Jafnræði fiskvinnslu í landi og á sjó

Miðvikudaginn 06. desember 2006, kl. 15:36:22 (2650)


133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

jafnræði fiskvinnslu í landi og á sjó.

257. mál
[15:36]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í máli hv. þingmanns er um að ræða álit sem er orðið nokkurra ára gamalt. Forsaga þess máls er sú að á árinu 1998 sendi fiskvinnslufyrirtækið Gunnólfur ehf. á Bakkafirði erindi til Samkeppnisstofnunar um álitaefni sem varðar samkeppnisstöðu íslenskrar fiskvinnslu í landi. Samkeppnisráð svaraði með áliti nr. 2 frá árinu 2000, dags. 21. febrúar það ár. Gunnólfur spurði allumfangsmikilla spurninga sem samkeppnisráð svaraði.

Í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns ákvað ég að fara sérstaklega yfir þessa skýrslu. Ég vona að mér fyrirgefist það að hafa ekki getað gert það fyrr í ljósi þess að ég tók ekki við starfi sjávarútvegsráðherra fyrr en fyrir rúmu ári síðan og var ekki vel kunnugt um þessa skýrslu samkeppnisráðs. En þessi fyrirspurn hv. þingmanns gaf mér gott tilefni til þess að fara yfir málið með sérfræðingum mínum og leita álits á því.

Samkeppnisráð beinir í rauninni tvennum tilmælum til sjávarútvegsráðherra. Í fyrsta lagi beinir ráðið þeim tilmælum að ítarlega verði kannað hvort ekki sé nú þegar fyrir hendi búnaður sem geri mögulegt að koma við vigtun inn á vinnslulínur vinnsluskipa. Komi í ljós að slíkur búnaður sé til beinir samkeppnisráð því jafnframt til sjávarútvegsráðherra að hann beiti sér fyrir því að tekin verði upp vigtun inn á vinnslulínur vinnsluskipa.

Í tíð hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra var sett niður nefnd til að fara yfir samkeppnismál sem lúta sérstaklega að vinnsluskipunum. Í sjávarútvegsráðuneytinu hefur verið fylgst með þróun á sviði voga sem hægt væri að nota um borð í vinnsluskipum. Þeir aðilar sem við teljum að viti hvað best um þróun þessara mála og ráðuneytið hefur rætt við telja að enn þá sé við að glíma ákveðna tæknilega erfiðleika við að vigta hverja fisktegund sérstaklega inn á vinnslulínur vinnsluskipa beint úr móttöku. Þess má geta að á síðustu árum hefur Fiskistofa eflt eftirlit um borð í vinnsluskipum og þar eru til að mynda að jafnaði sex sérhæfðir eftirlitsmenn til eftirlits um borð í vinnsluskipunum og starfa eingöngu þar.

Í öðru lagi beinir samkeppnisráð þeim tilmælum til ráðherra að hann láti kanna hvort unnt sé að breyta reglum um framsal og skráningu aflaheimilda þannig að komið verði til móts við þau sjónarmið sem að framan eru reifuð. Í reifun samkeppnisráðs kemur fram að ekki hafi verið sýnt fram á að reglur sem heimila framsal á kvóta og fela í sér möguleika á fénýtingu þeirra í skyldum rekstri fari gegn markmiði samkeppnislaga. Þessu er mikilvægt að átta sig á.

Á hitt ber þó að líta að samkvæmt 5. gr. laga um stjórn fiskveiða er það skilyrði sett fyrir úthlutun aflaheimildar eða yfirráðum yfir slíkri hlutdeild að hún sé bundin við skip. Að mati samkeppnisráðs gæti það — ég vek athygli á orðalaginu — auðveldað til muna aðgang fiskvinnslustöðva að hráefni og styrkt samkeppnisstöðu þeirra á markaði ef heimildir til skráningar aflahlutdeildar tækju einnig til fiskvinnslufyrirtækja.

Samkeppnisráð ítrekar að aukið frelsi — og líka er mikilvægt að menn átti sig á þessu orðalagi, meira framsal, auka framsalið frá því sem nú er — til framsals aflaheimilda, t.d. með þeim hætti að unnt verði að verða sér úti um aflahlutdeild án þess að eiga skip, er til þess fallið að efla virka samkeppni á þeim markaði sem hér um ræðir. Jafnframt væri samkeppnisstaða aðila á fiskvinnslumarkaði að vissu marki jöfnuð og aðgangur nýrra keppinauta að markaðnum auðveldaður. Með vísan til framangreinds beinir samkeppnisráð þeim tilmælum til sjávarútvegsráðherra — og enn vil ég vekja athygli á orðalagi — að hann láti kanna hvort unnt sé að breyta reglum um framsal og skráningu aflaheimilda þannig að komið verði til móts við þau sjónarmið sem hafa verið reifuð hér að framan.

Síðari tilmæli samkeppnisráðs lúta að því að þessi atriði séu könnuð, hvort það megi rýma eða auka frelsið í lögum um stjórn fiskveiða til framsals, auka sem sagt framsalið til þess að þeir menn geti verið handhafar aflahlutdeilda án þess að eiga skip. Þessi umræða hefur mjög oft komið upp eins og menn vita og hefur verið ítarlega rædd en það er til flötur á því að aflaheimildir verði á hendi fiskvinnslustöðva en ekki skipa. Það er út af fyrir sig sjónarmið sem mér finnst alveg vert að líta á. Hins vegar hefur það sem samkeppnisráð er að segja í för með sér að það eigi að gera með þeim hætti að aflaheimildir verði á hendi fiskvinnslustöðva, sem þá síðan væntanlega leigi þær út, ráði einhvern til þess að afla þeirra aflaheimilda. Það verður ekki gert öðruvísi. Það þarf náttúrlega skip til þess eins og gefur augaleið og þar með verður þetta til, eitthvað aukið framsal. Það er út af fyrir sig ekkert bundið við kvótakerfið, af því að hv. þingmaður talar nú gjarnan um það, heldur er það bara bundið við það fyrirkomulag að við skilgreinum einhvern fiskveiðirétt, einstaklingsbundinn fiskveiðirétt.

Ég held þess vegna að ekki séu forsendur til þess að stíga þetta skref núna, m.a. í ljósi þess að aðilar eins og sjómannasamtökin eru því mjög andvíg að auka framsalskerfið í sjávarútveginum og hafa viljað reyndar ganga enn þá lengra í því að þrengja kerfið. Það er alveg ljóst mál að fyrirkomulag eins og það að fiskvinnslan væri með þessar aflaheimildir mundi auðvitað leiða til einhvers aukins framsals þó að það gætu líka verið á því jákvæðar hliðar sem ég er ekki að gera lítið úr.