Jafnrétti til tónlistarnáms

Miðvikudaginn 06. desember 2006, kl. 15:54:41 (2655)


133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

jafnrétti til tónlistarnáms.

289. mál
[15:54]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er eiginlega með ólíkindum að hæstv. ráðherra komi hér og lýsi stefnu sinni, sem ég get út af fyrir sig verið sammála í grundvallaratriðum, þegar nefnd er búin að starfa að þessum málum í rúm tvö ár. Það verður að koma einhver skýring á því hvers vegna enginn árangur hefur orðið af þessu nefndarstarfi sem staðið hefur í rúmlega tvö ár varðandi þetta mál, sem því miður bitnar á einstökum nemendum. Við vitum alveg hvaða afleiðingar það fyrirkomulag hefur þegar einstök sveitarfélög senda reikninga á önnur sveitarfélög og ætlast er til þess að nemendur semji um það við sveitarfélög sín að borguð séu nokkur hundruð þúsund vegna kostnaðar þeirra við námið. Það hefur auðvitað þær afleiðingar að viðkomandi nemendur hætta námi. Þetta er algerlega óviðunandi ástand og það gengur ekki að nefndir sitji árum saman yfir í raun og veru eins einföldu verkefni og þessu.

Það er sífellt verið að semja um og deila um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og það er hægt að búa til miklar flækjur í kringum svona einfalt mál. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra að það er eðlilegt að sveitarfélögin sjái um grunnstigið (Gripið fram í: Og miðstigið.) og miðstigið og ríkisvaldið um framhaldsstigið eins og þetta er núna. (Forseti hringir.) En meðan það gengur ekki verður hæstv. ráðherra að bera ábyrgð á því að það náist samkomulag um þetta svo að nemendur verði ekki fórnarlömb deilunnar.