Ríkisútvarpið ohf.

Fimmtudaginn 07. desember 2006, kl. 16:34:29 (2721)


133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:34]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við deilum kannski ekki þeirri skoðun, ég og hv. þm. Mörður Árnason, að fólki sé vel treystandi. Ég veit ekki um hv. þingmann en ég a.m.k. treysti því að þegar menn tala fyrir frumvarpi þar sem í 1. gr. er tekið skýrt fram að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið þá standi menn við það og þau orð sem hv. þingmenn láta um það falla.

Varðandi sjálfstæði Ríkisútvarpsins þá er það tekið fram í samþykktum Framsóknarflokksins, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt.“

Ég tel að við séum einmitt að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins með þessu frumvarpi, ekki síst með því að stofna hlutafélag. Þar með eykst sveigjanleiki fyrirtækisins. Það gerir RÚV kleift að takast á við nýja tíma og breyttar aðstæður. Ég fór yfir það að það yrði samkeppnishæfara. Það treystir undirstöður þess mjög mikið.

Síðan er vert að nefna að útvarpsstjóri ber nú ábyrgð á dagskrárgerð en áður var það pólitískt skipað útvarpsráð. Ég tel það mikilvægt atriði í því að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Ég hef eiginlega talið það óþarft að pólitískt skipað útvarpsráð skipti sér af því hvað Ríkisútvarpið býður okkur upp á.

Þetta eru atriði í að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins. En auðvitað er stærsti þátturinn sá að fjárhagslegur grundvöllur þess sé tryggður.