14:26:15 (2076)


133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

starfslok starfsmanna varnarliðsins.

136. mál
[14:26]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það var talað um kaldar kveðjur og vissulega má nota þau orð um þær kveðjur sem þetta starfsfólk fékk frá vinnuveitandanum. Vinnuveitandinn var bara einfaldlega ekki ríkið eða íslenska ríkisstjórnin. (Gripið fram í.) Íslenska ríkinu hefur ekki borið skylda til að standa að gerð starfslokasamninga við fyrrverandi starfsmenn varnarliðsins, hvorki fyrr né nú. Íslenskir starfsmenn varnarliðsins voru ráðnir til starfa samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins frá árinu 1951. Varnarliðið var ekki íslensk ríkisstofnun og íslenskir starfsmenn þess töldust ekki til ríkisstarfsmanna. Þetta vita hv. þingmenn ákaflega vel.

Ráðningarkjör starfsmannanna og vinnuskilyrði fóru að íslenskum lögum og venjum. Þeir urðu að sæta því líkt og aðrir launþegar þessa lands að vera sagt upp störfum með hefðbundnum uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga. Biðlaunaréttindi tíðkast heldur ekki á almennum vinnumarkaði og ekki verður séð að starfsmenn varnarliðsins hafi átt slíkan rétt.

Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að taka það fram að það að varnarliðið skyldi fara úr landi með þetta stuttum fyrirvara og segja upp öllu sínu starfsfólki hefur gengið betur fyrir sig en mér hefði dottið í hug. Ég vil sérstaklega hæla starfsfólkinu og Suðurnesjamönnum almennt fyrir það hvað þeir í raun og veru tóku þessum válegu tíðindum vel. Þegar fleiri hundruð manns tapa vinnu og það er ekki meiri umræða um það en raun ber vitni finnst mér það sýna mikla yfirvegun.