Sjófuglarannsóknir og breytingar á náttúrufari

Miðvikudaginn 06. desember 2006, kl. 15:10:41 (2639)


133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

sjófuglarannsóknir og breytingar á náttúrufari.

200. mál
[15:10]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni varðandi þetta. Ég held að þau vandræði sem sandsílastofninn er í og hefur verið í hafi ekkert með hlýnun jarðar að gera. Alls ekki.

Einn stærsti sandsílastofn í Norður-Atlantshafi er í Norðursjó og þar er hafið miklu hlýrra en hér. Þar er mjög mikið af sandsíli, eða hefur verið mjög mikið af sandsíli.

Ég held að ástæðan sé sú, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti á, að ýsustofninn hefur verið gríðarlega stór vegna mikillar nýliðunar á árunum í kringum 2000 og ýsan er botndýraæta. Hún fer um botninn eins og engisprettufaraldur. Hún er núna komin allt í kringum landið, inn á alla firði og flóa. Hún fer yfir allar sandbreiðurnar og tínir sílið upp úr sandinum og þurrkar hann þannig upp. Það er þetta sem er að gerast.

Þegar við skoðum gögnin þá sjáum við að um leið og ýsan fer svona mikið upp, þá byrja vandræðin með sandsílið. Þetta er ekkert flóknara en það.

Síðan má náttúrlega tengja þetta öðrum þáttum í vistkerfinu, eins og til að mynda því að ég tel að við höfum tekið allt of mikla næringu úr þessu kerfi á undanförnum árum, en það er að sjálfsögðu tilefni í aðra og miklu lengri umræðu, virðulegi forseti.