Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 276. máls.

Þskj. 286  —  276. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 94/1996,
um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 6. tölul. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði þetta tekur þó ekki til tekna af leigu loftfara og skipa sem notuð eru til flutninga á alþjóðaleiðum.

2. gr.

    Við 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima, frá lokum fæðingarorlofs fram til þess að það hefur leikskólavistun eða grunnskólanám, teljast ekki til tekna hjá móttakanda.

3. gr.

    Við 3. málsl. 9. tölul. 31. gr. laganna bætist: eða aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

4. gr.

    Í stað tölunnar „16“ í 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laganna kemur: 18.

5. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „21,75%“ í 1. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna kemur: 22,75%.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 67. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „356.180“ í 1. mgr. kemur: 385.800.
     b.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Persónuafsláttur skal í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils. Fjárhæð persónuafsláttar skal birta með auglýsingu fjármálaráðherra fyrir upphaf staðgreiðsluárs.

7. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „787“ í 1. málsl. 4. mgr. B-liðar 67. gr. laganna kemur: 834.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      Í stað tölunnar „16“ í 1. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. A-liðar kemur: 18.
     b.      Í stað fjárhæðanna „494.782“, „649.544“ og „804.304“ í 3. málsl. 3. mgr. B-liðar kemur: 524.469; 688.517; og: 852.562.
     c.      Í stað fjárhæðanna „4.651.927“, „7.711.371“, „169.541“, „218.042“, „280.372“ og „618“ í 4. mgr. B-liðar kemur: 4.931.043; 8.174.053; 179.713; 231.125; 297.194; og: 655.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur,
með síðari breytingum.

9. gr.

    Við 3. mgr. 4. gr. laganna bætist: að undanteknum arði sem úthlutað er á milli aðila sem samskattaðir eru skv. 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

III. KAFLI
Gildistaka.
10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 1. gr., 3. gr., 5. gr., a-liðar 6. gr., 7. gr., b- og c-liðar 8. gr. og 9. gr. öðlast gildi 1. janúar 2007 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2007 og álagningu tekjuskatts á árinu 2008 vegna tekna ársins 2007.
    Ákvæði b-liðar 6. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008.
    Ákvæði 4. gr. og a-liðar 8. gr. koma til framkvæmda við ákvörðun barnabóta og álagningu gjalda á árinu 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
    Í fyrsta lagi er lagt til að frá og með 1. janúar 2007 lækki tekjuskattur einstaklinga um 1% í stað 2% lækkunar sem áður var fyrirhuguð, þ.e. úr 23,75% í 22,75%. Er þessi tillaga í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júní 2006 og er hluti af aðgerðum sem ætlað er að stuðla að áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði. Verði frumvarpið að lögum kemur breytingin til framkvæmda við staðgreiðslu á næsta ári og við endanlega álagningu tekjuskatts á árinu 2008 vegna tekna á árinu 2007.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á aldursmarki barnabóta. Er sú tillaga í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júní 2006 þar sem segir að „um næstu áramót verði teknar upp greiðslur barnabóta til 18 ára aldurs í stað 16 ára aldurs“. Þessi breyting kemur til viðbótar við áður ákveðna 25% hækkun skerðingarmarka barnabóta og lækkun skerðingarhlutfalla. Áætlað er að greiðslur barnabóta muni aukast um 500 til 600 millj. kr. verði frumvarpið að lögum. Þá er í frumvarpinu lagt til að aldursmark ívilnunar vegna útgjalda til menntunar barna verði hækkað til samræmis í 18 ár.
    Í þriðja lagi er lögð til hækkun á persónuafslætti, sjómannaafslætti og vaxtabótum frá 1. janúar 2007. Verði frumvarpið að lögum mun persónuafsláttur einstaklinga hækka úr 356.180 kr. í 385.800 kr. á ári. Með þessari hækkun, og breytingu tekjuskatthlutfalls, hækka skattleysismörk einstaklinga úr 79 þús. kr. í 90 þús. kr. á mánuði, eða um 14%. Áætlað er að lögfesting þessara ákvæða leiði til þess að tekjur ríkissjóðs verði 800 millj. kr. hærri en annars hefði orðið. Er þá miðað við að núgildandi ákvæði tekjuskattslaganna gera ráð fyrir annarri útfærslu á lækkun tekjuskatts einstaklinga, þ.e. að skatthlutfallið lækki um 2% um næstu áramót, en áætlað er að tekjutap ríkissjóðs samkvæmt þessu frumvarpi verði heldur minna en samkvæmt þeirri útfærslu eða um 12,2 milljarðar kr. í stað um 13 milljarða kr. Fjárhæð sjómannaafsláttar mun hækka um 6%, þ.e. úr 787 kr. í 834 kr. á dag og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta munu hækka um 6%. Er það í samræmi við áætlaðar launahækkanir á almennum vinnumarkaði á miðju þessu ári og í byrjun næsta árs. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs vegna hækkunar viðmiðunarfjárhæða vaxtabóta verði um 350 millj. kr.
    Í fjórða lagi er með frumvarpinu lagt til að persónuafsláttur verði endurskoðaður árlega, í fyrsta sinn frá 1. janúar 2008, og breytist fjárhæð hans þannig í samræmi við breytingar á gildandi vísitölu neysluverðs næstliðinna tólf mánaða, þ.e. annars vegar gildandi vísitölu 31. desember 2006 og hins vegar 31. desember 2007.
    Í fimmta lagi er með frumvarpinu lagt til að undanþegnar verði frá skattskyldu leigugreiðslur til erlendra leigusala vegna tekna af leigu loftfara og skipa.
    Í sjötta lagi er með frumvarpinu lagt til að styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima verði undanþegnir skattskyldu. Undanþágunni er ætlað að taka til greiðslna frá því er fæðingarorlofi lýkur og allt til þess er leikskólavistun eða grunnskólanám hefst.
    Í sjöunda lagi er með frumvarpinu lagt til að arður sem úthlutað er á milli aðila sem samskattaðir eru skv. 55. gr. laganna verði undanþeginn staðgreiðslu meðan samsköttunin varir.
    Í áttunda lagi er með frumvarpinu lagt til að það skilyrði arðsfrádráttar frá tekjum af atvinnurekstri hlutafélaga sem skráð eru erlendis, að skatthlutfall sem lagt er á hagnað hins erlenda félags sé eigi lægra en skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD), taki einnig til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 3. gr. laga um tekjuskatt kemur fram hverjir beri takmarkaða skattskyldu hér á landi. Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. bera allir aðilar sem hafa hér á landi m.a. tekjur af leigu lausafjár takmarkaða skattskyldu. Með ákvæði því sem hér er sett fram er lagt til að leigusali, sem heimilisfastur er eða rekur fasta starfsstöð erlendis, verði undanþeginn skattskyldu hér á landi af leigutekjum af loftförum og skipum sem rekin eru af íslenskum aðilum og notuð eru til flutninga á alþjóðaleiðum.
    Undanfarna áratugi hefur rutt sér til rúms nýtt form eignarhalds flugfélaga á flugvélum þar sem leiga flugvéla hefur aukist í stað þess að flugfélög eigi flugvélakost sinn. Þetta hefur haft það í för með sér að meiri hluti flugvéla í rekstri íslenskra flugfélaga er ekki í eigu þeirra heldur á leigu frá erlendum leigusölum. Hinir erlendu leigusalar leigja flugvélakost sinn út frá starfsstöðvum víðs vegar um heim og rekur enginn þeirra eiginlega flugstarfsemi á Íslandi. Sú breyting sem hér er lögð til mun enga tekjuskerðingu hafa í för með sér fyrir ríkissjóð þar sem slíkar leigugreiðslur hafa hingað til ekki verið skattlagðar. Ákvæðið er til þess fallið að auka og styrkja samkeppnishæfni Íslands á sviði flugmála og skipasamgangna og gera þessum atvinnugreinum fært að vera fyllilega samkeppnisfærar við sambærilegar atvinnugreinar í nágrannalöndum okkar en víðast hvar í nágrannalöndum okkar eru leigugreiðslur sem þessar undanþegnar skattskyldu.
    Með orðunum „flutninga á alþjóðaleiðum“ er átt við flutningastarfsemi sem bæði getur eingöngu verið utan Íslands eða milli Íslands og annarra landa. Með hliðsjón af því að eðli máls samkvæmt eru skip og flugvélar í mörgum tilvikum í nokkurs konar blandaðri starfsemi, þ.e. eru ýmist í flutningum utan lögsögu Íslands eða til og frá Íslandi, er ekki unnt í framkvæmd að gera greinarmun á því hvort flutningurinn sé einvörðungu utan íslenskrar lögsögu eða til og frá Íslandi. Það sem ræður úrslitum um skattskylduna er staðsetning starfsstöðvarinnar.
    Viðbótarmálsliðurinn sem hér er lagður til tekur eingöngu til þess að undanþiggja skattskyldu hér á landi slíkar leigugreiðslur, en tekur ekki til annarra tekna skv. 6. tölul. 3. gr. laganna. Verði þetta ákvæði frumvarpsins að lögum munu slíkar leigugreiðslur samkvæmt framansögðu eingöngu skattleggjast hér á landi þegar erlendur leigusali skipa og loftfara er jafnframt með fasta starfsstöð hérlendis. Í málsliðnum er notað hugtakið loftfar þar sem það nær ekki einungis til flugvéla heldur einnig annarra loftfara, svo sem þyrlna.

Um 2. gr.


    Í 2. tölul. A-liðs 7. gr. tekjuskattslaga er að finna tegundir greiðslna sem ekki teljast til skattskyldra tekna og er með frumvarpi þessu lagt til að skýrt sé að styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barna fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima séu undanþegnir skattskyldu. Nokkur sveitarfélög hafa kynnt áform um slíka styrki og eru með ákvæðinu tekin af öll tvímæli um hugsanlega skattskyldu slíkra greiðslna. Tilgangurinn með greiðslum sem þessum er að styðja við foreldra sem leggja áherslu á að vera með börnum sínum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Niðurgreiðslur sveitarfélaga á leikskólagjöldum og daggæslugjöldum í heimahúsum eru ekki skattskyldar hjá foreldrum eða forráðamönnum barna. Með tilliti til jafnræðis er því lagt til að framangreindir styrkir verði ekki taldir til skattskyldra tekna.

Um 3. gr.


    Í 9. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga er m.a. mælt fyrir um arðsfrádrátt frá tekjum af atvinnurekstri hlutafélaga sem skráð eru erlendis. Þykir eðlilegt að það skilyrði ákvæðisins að skatthlutfall sem lagt er á hagnað hins erlenda félags sé eigi lægra en skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD) taki einnig til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Þau ríki sem ekki eru aðilar að OECD en eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu eru Eistland, Kýpur, Lichtenstein, Litháen, Malta og Slóvenía.

Um 4. gr.


    Í 65. gr. tekjuskattslaga er að finna heimild til lækkunar á tekjuskattsstofni. Samkvæmt 4. tölul. 65. gr. skal skattstjóri taka til greina umsókn manns um lækkun á tekjuskattsstofni ef hann hefur haft veruleg útgjöld af menntun barna sinna 16 ára og eldri. Í samræmi við breytingu á aldursmarki barnabóta er hér lagt til að aldursmarki ívilnunar vegna menntunarkostnaðar barna verði breytt úr 16 árum í 18 ár.

Um 5. gr.


    Í 66. gr. tekjuskattslaga er kveðið á um skatthlutfall manna. Búið var að lögfesta að hlutfallstala tekjuskatts skyldi lækka um fjögur prósentustig á þremur árum og hefur lækkun um 2% þegar tekið gildi. 1. janúar 2007 átti að taka gildi 2% lækkun til viðbótar. Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júní 2006 er hér lagt til að lækkunin verði 1% í stað 2% frá 1. janúar 2007, þ.e. að skatthlutfallið verði 22,75% í stað 21,75%.

Um 6. gr.


    Í A-lið 67. gr. tekjuskattslaganna er mælt fyrir um fjárhæð persónuafsláttar. Búið var að lögfesta hækkun á persónuafslætti 1. janúar 2007. Persónuafsláttur átti þá að hækka um 2,25% og persónuafsláttur því að verða 356.180 krónur. Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júní 2006 er með frumvarpinu lagt til að persónuafsláttur einstaklinga verði hækkaður í 385.800 krónur frá 1. janúar 2007. Jafnframt verður persónuafsláttur endurskoðaður árlega, í fyrsta sinn frá 1. janúar 2008, og breytist hann í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs næstliðinna tólf mánaða miðað við gildandi vísitölu í upphafi og lok viðmiðunartímabilsins, þ.e. frá desember til desember. Fjárhæð persónuafsláttar skal birta með auglýsingu fjármálaráðherra.

Um 7. gr.


    Í B-lið 67. gr. laganna er mælt fyrir um fjárhæð sjómannaafsláttar. Hér er lagt til að grunnfjárhæð sjómannaafsláttar verði hækkuð um 6% frá 1. janúar 2007 sem komi til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2007.

Um 8. gr.


    Í a-lið greinarinnar er lögð til breyting á aldursmarki barnabóta í 68. gr. laganna. Er það í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júní 2006 þar sem kemur fram að frá og með 1. janúar 2007 verði teknar upp greiðslur barnabóta til 18 ára aldurs í stað 16 ára aldurs.
    Í b- og c-liðum greinarinnar er lögð til 6% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum vaxtabóta við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2007 vegna vaxtagjalda á árinu 2006. Er sú hækkun í samræmi við áætlaðar launahækkanir á almennum vinnumarkaði.

Um 9. gr.


    Í 4. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur er fjallað um skattstofna. Breytingin sem hér er lögð til á 3. mgr. 4. gr. þeirra laga hefur í för með sér að ekki verður þörf á að halda eftir fjármagnstekjuskatti af arði sem úthlutað er á milli þeirra félaga sem samsköttuð eru í samræmi við heimild 55. gr. laga um tekjuskatt.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts
á fjármagnstekjur, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt. Flestar breytingarnar snúa að tekjuhlið ríkissjóðs og eru þær helstar í fyrsta lagi að lagt er til að tekjuskattur einstaklinga lækki um 1% um næstu áramót. Í öðru lagi er lagt til að persónuafsláttur hækki í 385.800 kr. á ári en við það hækka skattleysismörk einstaklinga um 14%. Auk þess er gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki framvegis í byrjun hvers árs miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs undangengna tólf mánuði. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að sjómannaafsláttur hækki um 6%. Í fjórða lagi er lagt til að styrkir frá sveitarfélögum til foreldra barna þar til þau hefja leikskólavistun eða grunnskólanám teljist ekki til skattskyldra tekna. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er áætlað að lögfesting þessara ákvæða leiði til þess að tekjur ríkissjóðs verði 800 m.kr. hærri en annars hefði orðið. Er þá miðað við að núgildandi ákvæði tekjuskattslaganna gera ráð fyrir annarri útfærslu á lækkun tekjuskatts einstaklinga, þ.e. að skatthlutfallið lækki um 2% um næstu áramót. Áætlað er að tekjutap ríkissjóðs samkvæmt þessu frumvarpi verði heldur minna en samkvæmt þeirri útfærslu eða um 12,2 milljarðar kr. í stað um 13 milljarða kr. Þá eru í frumvarpinu gerðar tillögur um tvö ákvæði sem hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Annars vegar er um það að ræða að frá næstu áramótum verði greiddar barnabætur til 18 ára aldurs í stað 16 ára aldurs áður. Áætlað er að við þá breytingu aukist útgjöld vegna barnabóta um 500–600 m.kr. Hins vegar er lagt til að allar viðmiðunarfjárhæðir til útreiknings vaxtabóta verði hækkaðar um 6% en það svarar til launabreytinga á almennum vinnumarkaði frá síðustu áramótum. Áætlað er að sú hækkun hafi í för með sér að greiddar vaxtabætur verði 350 m.kr. hærri en ella hefði orðið. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007 hefur verið gert ráð fyrir að framangreindar breytingar verði leiddar í lög, bæði þær sem snerta tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs. Ekki er ástæða til þess að ætla að sjálf framkvæmd laganna í skattkerfinu leiði til teljandi útgjalda.