Tvöföldun Hvalfjarðarganga

Miðvikudaginn 06. desember 2006, kl. 14:11:55 (2612)


133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

243. mál
[14:11]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að gefa mér tækifæri til að fara yfir þetta mál hér en hann spyr: „Hafa samgönguyfirvöld með einhverjum hætti hafið undirbúning þess að tvöfalda Hvalfjarðargöng? Ef svo er, hvað hefur verið gert?“

Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda er það hlutafélagið Spölur sem ræður þarna för. Spölur fékk með sérstakri löggjöf frá Alþingi heimild til þess að grafa göngin og láta greiða fyrir aðgang að þeim. Göngin eru borguð upp með afnotum, eins og hv. þingmenn þekkja, af mannvirkinu og er sérstakur samningur þar um.

Það er skemmst frá því að segja að ég hef átt fundi með forsvarsmönnum Spalar um tvöföldun jarðganganna. Það er mat stjórnarinnar og mat Vegagerðarinnar, og ég er sammála mati þeirra, að undirbúa þurfi næsta áfanga þessara jarðganga, þ.e. að auka afkastagetu þeirra. Ég hef falið Vegagerðinni, fyrir hönd samgönguráðuneytisins, að eiga viðræður við stjórn Spalar um þetta. Það hafa verið haldnir fundir og verða á næstunni þar sem verið er að leggja á ráðin um með hvaða hætti eðlilegt sé að standa að því að auka afkastagetu jarðganganna. Ég tel að það sé afar mikilvægt að horfa fram á veginn þarna í orðsins fyllstu merkingu vegna þess að það er vaxandi umferð um þetta svæði. Uppbyggingin á Grundartanga og uppbyggingin á Akranesi og á Borgarnessvæðinu er mjög mikil í mörgu tilliti, atvinnufyrirtækin sem rísa þarna og sumarhúsabyggðir upp um allan Borgarfjörð og norður eftir öllu þessu svæði draga að mikla umferð um göngin. Fólk velur að fara jarðgöngin þó að það þurfi að greiða fyrir aðgang að þeim.

Að vísu er fallegt að fara um Hvalfjörðinn á fögrum degi og ég hvet hv. þingmenn til þess að njóta þess einhvern tímann, þó að ég sé ekki að mæla gegn því að þeir borgi sig í gegnum göngin, síður en svo. Ég veit að ýmsir þingmenn sem tengjast Vesturlandi fara stundum þarna upp eftir og jafnvel fyrir fjörð. Jarðgöngin hafa engu að síður sannað sig og þau eru gott dæmi um leið sem ég tel að við Íslendingar eigum að skoða mjög vandlega og þingið hljóti að taka afstöðu til, þ.e. hvort við eigum að auka eða koma af stað öðrum áfanga í einkaframkvæmdum í vegagerð í þeim tilgangi að hraða framkvæmdum.

Ég tel að það fari ekkert á milli mála að viðræður Vegagerðarinnar og stjórnar Spalar muni leiða til þess að áætlun verði gerð um næstu áfangana. Ég tel að gera þurfi trausta áætlun um þörfina til að tímasetningin verði rétt og fjármagnið nýtist sem allra best, því að við þurfum á því að halda að nýta þá fjármuni vel sem settir eru í slík umferðarmannvirki og að ekki sé verið að tvöfalda þau áður en þörf er á því. Engu að síður liggur þetta verkefni fyrir og Vegagerðin er af hálfu samgönguyfirvalda að skoða það.

Ég veit að fyrirtækið Faxaflóahafnir hefur mikinn hug á þessu vegna þess að forsvarsmenn þessa ágæta fyrirtækis spá aukinni umferð um þessar hafnir, sem eru höfnin hér á höfuðborgarsvæðinu, Akraneshöfn, Grundartangahöfn og Borgarneshöfn, sem er partur af Faxaflóahafnaklasanum, og auknum flutningum á milli þessara svæða. Ég tel nauðsynlegt að gera áætlanir þarna, það er ríkur vilji til þess af minni hálfu og ég fylgist mjög náið með þessu.