Breyting á lögum á sviði Neytendastofu

Föstudaginn 24. nóvember 2006, kl. 15:37:08 (2321)


133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

breyting á lögum á sviði Neytendastofu.

378. mál
[15:37]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hæstv. viðskiptaráðherra. Hér er um að ræða réttarbót, þ.e. við erum að skjóta hér, ef ég skildi hæstv. viðskiptaráðherra rétt, stoðum undir þá heimild að það ætti að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Ég held ég hafi mismælt mig og kallað þetta áfrýjunarnefnd samkeppnismála. En þetta er að sjálfsögðu önnur nefnd, áfrýjunarnefnd neytendamála. Svo það komi hér fram.

En ég tók ekki eftir því hvort hæstv. viðskiptaráðherra kom inn á hugsanlega aukinn kostnað nefndarinnar. Fyrst hæstv. viðskiptaráðherra telur að þetta muni jafnvel leiða til sparnaðar fyrir dómstóla og fjölga málum til þessarar nefndar, þá hlýtur kostnaðurinn að aukast við viðkomandi nefnd.

Því langar mig að spyrja aftur í þessu andsvari hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann ætli að mæta þeim aukna kostnaði með einhverjum hætti. Eða hvort hann telji það svigrúm vera fyrir hendi hjá áfrýjunarnefndinni nú þegar, að hún sé í stakk búin til að mæta þessari fjölgun mála. Síðan væri jafnvel fróðlegt að heyra, þ.e. ef hann hefur það á takteinunum, hversu fjölmenn nefndin er nú þegar og hvað hún kostar í dag.