Búnaðarfræðsla

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 20:54:40 (2906)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú segir hæstv. landbúnaðarráðherra að hann hafi á sínum tíma mótmælt orðum Valgerðar Sverrisdóttur, þáverandi viðkipta- og iðnaðarráðherra, um að hún vildi einkavæða Landsvirkjun. Fyrr í dag sagði hæstv. ráðherra að hún hefði aldrei látið slík ummæli falla, ef ég heyrði rétt, í frammíkalli fyrr í dag. Það er gott að fá þessa leiðréttingu í skjöl þingsins.

Síðan er þetta með sönginn og dansinn í Kína fyrir 2.200 árum. Það er ekki söngur og dans beinlínis sem við erum að mótmæla hjá Framsóknarflokknum. Við höfum verið að mótmæla aðkomu hans að Íraksmálinu, Kárahnjúkamálinu og nú síðast hlutdeild Framsóknarflokksins í því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og greiða þannig götu einkavæðingar Ríkisútvarpsins.

Varðandi umræðuefnið sjálft þá tel ég að atvinnurekendur hjá hinu opinbera hafi í seinni gengið of langt hvað þetta snertir, að segja fólki upp störfum við skipulagsbreytingar. Fyrr á þessu ári var fólki sagt upp störfum í Snæfellsbæ vegna skipulagsbreytinga sem gripið var til. Það hefði verið hægt að gera án þess að segja fólkinu upp störfum.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að endurskoða það sem honum (Forseti hringir.) hefur verið sagt um þetta efni. Ég tel hann á rangri braut.