Réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta

Miðvikudaginn 06. desember 2006, kl. 13:45:57 (2601)


133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

290. mál
[13:45]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Árið 2005 lagði samráðsnefnd um húsaleigubætur sem í eiga sæti fulltrúar félagsmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga fram tillögur um lagabreytingar sem m.a. miða að því að taka á þeim vanda sem hv. fyrirspyrjandi Jón Bjarnason nefnir í fyrirspurn sinni.

Nefndin lagði til að skilyrði um þinglýsingu húsaleigusamninga verði afnumið þegar um er að ræða leigu á heimavist, stúdentagörðum eða sambýli fyrir fatlaða. Krafa um þinglýsingar á heimavistum, stúdentagörðum og sambýlum hafa skapað fjölmörg vandamál í framkvæmd. Til samanburðar má nefna að leiguíbúðir í eigu sveitarfélaga eða félaga í eigu sveitarfélaganna eru nú þegar undanskildar skilyrðum um þinglýsingu húsaleigusamninga.

Nefndin lagði einnig til að krafa um lengd húsaleigusamnings fyrir námsmenn á heimavist eða stúdentagörðum verði einungis fjórir mánuðir í stað sex mánaða nú. Með því er tekið mið af því að hver önn í framhaldsskóla er styttri en sem nemur lágmarksleigutíma samkvæmt lögunum.

Loks lagði nefndin til breytingu varðandi það atriði sem fyrirspyrjandi nefnir og að bætt verði við lögin ákvæði sem tekur til námsmanna sem þurfa að sækja nám um langan veg en eru þó innan sama sveitarfélags.

Samkvæmt lögheimilislögum verða námsmenn að fara í annað sveitarfélag til að eiga kost á að skrá aðsetur sitt í dvalarstað. Í tillögu nefndarinnar er miðað við að þeir nemendur sem þurfi að vista sig innan sama sveitarfélags í að minnsta kosti 30 kílómetra fjarlægð frá lögheimili vegna náms síns öðlist rétt til húsaleigubóta. Einnig verður sveitarfélagi heimilt að greiða húsaleigubætur þó fjarlægð sé styttri en 30 kílómetrar ef samgöngur til og frá skóla eru nemanda sérstaklega erfiðar, m.a. með tilliti til veðráttu og ástands vega, eða vegna skorts á almenningssamgöngum. Í tillögum nefndarinnar er höfð hliðsjón af reglum um dvalarstyrki í 4. gr. reglugerðar um námsstyrki nr. 692/2003, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Á síðasta ári lét forveri minn í starfi félagsmálaráðherra vinna drög að frumvarpi um breytingu á lögum um húsaleigubætur á grundvelli framangreindra tillagna. Ekki varð þó af framlagningu frumvarpsins og er vinnu við það ólokið. Það sem út af stendur er að samkomulag takist á milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármögnun og ábyrgð á greiðslu á þeim viðbótarkostnaði sem framangreindar tillögur geta leitt af sér, alls metið að geti orðið 21,4 millj. kr. á ári.

Forverar mínir í starfi félagsmálaráðherra áttu viðræður um málið við fjármálaráðherra og forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga án þess að niðurstaða fengist, en ríkisstjórnin hefur viljað að farið verði að samkomulagi sem gert var árið 2002 um fjármögnun húsaleigubóta.

En ég vil, virðulegi forseti, segja það við hv. fyrirspyrjanda að ég mun beita mér fyrir því að þetta mál verði tekið upp að nýju og á því verði fundin lausn, þessu brýna hagsmunamáli, á sameiginlegum vettvangi ríkis og sveitarfélaga.