Hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta

Miðvikudaginn 06. desember 2006, kl. 14:44:28 (2628)


133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

148. mál
[14:44]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi framkvæmdirnar á höfuðborgarsvæðinu er verið að vinna í útboðsgögnum gagnvart Suðurlandsbrautinni og það er til skoðunar að aðgreina jarðvinnuna frá til að hefja útboð á því. Það gæti þá farið fram á næstunni þannig að það er komið frekar langt í undirbúningi. Lýsislóðin er komin talsvert skemur. Gagnvart báðum framkvæmdunum er búið að setja af stað vinnuhópa varðandi kostnaðinn með fulltrúum frá heilbrigðisráðuneytinu og sveitarfélögunum sem koma að.

Varðandi dvalarheimilin voru þau barn síns tíma. Á sínum tíma voru byggð upp mörg dvalarheimili og stefnan núna er að reyna að fasa þau meira eða minna út. Hugsanlega þurfum við á einhverjum dvalarheimilum að halda en við viljum að fólk sé heima og ekki sett á stofnun að óþörfu allt of snemma. Hjúkrunarheimilin eiga að vera þannig rekin að þau taki bara við þeim sem eru veikastir. Fólk á að vera heima þangað til það er orðið það illa haldið sökum veikinda og aldurs að það getur ekki verið lengur heima. Og meðallegutími á hjúkrunarheimili á að vera í kringum þrjú ár. Það er mjög veikt fólk sem er á hjúkrunarheimilum og það er eðlilegt. Þangað til á fólkið að vera heima.

Núna eru vistunarmatshóparnir 43 sem eru að meta inn á biðlistana og það er alveg ljóst að það verður að fækka þeim. Þeir eru allt of nálægt fólkinu. Það er verið að setja fólk á þessa biðlista sem á ekki að vera þar og þess eru dæmi að það eru mjög há hlutföll inni á stofnunum úti á landsbyggðinni. Það eru meira að segja dæmi um að auglýst hafi verið eftir fólki inn á stofnanirnar þannig að það er pottur brotinn í þessu. Ég hef mikinn áhuga á því að endurskoða vistunarmatið og gera það þannig úr garði að biðlistarnir sýni raunveruleikann en séu ekki með einhvern sýndarveruleika þar sem mjög margir eru á biðlista sem eiga alls ekki að vera þar og eiga alls ekki heima þar.