Breyting á lögum á orkusviði

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 17:50:55 (2876)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[17:50]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það fyrst að ég fagna því að samkomulag náðist um að breyta þessu frumvarpi. Nú fjallar það einungis um að flytja eignarhaldið á þessum fyrirtækjum, Hitaveitu Suðurnesja, Orkubúi Vestfjarða og Rarik, frá iðnaðarráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins og um það að skattamálum Rariks sem komu upp við það að gera það fyrirtæki að hlutafélagi verði komið í þann farveg sem hér er lagt til. Ég er satt að segja mjög ánægður með þetta vegna þess að aðalatriðið í þessu frumvarpi var að færa þessi fyrirtæki tvö, Orkubú Vestfjarða og Rarik, undir Landsvirkjun sem eign Landsvirkjunar. Við fórum yfir það við 1. umr. málsins hversu ótrúverðugt þetta er í því samkeppnisumhverfi sem verið er að reyna að búa til á þessum markaði og menn hafa ekki enn hopað frá að gera þó að það séu ýmsir erfiðleikar þar á ferðinni og þess vegna var þessi hugmynd með miklum endemum. Það kom reyndar á daginn að Samkeppniseftirlitið taldi að það fyrirkomulag sem fólst í frumvarpinu kæmi ekki til greina.

Síðan kom fram breytingartillaga um að búa til enn eitt fyrirtækið til að koma til móts við aðalgagnrýni Samkeppniseftirlitsins. Þá hefur þetta verið orðin æði skrautleg flóra sem þarna var á ferðinni, þ.e. Landsvirkjun sem slík með sínu pínulitla aukafyrirtæki sem er hluti af frumvarpinu um Landsvirkjun, síðan þessi fyrirtæki tvö, Orkubú Vestfjarða og Rarik, og svo eitt fyrirtækið sem átti þá að fela í sér framleiðsluna á raforkunni og sjá um sölu á henni. Allt átti þetta að verða eign Landsvirkjunar samkvæmt þessum hugmyndum.

Við vorum algerlega andvíg, samfylkingarfólk og reyndar stjórnarandstaðan, þeirri leið sem þarna var verið að reyna að fara og líka þessari flóttaleið sem menn ætluðu að reyna að bjarga sér á þegar hin var lokuð eins og kom á daginn þegar Samkeppniseftirlitið benti á þau vandamál sem henni fylgdu. Það er þess vegna þannig að þó að nefndin hafi farið yfir þá möguleika sem þarna eru á ferðinni og þó að hv. formaður nefndarinnar tali hér um að það eigi að skoða þessi mál nánar er það ekki skoðun okkar sem erum andvíg þessu máli, eða vorum. Við teljum að það þurfi ekki að skoða það að sameina þessi fyrirtæki Landsvirkjun, það þurfi bara að skoða möguleikana á að búa til eitthvert trúverðugt samkeppnisumhverfi á þessum markaði. Það verður ekki til með slíkri sameiningu sem hér var lagt til að yrði ofan á. Þess vegna er í mínum huga, og okkar, ekki um neina frestun á þessu máli að ræða, heldur það að menn falli frá hugmyndum sem stóðust ekki nána skoðun sem fór fram í nefndinni.

Það væri svo tilefni til að tala um raforkumálin býsna lengi hér, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði áðan í umræðu um Landsvirkjun. Auðvitað var þetta og er hluti af því sem ríkisstjórnin ætlaði að gera, grípa tækifærið þegar Landsvirkjunarmálið kom upp, fylgja því eftir með því að bæta eiginfjárstöðu Landsvirkjunar með þeim hætti sem hér var um að tefla. Og það er ástæða til að velta því fyrir sér þess vegna að þegar ríkisstjórnin stendur nú frammi fyrir því að þessi leið er lokuð og ekki hægt að fara hana er ekki lengur til staðar þetta eigið fé sem átti að færa Landsvirkjun. Þar eru a.m.k. 17 eða 20 milljarðar sem áttu að verða eigið fé Landsvirkjunar um þessi áramót. Það veldur a.m.k. mér áhyggjum vegna þess að ég get ekki treyst ríkisstjórninni í þessum málum, hvað muni nú verða tekið til bragðs til að styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar.

Auðvitað hvarflar hugurinn að þeim fyrirvörum sem eru í samningnum sem gerður var við Reykjavíkurborg og Akureyri um kaup á hlut í Landsvirkjun. Þar eru nefndir, eins og ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag, möguleikar sem ríkisstjórnin getur hugsanlega verið að velta fyrir sér að nýta í þessu tilfelli. Það er þess vegna alveg ástæða til að kalla eftir svörum hv. formanns nefndarinnar — því miður er hæstv. iðnaðarráðherra ekki í salnum, hefur þó setið hér og fylgst með umræðum og ég vona að hann heyri mál mitt vegna þess að ég sé ástæðu til að fara fram á það að hæstv. iðnaðarráðherra geri grein fyrir því hvaða hugmyndir hann er með, annars vegar um hvaða þörf þurfi að uppfylla um aukið eigið fé Landsvirkjunar á næstunni og með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst gera það þannig að menn viti í hvað stefnir hvað þetta varðar. Hér er á ferðinni gríðarlega mikilvægt málefni og ég tel fulla ástæðu til að kalla eftir skýringum frá hæstv. iðnaðarráðherra um hvaða leiðir séu líklegar til að tryggja eigið fé til Landsvirkjunar til viðbótar eins og greinilegt er á þessu frumvarpi að menn telja ástæðu til að gera sem allra fyrst. Eins og frumvarpið lítur út núna sjáum við samfylkingarmenn a.m.k. ekki ástæðu til annars en að styðja öll atriðin sem eftir eru í því með þeim breytingartillögum sem fram eru komnar.