Ríkisútvarpið ohf.

Fimmtudaginn 07. desember 2006, kl. 23:23:52 (2749)


133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að mótmæla þeim ummælum eða staðhæfingu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, að fyrir því sé meirihlutavilji í samfélaginu að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Það er mitt mat að svo sé ekki og því fari reyndar fjarri.

Hv. þingmaður vitnaði í rithöfund, las úr grein hans, rithöfundinn Þórarin Eldjárn, sem greinilega er á því máli að fara eigi leið ríkisstjórnarinnar. Ég get vitnað í fjöldann allan af listamönnum og rithöfundum. Ég get vitnað í menn sem þekkja bærilega til, ég get vitnað til ummæla (Gripið fram í.) Hrafns Gunnlaugssonar, sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra hjá sjónvarpinu. Hann telur þetta frumvarp vera tilræði við Ríkisútvarpið. Hvað með BÍL? segir hæstv. ráðherra, Bandalag íslenskra listamanna. Það var ljótur leikur sem leikinn var gagnvart þeim samtökum síðastliðið vor þegar útvarpsstjóri kallaði fulltrúa þeirra inn á skrifstofu sína og sagði að það sem máli skipti væri að fá niðurstöðu í þessu máli þannig að óvissuástandi yrði aflétt. Í ljósi þessa studdu þeir það sjónarmið. Það sem þessir einstaklingar gerðu sér ekki grein fyrir, og ég tel að þeir hafi verið plataðir og leikinn hafi verið ljótur leikur, þeir töldu einfaldlega að menn mundu greiða atkvæði í þinginu samkvæmt eigin samvisku. Það sem útvarpsstjóri vissi hins vegar var að ef málið færi til endanlegrar atkvæðagreiðslu yrði það samþykkt. Ef frumvarpið verður samþykkt hins vegar þá fyrst er Ríkisútvarpið komið í óvissu, vegna þess að okkur fjölgar í samfélaginu sem höfum efasemdir um að rétt sé að þvinga fólk til að borga skatt til starfsemi sem er tekin undan þeirri lagasmíð sem hefur verið hönnuð um opinbera starfsemi.

Mér finnst það dapurlegt hlutskipti fyrir alþingismenn að taka þátt í því að svipta starfsfólk réttindum sínum gegn mótmælum starfsmanna. Það er óvefengjanlegt að þetta frumvarp mun rýra réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins. Útvarpsstjóri hefur lýst því yfir að þegar fram líða stundir muni kjaramunur aukast innan Ríkisútvarpsins. Finnst mönnum það allt í lagi? Finnst mönnum það vera í lagi að færa alla dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu undir einræðisvald eins manns, að færa allt mannahald undir einræðisvald eins manns? Að svipta starfsfólk aðkomu að stjórn Ríkisútvarpsins? Nokkuð sem starfsfólkið samdi um á níunda áratugnum, ég þekki það mjög vel, ég tók sjálfur þátt í þeim samningum. Öllu þessu á að svipta brott. Menn telja sig vera að halda inn í framtíðina með því að gera þessa merku stofnun háða einræðisvaldi. Sá sem kemur til með að ráða þar ríkjum verður fyrir sitt leyti ráðinn af meirihlutavaldi sem stýrir ríkisstjórn á hverjum tíma. Finnst mönnum þetta vera í átt til framfara? Mér finnst dapurlegt að alþingismenn skuli ætla að láta hafa sig í þann ljóta leik, mér finnst það dapurlegt hlutskipti fyrir Framsóknarflokkinn sem maður hafði von um að gæti staðið í fæturna einu sinni og mundi gera það í þessu máli.