Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 16:47:57 (2863)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

álbræðsla á Grundartanga.

93. mál
[16:47]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

Þetta er í rauninni afskaplega einfalt mál. Það lýtur að tveimur efnisatriðum, annars vegar því að eigendur Norðuráls hafa ákveðið að breyta félaginu úr hlutafélagi í einkahlutafélag. Hinn þátturinn lýtur í rauninni að smávægilegri skattameðferð sem tengist fyrst og fremst tvísköttunarsamningum og meðferð arðs eftir búsetu eigenda.

Nefndin fékk til sín góða gesti. Skoðaði málið að sjálfsögðu ítarlega. Hverjir gestir voru má lesa á þingskjali 551. Til að gera langa sögu stutta þá mælir nefndin með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir það rita allir hv. nefndarmenn, hvort heldur eru áheyrnarfulltrúar eða með fulla setu í nefndinni.