Ríkisútvarpið ohf.

Fimmtudaginn 07. desember 2006, kl. 11:44:05 (2711)


133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:44]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson talar um að þetta frumvarp feli í sér ríkisvæðingu ljósvakamiðla og muni leiða til þess að innlend dagskrárgerð og fréttaþjónusta í einkamiðlunum verði lögð í rúst. Hann kallar það aðför að einkaaðilum á þessum markaði.

Ég leyfi mér að halda því fram að svo sé ekki. Ég held að það sé ekki hægt að vera með neina spádóma hér og nú um það hvort sú verður niðurstaðan, eins og hv. þingmaður telur sig vera í aðstöðu til að gera.

Að mínu mati er ekki um ríkisvæðingu ljósvakamiðla að ræða. Það er dálítið einkennilegt að hlusta á hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tala hér máli einkaaðila á þessum markaði og mæla mjög gegn svokallaðri ríkisvæðingu ljósvakamiðlanna.

Ég veit ekki betur en hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hafi haldið hér fjölmargar ræður um mikilvægi þess að styrkja og efla Ríkisútvarpið á fjölmiðlamarkaði. Í þeim ræðum hef ég ekki fundið fyrir mikilli umhyggju hv. þingmanns gagnvart einkaaðilum á markaðnum. Mig grunar að hv. þingmaður haldi þessar ræður núna til þess að skapa sér stundarvinsældir. (Gripið fram í.) Fyrirgefðu, frú forseti. Það er varla hægt að svara hv. þingmanni fyrir frammíköllum.

En ég held að hv. þingmaður sé að reyna að afla sér stundarvinsælda vegna þess að tal hans hér og bragur á umræðum um stöðu Ríkisútvarpsins er ekki í nokkru samræmi við hans eigin orð (Forseti hringir.) áður um stöðu Ríkisútvarpsins sem hann vill styrkja og efla númer eitt, tvö og þrjú og hefur alltaf viljað.