Ríkisútvarpið ohf.

Fimmtudaginn 07. desember 2006, kl. 17:26:28 (2733)


133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:26]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Sjálfstætt og öflugt almannaútvarp var yfirskriftin að stefnu sem Samfylkingin kynnti á blaðamannafundi í morgun. Þar eru sundurliðuð meginsjónarmið okkar jafnaðarmanna í því langvinna deilumáli sem nú er uppi um Ríkisútvarpið, og segja má að hafi verið uppi allt það kjörtímabil sem nú er að enda, um fjölmiðlamálin almennt. Það hófst fyrir nokkrum árum með hinu fræga fjölmiðlafrumvarpi sem lagði ríkisstjórn Íslands nánast í rúst og batt enda á stjórnmálaferil Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar, held ég að megi segja. Það heldur nú áfram í þeim misheppnaða pólitíska leiðangri sem hæstv. menntamálaráðherra hefur verið í um nokkurra ára skeið með nýjum lögum um Ríkisútvarpið þar sem menntamálaráðherra hefur mistekist vetur eftir vetur með nánast fordæmalausum hætti að koma lögunum í gegnum Alþingi. Stefnir allt í að sá leiðangur sé að misheppnast í þriðja skiptið þar sem búið er að fresta 3. umr. fram yfir nýár, fram í janúar/febrúar, um þetta mislukkaða, illa ígrundaða og vonda pólitíska mál sem lagafrumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. er að nánast öllu leyti.

Það er sjaldan sem stjórnmálaleiðangur misheppnast með eins afdráttarlausum hætti og tilraunir hæstv. menntamálaráðherra til að koma lögum yfir Ríkisútvarpið. Það er sama hvort litið er til áframhaldandi pólitískrar stjórnunar Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpinu, það er ekki verið að létta á henni með þessu frumvarpi, þó svo að stjórnun stofnunarinnar sé breytt töluvert er áfram pólitískt kverkatak meiri hlutans á Alþingi á stofnuninni í gegnum það að stjórn Ríkisútvarpsins ohf. verður kosin árlega.

Valin er versta hugsanlega fjáröflunarleiðin, sem er nefskatturinn sem er dæmdur til þess að verða afskaplega óvinsæll meðal almennings og til þess gerður að auka á ósætti um stofnunina, sem nú þegar fær tæpa 3 milljarða kr. á ári, helminginn af því sem Háskóli Íslands kostar íslenska ríkið, og eru náttúrlega gífurlegir fjármunir.

Rekstrarformið er fráleitt, að mínu mati, og kemur ekki til greina fyrir þessa stofnun eins og hv. formaður Samfylkingarinnar kom inn á áðan, og hentar ekki utan um það sem hér um ræðir. Hefur verið margsýnt fram á það, og ekki síst í ljósi reynslunnar, að sjálfseignarformið utan um ýmiss konar rekstur í almannaþágu hefur gengið ákaflega vel í íslensku þjóðlífi síðustu ár og áratugi og virðist einboðið að fara þá leið, eins og Framsóknarflokkurinn lagði svo þunga áherslu á fyrir nokkrum árum og fullyrti að flokkurinn mundi aldrei sætta sig við að farin yrði hlutafélagaleiðin.

Þá misheppnast það í öllum meginatriðum að endurskilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins, hins nýja öfluga almannaútvarps. Það er engin vitleg eða boðleg tilraun gerð til þess í frumvarpinu að endurskilgreina það heldur er talið upp í belg og biðu nánast allt sem undir slíka stofnun getur heyrt. Það er engin spurning að með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag án þess að takmarka að neinu leyti, miðað við núverandi ástand, umfang hins ríkisrekna fjölmiðils á auglýsingamarkaði, þá er verið að auka samkeppnisforskot Ríkisútvarpsins verulega. Það gefur augaleið að það mun að sjálfsögðu bitna mjög harkalega á einkareknu fjölmiðlunum, ekki þarf að fara í ítarlegar umræður um það til að komast að þeirri niðurstöðu. Það eru 20 ár síðan frjáls ljósvakamiðlun var tekin upp á Íslandi með lögum frá Alþingi. Einkareknir ljósvakamiðlar hafa verið á íslenskum fjölmiðlamarkaði í 20 ár. Allan þann tíma hafa þeir barist í bökkum, allan þann tíma hafa þeir barist fyrir lífi sínu og allan þann tíma hefur rekstur þeirra gengið nokkuð rysjótt og oft illa. Oft hefur skort fjármagn til miðlanna og í okkar litla samfélagi þarf að sjálfsögðu að gæta mikillar sanngirni gagnvart einkareknum miðlum á markaði í ljósi hins opinbera. Þess vegna er algerlega fráleitt að ætla hinu nýja ríkisútvarpi þá stöðu sem það hefur hér og ekki er farin sú leið að takmarka auglýsingatekjur t.d. með það að markmiði, eins og Samfylkingin leggur til, að þær verði ekki hærri en 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins sem er sanngirnisleið, þá er sett þak á umfang stofnunarinnar á auglýsingamarkaði. Um leið er komið með sanngjörnum hætti til móts við bæði auglýsendur sem vilja hafa aðgang að þessum sterka og öfluga miðli, svo og einkareknu ljósvakamiðlana, burt séð frá því hverjir eiga þá hverju sinni. Allir vita að forsvarsmenn 365 og Fréttablaðsins í dag eru helbláir sjálfstæðismenn. Það vita allir að Ari Edwald og Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, eru helbláir sjálfstæðismenn. En það skiptir engu máli. Okkur ber skylda til þess á hinu háa Alþingi að setja sanngjörn lög þar sem jafnræði er virt, þar sem stjórnarskráin er virt og þar sem við brjótum ekki gegn samkeppnislögum, og þó svo að íhaldið hafi fært fyrir því rök að sérlögin um RÚV taki samkeppnislögunum fram og þar með sé ekki verið að brjóta samkeppnislög með nýju frumvarpi um Ríkisútvarpið þá er þetta algerlega óboðlegt.

Þetta frumvarp er, eins og Davíð Oddsson sagði um árið um fjölmiðlafrumvarpið þáverandi, sáttagerðina miklu sem hæstv. menntamálaráðherra kynnti, verra en ekkert. Þessi nýju lög um Ríkisútvarpið eru ómöguleg hvar sem gripið er niður er í þau. Ríkisstyrkt hlutafélag á samkeppnismarkaði vegur að sjálfsögðu að tilveru og tilverurétti einkareknu ljósvakamiðlana. Við eigum hins vegar að efla sjálfstætt almannaútvarp með því að losa það undan flokkspólitískri stjórnun. Við eigum að gefa því eðlilegt og sanngjarnt svigrúm á auglýsingamarkaði. Við eigum að leggja til þess fé áfram, að mínu mati, eins og við gerum núna, það er ekki verið að tala fyrir því að dregið verði úr þessum 2,8 milljörðum. En sú 2,8 milljarða meðgjöf hins opinbera til almannamiðilsins verður að sjálfsögðu að eiga sér skýra réttlætingu í markmiðslýsingum fjölmiðilsins.

Ríkisútvarpið er að mörgu leyti fyrirtaksfjölmiðill, það rekur öflugar fréttastofur, framleiðir talsvert af þokkalegu og sæmilegu íslensku efni og sýnir að sjálfsögðu heilan helling af erlendu sjónvarpsefni sem hefur heilmikið afþreyingargildi þótt það hafi kannski ekki mikla sérstöðu gagnvart fjölmiðlun hinna ljósvakamiðlana. Þess vegna spyr ég: Hvert er hlutverk ríkisins á fjölmiðlamarkaði? Að drepa niður frjálsa fjölmiðlun í samkeppni um amerískar sápuóperur og skemmtiþætti? Það getur varla verið. Þess vegna er metnaðarfull framtíðarsýn stjórnenda Ríkisútvarpsins að sjálfsögðu ánægjuefni, enginn efast um hana, held ég, en við verðum að gæta þess að með nýju frumvarpi, sem að sjálfsögðu hefði átt að vinna í sátt og samstöðu við alla stjórnmálaflokkana á Alþingi, náist sátt um fjölmiðlaumhverfið almennt. Það er Framsóknarflokknum að kenna að svo er ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svínbeygt Framsóknarflokkinn aftur og aftur í þessu máli, niðurlægt flokkinn með nokkuð fordæmalausum hætti. Fyrir þremur árum sagði Framsóknarflokkurinn að það kæmi aldrei til greina að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Svo er búið að fara marga hringi og niðurlægja Framsóknarflokkinn aftur og aftur.

Á dögunum var haldin mikil flugeldasýning á vegum nokkurra framsóknarmanna. Nú skyldi íhaldinu sýnt í tvo heimana, það skyldi aldeilis brotið á bak aftur og var gert áhlaup að því að Framsóknarflokkurinn styddi það að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Eftir á er það ákaflega brosleg tilraun og eiginlega hlægileg. Fyrir því var engin innstæða og það hefur ekki komið fram með neinu móti á hinu háa Alþingi að Framsóknarflokknum hafi verið nokkur einasta alvara með þessu uppþoti. Þetta var að sjálfsögðu sýndarmennska og ekkert annað. Óskandi hefði verið að Framsóknarflokknum hefði verið alvara með það að reyna að koma þessu frumvarpi út af borðinu sem verður vonandi aldrei að lögum í þessari mynd. Til að undirstrika uppþot framsóknarmanna sendi stjórn Sambands ungra framsóknarmanna frá sér ályktun um málið og hún er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna leggst gegn því að frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. verði samþykkt, og RÚV þannig gert að hlutafélagi. SUF telur að hagsmunum RÚV og almennings sé ekki best borgið með breytingu af þessu tagi, og telur vænlegra að skoða kosti þess að gera RÚV að sjálfseignarstofnun. Bendir SUF á að þekktasta almenningsútvarp heims, BBC í Bretlandi, er rekið sem sjálfseignarstofnun og er sem slíkt leiðandi í framleiðslu á bæði menningar og afþreyingarefni. Þá telur SUF að málið sé ekki nægjanlega undirbúið og telur það fráleitt að frumvarpið hafi verið lagt fram á Alþingi“ — ég endurtek, virðulegi forseti, Samband ungra framsóknarmanna telur það fráleitt að frumvarpið hafi verið lagt fram á Alþingi — „án þess að afstaða hafi verið tekin til stórra spurninga, svo sem aðkomu RÚV að auglýsingamarkaði sem og stöðu RÚV á samkeppnismarkaði almennt. Stíga þarf mjög varlega til jarðar svo að ekki myndist fákeppni á þeim markaði með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir neytendur.“ — Og taka þar undir ungir framsóknarmenn sem hafa farið mikinn hér í þinginu í líki þeirra hv. þingmanns Guðjóns Ólafs Jónssonar og hv. varaþingmanns Björns Inga Hrafnssonar. Áfram segir hér, virðulegi forseti: „SUF leggur áherslu á nauðsyn þess að hér á landi starfi öflugt ríkisútvarp, sem nái til allra landsmanna og hafi ákveðnum skyldum að gegna við framleiðslu á innlendu dagskrárefni. Það að breyta RÚV í hlutafélag telur SUF hins vegar aðeins vatn á myllu andstæðinga RÚV og þeirra sem vilja einkavæða starfsemi þess. SUF hvetur því þingmenn til þess að samþykkja ekki fyrirliggjandi frumvarp, en þess í stað leggja fyrir menntamálaráðherra að hefja undirbúning að því að breyta RÚV í sjálfseignarstofnun sem hafi að fyrirmynd breska ríkisútvarpið BBC.“

Svo mörg voru þau orð og þannig fór um flugeldasýningu þá hjá ungum framsóknarmönnum, það varð sem sagt ekkert úr henni. Engar breytingar urðu á frumvarpinu að svo komnu máli a.m.k. Við 2. umr. í dag hefur enginn framsóknarmaður talað fyrir þeim breytingum sem Samband ungra framsóknarmanna lagði svo mikla áherslu á. Hv. varaþm. og formaður borgarráðs, Björn Ingi Hrafnsson fór hamförum í tveimur fjölmiðlum heila helgi, þannig að landsmenn fengu engan frið, og fullyrti að ekki kæmi til greina af hálfu meiri hluta framsóknarmanna að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag. Síðan er liðinn hálfur mánuður og ekkert hefur spurst til þessarar skoðunar. Þessi meiri hluti framsóknarmanna er jafn heillum horfinn og restin af fylgi Framsóknar í skoðanakönnunum. Enginn framsóknarmannanna hefur talað fyrir því viðhorfi í dag, að það komi ekki til greina að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og að leggja eigi fyrir menntamálaráðherra að breyta því í sjálfseignarstofnun að fyrirmynd breska ríkisútvarpsins BBC. Fyrir þessu hefur enginn talað í dag og er það miður.

Við leggjum það til, jafnaðarmenn, að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun með eigin stjórn sem Alþingi kýs og að auki eigi starfsmenn Ríkisútvarpsins fulltrúa í stjórninni. Þannig sé tryggt að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Ein af grundvallarbreytingum sem gera þyrfti á þessu frumvarpi til þess að það kæmi til álita að styðja það er annars vegar að breyta rekstrarforminu í sjálfseignarstofnun og hins vegar að breyta ákvæðinu um stjórn stofnunarinnar í þá veru sem hér er lagt til. Meiri hlutinn á Alþingi hefði þá ekki árlega pólitískt kverkatak á stofnuninni þar sem stjórnin yrði öll kosin upp á nýtt árlega á Alþingi og það væri eilíflega ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni þar sem mönnum yrði skipt út ef þeir færu ekki eftir því sem meiri hlutinn og sitjandi menntamálaráðherra vildu hverju sinni. Þetta er algert grundvallaratriði og eitt af því versta í þessum misheppnaða pólitíska leiðangri hæstv. menntamálaráðherra, sem bíður nú í þriðja sinn afhroð, þriðja tilraunin til að koma Ríkisútvarpinu í gegnum þingið er í uppnámi núna þar sem búið er að fresta afgreiðslu málsins fram yfir áramót og segja má, semja það út af borðinu. Ekki eru miklar líkur á því að þetta misheppnaða mál hæstv. menntamálaráðherra verði nokkurn tíma að lögum í þessari mynd, enda mælir allt á móti því og maður finnur að það er vaxandi þungi í andstöðunni við málið úti í samfélaginu. Mun ég stikla á stóru um það á eftir og vitna til nokkurra umsagna sem komu til menntamálanefndar máli mínu til stuðnings.

Ríkisútvarpsmálið er að verða ríkisstjórninni sami misheppnaði pólitíski leiðangurinn og fjölmiðlafrumvarpið var á sínum tíma þegar setja átti fjölmiðlalög hér á landi til að knésetja eitt tiltekið fyrirtæki í fjölmiðlarekstri. Það átti að koma Baugi út úr fjölmiðlarekstri með mjög undarlegum frumvörpum sem tóku sífelldum breytingum eftir því hvernig málinu vatt fram en alltaf með það að markmiði að klekkja á 365 fjölmiðlum. Það var með ólíkindum að ætla að ganga þannig fram við lagasetningu. Allir vita hvernig fór um sjóferð þá. Eftir að forseti lýðveldisins beitti málskotsrétti sínum og vísaði málinu fyrir dóm þjóðarinnar voru lögin numin úr gildi og niðurlæging ríkisstjórnarinnar í málinu var alger og hefur hún aldrei borið sitt barr síðan. Eins og skoðanakannanir gefa til kynna núna er ríkisstjórnin kolfallin, það eru litlar líkur á að hún nái aftur vopnum sínum, og ekki verður þessi dapurlegi leiðangur hæstv. menntamálaráðherra til að koma þessum lögum í gegnum þingið, þriðja sinnið í röð, til þess að koma ríkisstjórnarmeirihlutanum aftur á lappirnar.

Við í stjórnarandstöðunni leggjum fram frávísunartillögu sem örlítið hefur verið rætt um í dag. Í nefndarálitinu segir um þá tillögu, með leyfi forseta.

„Í ljósi þess sem að framan greinir eiga fulltrúar minni hlutans ekki annars úrkosti en að flytja eftirfarandi tillögu:

Þar sem

a. fram hafa komið veigamiklar athugasemdir um að sams konar frumvarp um Ríkisútvarpið og fjölmiðlafrumvarpið kunni að brjóta í bága við stjórnarskrá,

b. vafi leikur á um hvort ákvæði frumvarpsins stenst reglur Evrópuréttar,

c. ekki er ljóst í frumvarpinu með hvaða hætti Ríkisútvarpið á að sinna hlutverki sínu sem almannaútvarp og hver eiga að vera skil milli starfssviðs þess og annarra útvarpsstöðva,

d. með ákvæðum um tekjur af auglýsingum og kostun er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði áfram á auglýsinga- og kostunarmarkaði án þess að ljóst sé um sérstakt hlutverk þess umfram aðrar stöðvar,

e. tillögur frumvarpsins um kjör stjórnar og ráðningu útvarpsstjóra eru ekki til þess fallnar að hefja fagleg sjónarmið til vegs og virðingar og losa Ríkisútvarpið undan flokkspólitískum ítökum,“ — þetta er mjög kjarnyrt og góð tillaga; og hún heldur áfram:

„f. ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir eftirlitsráði, t.d. í formi „akademíu“ með tilnefningum frá almannasamtökum, samanber m.a. leiðbeiningar Evrópuráðsins um verkaskiptingu stjórnar annars vegar og eftirlitsráðs hins vegar,

g. alls óljóst er hvernig háttað verður um innlent efni í dagskrá Ríkisútvarpsins til frambúðar,

h. ákvæði í frumvarpinu um „a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá“ virðist ætlað að auðvelda afnám Rásar tvö,

i. ekki hefur í frumvarpinu eða í tengslum við það verið gengið með fullnægjandi hætti frá réttindamálum núverandi starfsmanna og óljóst er um starfskjör og samningamál í framtíðinni,

j. nefskattur, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, er ekki heppileg leið til fjármögnunar, byggist á árlegri ákvörðun þingmeirihluta og felur í sér mismunun milli gjaldenda,

k. við blasir að frumvarpið ylli, ef það verður að lögum, málaferlum bæði hérlendis og á EES-vettvangi,

l. og hvorki menntamálaráðherra né meiri hluti menntamálanefndar hafa reynt að ná samstöðu um framtíð Ríkisútvarpsins sem er einhver helsta lýðræðis- og menningarstofnun í íslensku samfélagi.“

Í ljósi þessa leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá.

Þetta var nokkuð tæmandi yfirlit yfir helstu skavankana á þessu afleita máli sem hæstv. menntamálaráðherra lætur sig hafa að leggja fyrir þingið einu sinni. Bara til að fá sömu útreið aftur.

Ég ætla að vísa í nokkrar umsagnir. Mikill fjöldi umsagna barst menntamálanefnd og margar afskaplega athyglisverðar sem undirstrika hver með sínum hætti þá miklu meinbugi sem eru á frumvarpinu um Ríkisútvarpið. Í fyrsta lagi er fjallað um það sem lýtur að pólitískri stjórn á stofnuninni. Í öðru lagi er tekið til rekstrarformsins, sem er afar óheppilegt um slíka starfsemi. Í þriðja lagi fjalla menn um umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Í fjórða lagi er rætt um hlutverk nýs, sjálfstæðs, öflugs almannaútvarps á nýjum tímum og að lokum um fjáröflunarleiðina þar sem valin er versta hugsanlega leiðin, þ.e. nefskattur.

Ekki er hægt að líta fram hjá því að hlutafélagaformið greiðir jafnframt leiðina að einkavæðingu Ríkisútvarpsins í heild eða að hluta. Það er ekki hægt að líta fram hjá því atriði þar sem hluti þingflokks sjálfstæðismanna er einarður í baráttunni fyrir því að Ríkisútvarpið verði selt. Með þessu yrði að sjálfsögðu stigið skref í þá átt. Að því lýtur samkomulag Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, þ.e. að Framsóknarflokkurinn lætur beygja sig með því að gera stofnunina að hlutafélagi fyrst að tímabundin trygging er fengin fyrir því að selja það ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Samfylkingin leggst alfarið á mót einkavæðingu Ríkisútvarpsins og telur að hlutafélagsformið henti illa starfsemi almannaútvarps. Þá er ákaflega óljóst hvert hlutverk hins nýja fyrirtækis á að vera, eins og við jafnaðarmenn á Alþingi höfum gagnrýnt í öllum þeim umræðum sem hafa farið fram um Ríkisútvarpið á síðustu missirum. Í þessu nýja frumvarpi er óljóst hvert hlutverkið á að vera. Hinar óljósu skilgreiningar gefa því undir fótinn að hlutafélaginu sé, með aðstoð ríkisins, ætlað að keppa á samkeppnismarkaði við aðrar útvarpsstöðvar. Við höfum sérstaklega tekið til að það gangi ekki upp gagnvart einkareknu ljósvakamiðlunum hvað varðar auglýsingar og kostun.

Þar er keppt mjög harkalega um lítinn markað. Svigrúm frjálsrar fjölmiðlunar á ljósvakamarkaði er afar takmarkað, nái frumvarpið fram að ganga. Það er dapurlegt að fylgjast með fyrrverandi baráttumönnum fyrir hinu frjálsa framtaki og einkavæðingu að ætla að keyra þennan óskapnað í gegnum þingið. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með því. Annars vegar er barist fyrir því að selja útvarpið og hins vegar fyrir því að ríkisvæða ljósvakann á Íslandi. Það er ömurlegt að fylgjast með því, virðulegi forseti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnarmeirihluti í útvarpsráðinu nýja ráði útvarpsstjóra og reki að vild. Fyrirtækið er því áfram undirselt flokkspólitískum afskiptum og inngripum ef valdhöfum þykir þurfa. Frægt er að endemum fréttastjóramálið fyrir nokkrum missirum sem ætlaði allt um koll að keyra. Þar gengu framsóknarmenn í ríkisstjórninni einu feti of langt og allt varð vitlaust. Þeir urðu að afturkalla fréttastjórann, sem sat ekki nema frá morgunkaffi og fram að hádegi. Annar var fenginn og friður komst á. Það var mjög alvarlegt dæmi um pólitíska misbeitingu ríkisstjórnarflokkanna á Ríkisútvarpinu.

Koma þarf í veg fyrir ítrekaðar tilraunir til pólitískra inngripa og þess vegna hefði verið mikilvægt að fara þá leið sem Samfylkingin leggur til, sem er sú að að auki eigi starfsmenn Ríkisútvarpsins fulltrúa í stjórninni, sem er sjálfsagt mál. Þannig er tryggt að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni. Það væri mikil bót á þessu frumvarpi.

Þá ber einnig að harma að nefskattsleiðin skuli valin þar sem nefskatturinn er almennt óheppileg leið til tekjuöflunar, sérstaklega fyrir fjölmiðil, og ólíklegur til að efla samstöðu um stofnunina. En auðvitað þarf að vera víðtæk sátt og samstaða um rekstur Ríkisútvarps almennt sem fær um 3 milljarða kr. á ári frá almenningi, úr vösum skattgreiðenda. Það væri að mínu mati hægt að réttlæta með góðum og öflugum almannamiðli sem tryggði hlutlausa, fyrsta flokks fréttamiðlun, framleiðslu á innlendu efni, miðlun á menningartengdu efni hljóðvarps og sjónvarps sem ekki er sinnt annars staðar o.s.frv. Það er ekki málið og margt af því gerir Ríkisútvarpið ljómandi vel í dag.

Ef Ríkisútvarpið losnaði við inngrip og fyrirstöður Sjálfstæðisflokksins tel ég að fjölmiðillinn mundi blómstra, ekki síst fengi hann lagaumgjörð sem hentaði, eins og þá sem við leggjum til, að útvarpið yrði sjálfseignarstofnun þar sem umfangið á auglýsingamarkaði yrði takmarkað að einhverju leyti og erindið nokkuð skýrt. Erindi hins nýja, sjálfstæða og öfluga almannaútvarps yrði skýrt. Þetta frumvarp þyrfti að taka stakkaskiptum til að möguleiki væri á því að það yrði til bóta fyrir Ríkisútvarpið.

Í athyglisverðri umsögn frá Útvarpi Sögu sem er undirrituð af Arnþrúði Karlsdóttur útvarpsstjóra segir m.a. um frumvarpið, með leyfi forseta:

„Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 2. töluliðs í 4. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið hafi heimild til þess að afla tekna með því að selja og birta auglýsingar er tengjast dagskrárefni í útvarpi og öðrum miðlum. Samkvæmt núgildandi lögum er t.d. óheimilt að selja auglýsingar til birtingar á heimasíðu Ríkisútvarpsins samanber niðurstöðu umboðsmanns Alþingis … Það fyrirkomulag að Ríkisútvarpið skuli vera áfram á kostunar- og auglýsingamarkaði hlýtur að teljast mjög ósanngjarnt sérstaklega í ljósi þess að Ríkisútvarpinu eru tryggðar tekjur úr ríkissjóði. Með þessu nýja frumvarpi er stefnt að því að stórauka auglýsingatekjur útvarpsins með því að heimila RÚV að selja og birta auglýsingar á netinu.“

Fyrir þetta atriði var tekið að kröfu stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Áfram segir, virðulegi forseti:

„Því hefur verið haldið fram að með framlögðu frumvarpi sé verið að lögfesta það fyrirkomulag sem sé eðlisskylt því ástandi sem ríkir í nágrannalöndum okkar, þar á meðal á hinum Norðurlöndunum. Þessi staðhæfing er alröng,“ segir Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.

Í lokin segir hún að ríkisfjölmiðlar á hinum Norðurlöndunum, þ.e. í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, banni alfarið auglýsingar bæði í útvarpi og á netinu. Það er grundvallarmunur á stöðu hinna norrænu ríkismiðlanna og RÚV. Þetta er algjört grundvallaratriði. Hið sama á við um BBC, sem er líklega einn besti fjölmiðill í heiminum, sem hefur blómstrað sem aldrei fyrr undir stjórn Verkamannaflokksins síðustu níu ár og fer á kostum. Að sjálfsögðu eigum við að leita í smiðju til Norðurlandanna og Bretlands en ekki fara þessa afkáralegu fjallabaksleið sem hæstv. menntamálaráðherra er á þriðja skipti, einum misheppnaðasta leiðangri sem hún hefur farið í hvað varðar Ríkisútvarpið hingað til. Það er eftirtektarvert hvað frumvarpið tekur litlum breytingum til hins betra á milli ára.

Þetta mál er að verða minnisvarðinn yfir kjörtímabili ríkisstjórnarinnar. Vandræðagangurinn í málefnum íslenskra fjölmiðla er algjörlega dæmalaus og með ólíkindum. Ég held að enginn hefði séð slíkt fyrir við upphaf kjörtímabilsins þar sem lítið var rætt um fjölmiðlaumhverfið nema af örfáum baráttumönnum fyrir betrumbótum á því sviði úr liði stjórnarandstöðunnar.

Mörg önnur innsend erindi til menntamálanefndar vöktu athygli og renndu stoðum undir málflutning stjórnarandstöðunnar í málinu, sem hefur verið sameinuð í málinu, leggur fram sameiginlegt nefndarálit og vel rökstudda frávísunartillögu í þessu máli. Í mjög athyglisverðu erindi frá Viðskiptaráði Íslands er undirstrikað mikilvægi þess að gæta verði sanngirni gagnvart einkareknu ljósvakamiðlunum við lagasetningu um Ríkisútvarpið. Niðurstaða Viðskiptaráðsins, sem er undirrituð af Davíð Þorlákssyni, lögfræðingi þess, er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi menntamálaráðherra er verið að blása til sóknar í ríkisrekstri gegn einkarekstri sem hefur þegar haslað sér völl á markaðnum. Þessi framganga ríkisins spillir heilbrigðum rekstrarskilyrðum á fjölmiðlamarkaði. Þannig liggur í augum uppi að ef frumvarpið fjallaði ekki um Ríkisútvarpið heldur fyrirtæki í einhverri annarri atvinnustarfsemi í landinu sæist glögglega hve frávik frá eðlilegum leikreglum markaðarins eru hrópandi í frumvarpinu.“

Ég tek undir hvert einasta orð, virðulegi forseti, með Viðskiptaráðinu í þessu efni. Áfram segir:

„Að sama skapi hefur Viðskiptaráð margoft bent á það að ríkinu beri skylda til að sporna gegn frekari útgjaldaþenslu með því að gæta aðhalds í rekstri sínum, draga úr starfsemi hins opinbera …Fyrirliggjandi frumvarp um Ríkisútvarpið er síst til þess fallið að uppfylla slíkar skyldur.“

Nú geta menn deilt um þessa málsgrein. En þó hlýtur það að vera frumskylda hins opinbera að gæta jafnræðis gagnvart atvinnurekstri á sama markaði og starfsemi hins opinbera. Fram að þessu hefur verið nokkuð víðtæk sátt um að ríkið skuli halda úti opinberum ljósvakamiðli. Það er t.d. ekki sátt, að ég tel, um að Ríkisútvarpið stofnsetji dagblað og fari að reka dagblað í bullandi samkeppni við Morgunblaðið, Blaðið og Fréttablaðið. Þeir eru ekki enn þá farnir að tala fyrir því hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem annars vegar vilja selja Ríkisútvarpið og hins vegar ríkisvæða ljósvakann. Nú bíður maður eftir því að þeir fari að berjast fyrir því að stofna ríkisdagblað. Þá væru þeir komnir í hring, þangað sem þeir stefna með þessu frumvarpi.

En ég tel að enn þá sé sátt um að ríkið reki ljósvakafjölmiðil, öflugt sjónvarp og öflugt útvarp sem gegnir hlutverki og miðlar öðru efni en hinir einkareknu miðlar gera. En það er hins vegar fullkomlega óásættanlegt á þessum litla markaði að fyrirferð og umfang ríkisins á markaðnum verði með þeim hætti í framtíðinni að hún boli einkarekstri þannig frá að framleiðsla á íslensku efni, miðlun frétta og rekstur á einkarekinni fréttastofu eins og Fréttastofu Stöðvar 2 verði lögð af. Nú veit enginn hvort það gerist eða ekki, það hefur enginn hugmynd um. En ef ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins ætlar áfram að þrengja að einkarekstri á ljósvakamarkaði þá endar það að sjálfsögðu með ósköpum. Ef Sjálfstæðisflokknum tekst að ríkisvæða ljósvakann með þeim hætti sem hér er verið að gera þá endar það með því að eitthvað gefur eftir. Það er með ólíkindum að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum í þessu máli, algerlega með ólíkindum. Fyrst koma helstu talsmenn frjálsra viðskipta í Sjálfstæðisflokknum fram og flytja frumvarp um að selja Ríkisútvarpið. Nokkrum mánuðum seinna eru þeir farnir að berjast fyrir því að það eigi að ríkisvæða ljósvakann með því að gera Ríkisútvarpið miklu öflugra og segja að það komi ekki til greina að selja útvarpið, það sé alls ekki verið að stíga skref í þá átt. Þar eru þeir komnir í marga hringi, blessaðir mennirnir. Þess vegna er athyglisvert að líta til álita frá þeim stofnunum sem fram að þessum undarlega áratug í sögu Sjálfstæðisflokksins voru kannski þau samtök sem höfðu hvað mest áhrif á pólitíska skoðanamyndun innan flokksins, atvinnulífið, viðskiptaráðið og fleiri aðilar. Þeir eru nú algerlega á skjön við Sjálfstæðisflokkinn í málinu sem er kominn út í einhverjar ógöngur, eitthvert undarlegt fen sem hann kemst ekki upp úr nema kannski með ráðherraskiptunum næsta vor þegar hægri stjórnin fellur og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hundskast af bekkjunum. Þá loksins kemst ríkisstjórnin út úr þessum ógöngum. Það er undirstrikað vel hér.

Aðeins um rekstrarformið en í erindi viðskiptaráðs segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðskiptaráð getur tekið undir þær raddir að heppilegt sé að færa RÚV í nútímalegra rekstrarform en áréttar um leið að tilgangur slíkrar breytingar eigi að vera að liðka fyrir sölu einstakra rekstrareininga þess.“

Sem sagt, einungis réttlætanlegt ef á að selja. Nú er ég eindregið á móti því að selja Ríkisútvarpið. Sjálfstæðisflokkurinn segist vera á móti því, Framsóknarflokkurinn var á móti því, a.m.k. síðast þegar fréttist en um leið og þeir vildu alls ekki gera það að hlutafélagi, þá voru þeir líka á móti því. Það kemur kannski í ljós ef hv. þingmenn, t.d. Hjálmar Árnason og Guðjón Ólafur Jónsson, sem hafa farið mikinn í málefnum útvarpsins í dag og síðustu missiri, koma með sínar glöggu framsögur síðar í kvöld. Hvar er Framsóknarflokkurinn í dag? Það er stóra spurningin í dag. Framsóknarflokkurinn hefur haft fjórar afstöður á þremur árum. Ég held að sá vingulsháttur Framsóknarflokksins í málefnum Ríkisútvarpsins sé einhvers konar met. Flokkurinn hefur skipt um skoðun jafnoft og Sjálfstæðisflokkurinn hefur kreppt hnefann framan í þá og í hvert sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hótað þeim einhverju ef þeir samþykki ekki málið þá hefur flokkurinn beygt af leið og samþykkt hverja vitleysuna á fætur annarri.

Samtök atvinnulífsins hafa lagst mjög harkalega gegn þessu frumvarpi á mjög málefnalegum forsendum að því er mér finnst og ég ætla að vísa í nokkrar þeirra, með leyfi forseta:

„En nú er Ríkisútvarpið staðreynd og starfar á fjölmiðlamarkaðnum í mikilli samkeppni við önnur fyrirtæki. Með áformuðum breytingum verður Ríkisútvarpið mun öflugri keppinautur en áður þar sem sveigjanleikinn í rekstrinum verður aukinn og litlar hömlur eru lagðar á þróun starfseminnar. Þótt sérstaklega sé kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað á milli útvarpsþjónustu í almannaþágu og annars reksturs er ekki líklegt að það muni virka í þessu tilviki þar sem skilgreiningin á útvarpsþjónustu í almannaþágu er svo rúm að hún getur náð yfir langstærstan hluta starfsemi RÚV. Því er hætt við að mjög þrengi að keppinautum Ríkisútvarpsins og það fái algera yfirburði á markaðnum í krafti 2,8 milljarða kr. árlegs ríkisstyrks, með þeim afleiðingum að í heild verði framboð af efni fábreyttara og einhæfara en það er nú. Með hliðsjón af þessu verður að mati Samtaka atvinnulífsins aldrei friður um Ríkisútvarpið ohf. í fyrirhugaðri mynd.

Samtök atvinnulífsins telja að önnur leið sé æskilegri. Hún felst í því að Ríkisútvarpið starfi á sambærilegum grunni og önnur fyrirtæki á markaðinum, þ.e. verði áskriftarmiðill án skylduáskriftar, leiti eftir viðskiptavinum eins og keppinautarnir og hefði af því tekjur. Hins vegar þarf líka að huga að því hvernig Ríkisútvarpið þróast frá stofnun að fyrirtæki og væri ekki óeðlilegt að einhver aðlögunartími gæfist. Slíkt mætti gera með því að stofna sérstakan sjóð fyrir framleiðslu og dreifingu á íslensku menningarefni sem hefði t.d. 700–800 millj. kr. árlega til ráðstöfunar. Í fyrstu gæti allt þetta fé runnið til útvarpsins ohf. vegna umframkostnaðar fyrirtækisins en smám saman eða á 10 ára tímabili ætti föst hlutdeild þess að lækka en hinn hluti styrksins að úthlutast á samkeppnisgrundvelli. Ríkisútvarpið jafnt sem aðrir framleiðendur og dreifiaðilar hefðu því aðgang að þessu fé. Þannig gætu smám saman fleiri komið að framleiðslu og dreifingu efnis sem mundi tryggja aukna fjölbreytni og stuðla að meiri gæðum auk þess sem jafnræði yrði milli keppinauta á markaðnum. Með slíkri leið yrði markmiðum um stuðning við íslenska menningu náð mun betur en nú er auk þess sem hún yrði langtum kostnaðarminni fyrir skattgreiðendur. Sú leið sem fyrirhuguð er í frumvarpinu byggir hins vegar frekar á því að íslensk menning verði til innan veggja stofnunar eða fyrirtækis ríkisins fremur en hún verði til, dafni og þróist meðal landsmanna almennt.“

Áfram segir, virðulegi forseti: „Verði það engu að síður niðurstaða Alþingis að engin alvarleg tilraun verði gerð til að færa aðkomu ríkisvaldsins að útvarpsstarfsemi til nútímahorfs heldur fylgja þeirri stefnu sem í frumvarpinu felst, telja Samtök atvinnulífsins óhjákvæmilegt að bæta ákvæðum í lögin sem takmarka starfsheimildir RÚV við núverandi stöðu og leitast þannig við að fyrirbyggja að RÚV misbeiti yfirburðarstöðu sinni á markaði sem fjármögnun félagsins mun færa því. Í þessu felst m.a. að ekki ætti að heimila RÚV kostun samanber 2. tölulið 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins og takmarka ætti sölu á auglýsingum t.d. við meðaltal útsendingartíma undanfarinna fimm ára eða svo. Þá ætti ekki að heimila RÚV að færa út kvíarnar á sviði nýrrar tegundar fjölmiðla eða stafrænnar tækni.“

Að lokum segir í umsögn 365 miðla, með leyfi forseta: „Útvarpsrekstur var sem kunnugt er gefinn frjáls fyrir 20 árum síðan og það er ljóst að einkaaðilar hafa á þessum tíma staðið sig vel, sýnt mikið frumkvæði og aukið fjölbreytni í fjölmiðlun. Vegna yfirburðarstöðu sem fjármögnun RÚV hefur skapað stofnuninni hafa skilyrði einkaaðila þó verið afar erfið. Má sem dæmi nefna rekstur fréttastofa, en Skjár 1 varð á sínum tíma að leggja af rekstur fréttastofu. NFS innleiddi nýlega mjög áhugaverða nýbreytni frá sjónarhóli áhorfenda en hefur þar þurft að draga nokkuð í land vegna erfiðleika í rekstri. Frá sjónarhóli tjáningarfrelsis og frjálsra skoðanaskipta í landinu er afar mikilvægt að rekstur frjálsra ljósvakamiðla á fréttastofum fái staðist og geti áfram haldið við hliðina á Ríkisútvarpinu.“

Þetta segir í umsögn til menntamálanefndar um frumvarpið frá Samtökum atvinnulífsins og kennir þar margra grasa og margt sem er hægt að taka undir. Þá hafa verið raktar ágætlega í dag þær alvarlegu athugasemdir sem komu fram hjá samkeppniseftirlitinu og er talið að gangi frumvarpið fram í óbreyttri mynd gæti það leitt til málaferla bæði innan lands og á EES-svæðinu um langt árabil, sérstaklega þar sem gæti verið um að ræða brot á stjórnarskrá og jafnræðisreglu hennar. Það er auðvitað grafalvarlegt mál þegar löggjafinn gengur svo fram í lagasetningu, meiri hlutinn hér á þinginu, með jafnalvarlegt álit og þetta frá samkeppniseftirlitinu í farteskinu og eina réttlætingin fyrir lagagerðinni er sú að frumvarpið brjóti ekki samkeppnislög í þeim skilningi að sérlög taki fram almennum lögum. Það er mjög hæpið vað og hættuleg þróun.

Rétt aðeins til að undirstrika þau gífurlegu áhrif sem þessi lagagerð hefur. Það hefur verið rætt áður að það hefði verið mikilvægt að þessi lagasetning hefði átt sér stað samtímis og með nýjum fjölmiðlalögum af því að lögfestingin á þessu frumvarpi hefur áhrif á fjölmiðlamarkaðinn allan langt út fyrir þetta eina fyrirtæki og segir í umsögn frá 365 miðlum, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir áframhaldandi fjáraustri af almannafé til eins fyrirtækis sem á í samkeppni við einkafyrirtæki í nákvæmlega sömu starfsemi.“ Þetta er náttúrlega fullyrðing sem ég tel að standist ekki þar sem við göngum út frá því að hjá þessum fyrirtækjum sé ekki um nákvæmlega sömu starfsemi að ræða þar sem hlutverk Ríkisútvarpsins er að halda úti öflugri innlendri dagskrárstefnu og miðlun 1. flokks dægurefnis og frétta og við leggjum til þess eðlilegt fjármagn sem hægt sé að réttlæta. En áfram segir: „Slíkt skekkir samkeppnisstöðu með ýmsum hætti, t.d. bæði á auglýsingamarkaði og við innkaup á erlendu afþreyingarefni. Er það vafalaust rétt sem útvarpsstjóri kemur inn á í grein í Morgunblaðinu 19. janúar sl. að núverandi dagskrá má framleiða með hagkvæmari hætti en nú er gert. Það mun fría upp mikla fjármuni sem RÚV getur beitt í samkeppni við einkafyrirtæki sem þurfa að standa á eigin fótum. Þessi atlaga að heilbrigðum rekstrargrundvelli fjölmiðlafyrirtækja er án efa mikil hindrun í vegi fyrir aukinni fjölbreytni í íslenskum fjölmiðlum.“

Samkeppnisaðilar Ríkisútvarpsins sjá þetta sem sagt sem alvarlega atlögu að starfsemi sinni sem hlýtur að draga það fram hve alvarlegt málið er og hve alvarlega aðrir fjölmiðlar taka þessa lagabreytingu og hve miklar afleiðingar lagasetningin getur haft á allan fjölmiðlamarkaðinn í framhaldinu.

Rétt í lokin ætla ég að ljúka tilvitnunum í þau erindi sem mér þótti hvað brýnust inn í þessa umræðu. Hér hefur verið farið víða í dag og það hefur verið rætt ítarlega um hversu óheppilegt þetta rekstrarform er fyrir Ríkisútvarpið, nefskattsleiðin sé óheppileg fjáröflunarleið, það sé óheppilegt að áfram sé pólitísk stjórnun eða að jafnvel sé hert á henni á stofnuninni með þeirri breytingu sem gera á í staðinn fyrir að losa þar um. Loks hefur verið rætt um hvað það sé í rauninni óeðlilegt að ekki sé stigið skref í átt að því að takmarka með sanngjörnum hætti, bæði fyrir Ríkisútvarpið og fyrir einkareknu miðlana, umfang útvarpsins á auglýsingamarkaði. Hér segir, með leyfi forseta, í umsögn frá 365:

„Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu tíðkast það hvergi á Norðurlöndunum né í Bretlandi að ríkisrekin ljósvakafyrirtæki starfi á auglýsingamarkaði …“

Fyrir því liggja hin augljósu rök að með því er þrengt um of að starfsemi einkarekinna fyrirtækja á sama markaði. Hin hliðin á málinu er sú að einkareknar ljósvakastöðvar eru í harðri samkeppni við Ríkisútvarpið í innkaupum á íþrótta- og afþreyingarefni og um starfsfólk þar sem Ríkisútvarpið hefur ekki hikað við þátttöku í yfirboðum þrátt fyrir þá staðreynd að stofnunin hefur verið rekin með umtalsverðu tapi á liðnum árum. Þarna er einnig talað um að ef gengið væri svo langt að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði, sem ég held að eigi ekki að gera, ég held að það eigi að finna sanngjarna hlutfallstölu eins og Samfylkingin leggur til, þ.e. að fjármögnun RÚV verði blönduð annars vegar með ríkisframlagi en hins vegar með auglýsingatekjum sem þó lækki frá því sem nú er og verði ekki hærri en 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins. Að mati 365 mundi afleiðing þess að Ríkisútvarpið yrði tekið af auglýsingamarkaði, með leyfi forseta, vera þessi:

„Svigrúm einkarekinna fjölmiðla til aukinnar dagskrárgerðar mundi aukast verulega. Á stuttum tíma mundi það leiða til þess að fleiri einkaaðilar mundu sjá sér hag í að hefja starfsemi á ljósvakamarkaðnum hér á landi,“ sem er ekki óeðlileg ályktun af því að við erum að tala um milljarð kr. á hverju ári sem eru gífurlegir fjármunir að sjálfsögðu og áfram segir: „Að mati 365 ætti það að vera í samræmi við stefnu núverandi stjórnarflokka.“

Það hefði að sjálfsögðu gífurleg áhrif. Ég tel að það eigi ekki að ganga svo langt, alls ekki. Ég held að Ríkisútvarpið eigi að vera á auglýsingamarkaði áfram og færi rök fyrir því út frá ýmsum hliðum.

Þá í lokin, virðulegi forseti, kom fram mjög vandað álit frá samtökunum Hollvinir Ríkisútvarpsins sem er undirritað af Margréti Sverrisdóttur, formanni samtakanna. Þar segir, svona rétt til að undirstrika að það er fólk alls staðar að úr samfélaginu sem hefur áhuga á málefnum Ríkisútvarpsins og vill, eins og við, halda úti sjálfstæðu, öflugu almannaútvarpi, með leyfi forseta:

„Grundvallarstefna Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins er andstaða við hlutafélagavæðingu þess. Samtökin telja að með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi í eigu hins opinbera verði hlutverki þess sem þjóðarútvarps ógnað.“ Hvorki meira né minna, virðulegi forseti, þá telja Hollvinasamtökin að hlutverki Ríkisútvarpsins væri verulega ógnað.

Áfram segir: „Ríkisútvarpið hefur hingað til haft skyldum að gegna umfram það sem markaðsfyrirtæki sinna, svo sem mikilvægu öryggishlutverki og framleiðslu á íslensku menningarefni fyrir útvarp og sjónvarp. Vegna eðlis hlutafélaga er ljóst að með því að gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi rofna þau tengsl sem það hefur haft sem þjóðarútvarp um menningarlega og samfélagslega ábyrgð. Þess vegna leggjast samtökin gegn frumvarpi þessu.

Í 1. gr frumvarpsins, sem varðar eignaraðild, er að vísu ákvæði um að ekki megi selja félagið eða hluta þess og hnykkt á því í athugasemdum með frumvarpinu að engin áform séu um slíkt. En öllum lögum má breyta sé fyrir því meiri hluti á Alþingi og Hollvinasamtökin minna á að sporin hræða vegna þess að hingað til hafa opinber fyrirtæki sem breytt hefur verið í einkafyrirtæki nær undantekningarlaust verið seld.“

Sporin hræða, virðulegi forseti, og ég held að þeir sem velta þessum málum fyrir sér, utan hægri sinnaðasta kjarnans í Sjálfstæðisflokknum, óttist almennt að þetta sé skref í einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Það vita allir að innan þingflokks sjálfstæðismanna eru öflugir baráttumenn fyrir því að Ríkisútvarpið verði einkavætt og selt og nokkrir þingmenn flokksins hafa flutt um það sérstakt frumvarp, einu sinni eða tvisvar á Alþingi á þessu kjörtímabili. Þess vegna hljómar það mjög ótrúverðugt þegar þeir hinir sömu menn halda því fram að ekki sé verið að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið með það að markmiði í framtíðinni að selja það. Þetta óttast mjög margir eins og fram kemur í álitum frá hinum þverpólitísku borgarasamtökum sem Hollvinir Ríkisútvarpsins gefa sig út fyrir að vera. Þar segir áfram í lokin, virðulegi forseti:

„Þá má benda á að áformuð breyting gerir Ríkisútvarpið að eign sem kallar á aðrar áherslur. Ríkisútvarpið verður fyrst og fremst rekstrareining í stað þess að verða sjálfstætt, virt, skapandi og gagnrýnið afl í samfélaginu. Á Alþingi heyrast háværar raddir um að rétt sé að einkavæða Ríkisútvarpið og meirihlutavilji þingsins getur breyst fyrr en varir.“ Minna þau á umrætt frumvarp sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins fluttu fyrir nokkrum missirum um að þeir vildu selja Ríkisútvarpið.

Þá aðeins um það atriði sem ég held að skipti mjög miklu máli sem eru flokkspólitísk ítök meirihlutaflokkanna á Alþingi í Ríkisútvarpinu. Ég held að það sé nokkuð almenn og útbreidd skoðun að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hvað eftir annað um árabil, ef ekki áratuga skeið, reynt að misbeita pólitísku valdi sínu í Ríkisútvarpinu. Að sjálfsögðu er það algert grundvallaratriði þegar nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið er lagt fram og fer í gegnum Alþingi að losað sé um þetta pólitíska tak sem sumir kalla kverkatak á stofnuninni. Það er algert grundvallaratriði.

Áfram segir í umsögn Hollvinasamtakanna, með leyfi forseta:

„Hollvinasamtökin leggja áherslu á að lengra verði gengið í að losa stjórn Ríkisútvarpsins ohf. undan hinu flokkspólitíska valdi og meirihlutavaldi Alþingis hverju sinni en gert er í frumvarpinu og telja nauðsynlegt að nánar sé kveðið á um stjórn Ríkisútvarpsins. Ef það á að vera lýðræðisleg stofnun verður við að líta framhjá þrengstu skilgreiningu á fulltrúalýðræði og taka upp fyrirkomulag sem gæti leitt til almennari sáttar um það. Það verður að mati Hollvinasamtakanna best gert með því að fara í gagnstæða átt við þá stefnu sem mörkuð er í frumvarpinu og hafa æðstu stjórn stofnunarinnar enn breiðari en þar er gert ráð fyrir.

Víða í nágrannalöndum okkar er æðsta stjórn ríkisútvarps skipuð fulltrúum ýmissa fjölmennra hópa í þjóðfélaginu. Innan Hollvinasamtakanna hefur verið rædd sú hugmynd að æðsta stjórn Ríkisútvarpsins verði að hluta til akademísk, þ.e. í henni ættu sæti lýðræðislega kjörnir fulltrúar stjórnmálaflokkanna á Alþingi ásamt fulltrúum almennings, eigenda útvarpsins, þeirra sem nýta sér þjónustu þess.“

Síðan eru taldir upp möguleikar á stærð slíkrar akademíu, aðkomu verkalýðshreyfingar, almannasamtaka, háskólasamfélagsins, fjölmiðla og fleiri að slíkri akademíu sem hlýtur að vera spennandi hugmynd sem við hljótum að skoða með opnum augum þegar við setjum sjálfstæði og öflugu almannaútvarpi nýrra tíma lagaramma. Þetta er mjög athyglisvert.

Samfylkingin kynnti í morgun tillögur sínar í fimm liðum og þar kemur fram það sem mestu skiptir og við höfum verið að ræða hér.

Það er í fyrsta lagi að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun með eigin stjórn sem Alþingi kýs og starfsmenn Ríkisútvarpsins eigi fulltrúa í stjórninni og þar með tryggt að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni eins og hefur verið gagnrýnt mjög harkalega á undanförnum vikum, það sé einfaldlega óeðlilegt af hálfu meiri hlutans í þinginu að leggja þessa breytingu til og viðhalda þannig pólitísku taki á stofnuninni.

Í öðru lagi leggjum við til að almenningur eigi aðkomu að stefnumótun Ríkisútvarpsins fyrir tilstilli sérstaks hlustendaþings sem komi saman einu sinni á ári. Útvarpsráð verði lagt niður og pólitísk afskipti af innri málefnum útvarpsins afnumin, algert grundvallaratriði, virðulegi forseti. Þá leggjum við til, eins og ég hef gert mjög að umtalsefni í dag og undanfarin missiri í þessum atrennum til að breyta lögum um Ríkisútvarpið, að fjármögnun útvarpsins verði blönduð, annars vegar með ríkisframlagi en hins vegar með auglýsingatekjum sem þó lækki frá því sem nú er og verði ekki hærri en 15–20% af heildartekjum útvarpsins. Þá viljum við að dagskrárstefnan miðist við öflugan fréttaflutning, menningarmiðlun, fræðslu og lýðræðislega umræðu. Með því móti verði hlutverkið skýrt skilgreint þannig að Ríkisútvarpið skeri sig mjög áberandi frá dagskrárstefnu og efnismiðlun einkareknu ljósvakamiðlanna og hafi þar skýra og klára sérstöðu þannig að réttlætingin fyrir tilvist þess sé skýr. Það stuðli að pólitískri og menningarlegri fjölbreytni, sé spegill samfélagsins með áherslu á innlenda dagskrárgerð í sjónvarpi þar sem blöndun verður hæfileg o.s.frv.

Þá leggjum við mikið upp úr mikilvægi þess að útvarpið verði sjálfstætt, óháð stjórnmála- og viðskiptahagsmunum og að starfsmenn þess búi við ritstjórnarlegt sjálfstæði sem m.a. tryggir faglega umfjöllun um menn og málefni á vettvangi stjórnmála og atvinnulífs og skýr aðgreining verði mörkuð í dagskrá milli dagskrárgerðar og auglýsinga.

Þetta eru helstu þættirnir sem við leggjum til og þar sem þá er ekki að finna í frumvarpinu leggjumst við gegn frumvarpinu og hugmyndum hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. þar sem hlutafélagið greiðir leið að einkavæðingu útvarpsins í heild eða hluta. Að okkar mati er óljóst um hlutverk hins nýja fyrirtækis þar sem skilgreiningin á hlutverki RÚV er óljós og hefur ekki tekist að skerpa eða skilgreina upp á nýtt að neinu marki þrátt fyrir margar atlögur að þessari lagasetningu. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem RÚV sé með aðstoð ríkisstyrks ætlað að keppa á samkeppnismarkaði við aðrar útvarpsstöðvar, m.a. á markaði auglýsingar og kostunar.

Þá er einnig það grundvallaratriði sem gert er að umtalsefni, að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnarmeirihlutinn í útvarpsráði ráði útvarpsstjóra og reki að vild og fyrirtækið sé því áfram undirselt flokkspólitískum afskiptum og inngripum er valdhöfum þykir þurfa.

Þá teljum við nefskattinn óheppilega leið til fjáröflunar sem sé ekki líklegur, heldur þvert á móti, til að efla samstöðu um útvarp af því að við verðum að viðhalda þjóðarsátt um öflugt ríkisútvarp þar sem almenningur leggur til með því nú þegar hátt í 3 milljarða á ári sem eru gífurlegir fjármunir og þess vegna mikilvægt að viðhalda víðtækri sátt. Þess vegna hefði verið ákjósanlegt að fara með málið í þann farveg að ná um það þverpólitískri sátt, vinna frumvarpið í gegnum nefnd skipaða fulltrúum allra flokkanna en því miður hefur hæstv. menntamálaráðherra þvertekið fyrir það og komið með frumvarpið lítið breytt, nema þá heldur til hins verra, ár eftir ár.