Almannatryggingar og málefni aldraðra

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 22:22:05 (2932)


133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:22]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var á þessum sama fundi og á honum voru einnig fulltrúar ríkisstjórnarinnar, m.a. Ásmundur Stefánsson, formaður nefndarinnar. Það var, ef ég rifja það upp með hv. þingmönnum, töluvert rætt um þennan þátt, meintar hótanir, meintar þvinganir.

Ég vil þá biðja hv. þingmann að rifja upp hvað formaður nefndarinnar, Ásmundur Stefánsson, sagði varðandi nákvæmlega þetta atriði. Bæði hann og jafnframt fulltrúar fjármálaráðuneytisins og fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins sem voru á öllum þessum 25 fundum vísuðu alfarið frá sér að nokkuð slíkt hefði átt sér stað.

Hins vegar væri ágætt líka að rifja það upp, sem er líka umhugsunarefni, að á þessum sama fundi, með þá fulltrúum eldri borgara, var gengið eftir því við þá í hverju þessi þvingun hefði legið, þessi hótun sem þeir töldu að þeir hefðu verið beittir. Það kom fram að engin slík samskipti hefðu farið fram á milli eldri borgara og ríkisstjórnarinnar. Það lá alveg ljóst fyrir. Hins vegar kom jafnframt fram að hin meinta hótun hefði farið fram í samtali milli formanns Landssambands eldri borgara og formanns nefndarinnar og það hefði jafnframt komið fram að hann vísaði alfarið frá sér að nokkrar slíkar hótanir eða þvingunaraðgerðir hefðu farið fram.

Ég verð að segja að ef ég sem formaður í einhverju í félagi sem væri að sækja kjarabætur næði þvílíkum árangri sem eldri borgarar hafa náð mundi ég bara fagna hverjum þvingunum eða hótunum eða hvaðeina sem ég yrði beitt til að skrifa undir slíkt samkomulag. Þess þyrfti ekki.

Ég átta mig engan veginn á því hvað þarna fór fram en tel að það sem gerist oft eftir slíkt samkomulag hafi náðst, að væntingar hafi verið miklar, komnar (Forseti hringir.) ákveðnar mótbárur frá umbjóðendum þeirra og þeir hafi einhvern veginn heykst (Forseti hringir.) á málinu, algjörlega að óþörfu.