Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 330. máls.

Þskj. 353  —  330. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.
1. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar, örorkustyrks og barnalífeyris.
    Til tekna skv. II. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:
     a.      Tekjur skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk og tekjutryggingu skv. 11.–13. gr. og 17. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
     b.      Tekjur örorkulífeyrisþega af atvinnu skulu metnar að 60 hundraðshlutum við útreikning á tekjutryggingu skv. 17. gr. Ef um hjón er að ræða skulu atvinnutekjur lífeyrisþegans, sbr. 1. málsl., hafa 75% vægi og atvinnutekjur maka hafa 25% vægi.
     c.      Tekjur ellilífeyrisþega af atvinnu, umfram 300.000 kr. á ári, skulu hafa áhrif við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar skv. 17. gr. Ef um hjón er að ræða skulu atvinnutekjur lífeyrisþegans, sbr. 1. málsl., hafa 75% vægi og atvinnutekjur maka hafa 25% vægi.
     d.      Við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar skv. 17. gr. skal ekki reikna með lífeyrisgreiðslum maka lífeyrisþega úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     e.      Við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar skv. 17. gr. skulu aðrar tekjur lífeyrisþegans en tilgreindar eru í a–d-liðum þessarar málsgreinar hafa 75% vægi við ákvörðun tekjugrundvallar og aðrar tekjur maka hafa 25% vægi.
    Þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyri skv. 11. og 12. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr.
    Þegar um er að ræða tekjutryggingu skv. 17. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr.
    Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 47. gr. Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 47. gr. og bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist.
    Tryggingastofnun ríkisins skal hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 47. gr.
    Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.
    Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 50. gr.
    Tryggingastofnun ríkisins skal upplýsa umsækjanda eða bótaþega um forsendur bótaútreiknings og gefa honum kost á að koma að athugasemdum. Um upplýsingaskyldu varðandi tekjur og þagnarskyldu starfsmanna Tryggingastofnunar fer skv. 47. gr.
    Við útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar, sbr. 12. og 17. gr., er ráðherra heimilt að hækka tekjuviðmiðun þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu til framtíðar frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

2. gr.

    Orðin „5.–7. mgr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 11. gr. og 1. málsl. 5. mgr. 12. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    17. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tekjutrygging.

    Tryggingastofnun ríkisins skal greiða þeim tekjutryggingu sem fá greiddan elli-, örorku- eða slysalífeyri samkvæmt lögum þessum. Tekjutrygging greiðist einnig þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Rétt til tekjutryggingar eiga þeir sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla A, sbr. og 1. mgr. 11. gr. og 1. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. 12. gr. Um útreikning á tekjutryggingu gildir 10. gr., 1. mgr. 11. gr. og 4. mgr. 12. gr.
    Greiða skal ellilífeyrisþega tekjutryggingu til viðbótar lífeyri hans að fjárhæð 942.504 kr. á ári. Hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2. og 4. mgr. 10. gr. skal skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður.
    Greiða skal örorku-, slysa- eða endurhæfingarlífeyrisþega tekjutryggingu til viðbótar lífeyri hans að fjárhæð 956.088 kr. á ári. Hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2. og 4. mgr. 10. gr. skal skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður.
    Samanlögð skerðing elli-, örorku-, slysa- eða endurhæfingarlífeyris og tekjutryggingar skal aldrei fara umfram 38,35% af tekjum. Komi samtímis til skerðingar þessara bóta skal lífeyrir fyrst skertur og samsvarandi dregið úr skerðingu tekjutryggingar. Ákvæði þessarar málsgreinar um skerðingu gilda ekki um heimilisuppbót skv. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.
    Ef annað hjóna nýtur lífeyris og 2/ 3 tekna þess nema lægri fjárhæð en 446.736 kr. á ári skal, þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr., aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/ 3 tekna þess nái þeirri fjárhæð.
    Nú sinnir maður ekki lagaskyldu um greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðs samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Er þá heimilt að áætla honum tekjur sem koma til frádráttar greiðslu tekjutryggingar.
    Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

4. gr.

    18. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Frestun á töku lífeyris.

    Þeir sem eiga rétt á ellilífeyri skv. 11. gr. en hafa ekki lagt inn umsókn eða fengið greiddan ellilífeyri geta frestað töku lífeyris til 72 ára aldurs. Frestunin tekur til bóta skv. 11., 14. og 17. gr.
    Eftir að bótaréttur hefur verið reiknaður út skal hækka ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót, sbr. 11. og 17. gr. laga þessara og 9. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð fram til 72 ára aldurs eða að hámarki 30%.
    Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

5. gr.

    Við 3. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Enn fremur tekur tryggingin til allra slysa sem verða á friðargæsluliðum íslenska ríkisins sem verða þegar þeir eru staddir erlendis vegna friðargæslustarfa.

6. gr.

    B-liður 1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Nemendur við iðnnám í löggiltum iðngreinum og nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum og háskólanemar þegar þeir sinna verklegu námi.

7. gr.

    Í stað orðanna „tekjumörk tekjutryggingar skv. 17. gr.“ í 5. og 6. málsl. 8. mgr. 43. gr. laganna kemur: 680.350 kr. á ári.

8. gr.

    7. málsl. 2. mgr. 47. gr. laganna orðast svo: Umsækjanda og bótaþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „úrskurðaðar“ og „úrskurðaðir“ í 1. og 2. mgr. kemur: ákvarðaðar, og: ákvarðaðir.
     b.      Við 2. mgr. bætist: frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.

10. gr.

    Í stað orðanna „úrskurðaðar“ og „úrskurða“ í 2. mgr. 49. gr laganna kemur: ákvarðaðar, og: ákvarða.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
     a.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður er verður 1. málsl. og orðast svo: Hafi Tryggingastofnun ríkisins vangreitt bótaþega bætur skal stofnunin greiða honum það sem upp á vantar.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                 Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar, t.d. um innheimtu á ofgreiddum bótum, undanþágur frá innheimtu ofgreiddra bóta og afskriftir krafna.

12. gr.

    Við lögin bætast sex ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     22.      Ákvæði 1. málsl. c-liðar 2. mgr. 10. gr. laganna skal koma til framkvæmda 1. janúar 2009 og skal fjárhæðin vera 200.000 kr. á tímabilinu 1. janúar til og með 31. desember 2009.
     23.      Í ákvæðum 2. málsl. b-liðar, 2. málsl. c-liðar og e-liðar 2. mgr. 10. gr. laganna skulu hlutföllin 75% og 25% vera 50% og 50% á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 og 65% og 35% á tímabilinu 1. janúar 2009 til og með 31. desember 2009.
     24.      Þrátt fyrir ákvæði d-liðar 2. mgr. 10. gr. laganna skulu lífeyrisgreiðslur lífeyrisþega hafa 50% vægi og lífeyrisgreiðslur makans 50% vægi við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008. Á tímabilinu 1. janúar 2009 til og með 31. desember 2009 skulu lífeyrisgreiðslur lífeyrisþega hafa 80% vægi og lífeyrisgreiðslur makans hafa 20% vægi.
     25.      Þrátt fyrir ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 17. gr. laganna skal skerðingarhlutfallið vera 39,95% á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2007.
     26.      Þrátt fyrir ákvæði 65. gr. laganna skulu elli- og örorkulífeyrir og tekjutrygging skv. 11., 12. og 17. gr. laganna hækka um 2,9% á árinu 2007 í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar við Landssamband eldri borgara frá 19. júlí 2006.
     27.      Á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 er hægt að óska eftir því hjá Tryggingastofnun ríkisins að gerður verði samanburður á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir og eftir gildistöku þessara laga. Ef samanburðurinn leiðir til hærri bóta samkvæmt eldri lögum skal stofnunin greiða hærri bæturnar á því tímabili.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
13. gr.

    4. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

    Í stað orðanna „Tryggingastofnunar ríkisins“ í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

15. gr.

    1. málsl. 3. tölul. 2. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Nú á vistmaður maka og fer þá um skiptingu tekna vistmanns og makans skv. 26. gr.

16. gr.

    26. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Skilgreining á tekjum o.fl.

    Til tekna skv. II. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:
     a.      Tekjur skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á vistunarframlagi skv. 21. gr., sbr. og 22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
     b.      Tekjur ellilífeyrisþega af atvinnu, umfram 300.000 kr. á ári, skulu hafa áhrif við útreikning á fjárhæð vistunarframlags skv. 21., sbr. 22. gr. Ef um hjón er að ræða skulu atvinnutekjur vistmannsins, sbr. 1. málsl., hafa 75% vægi og atvinnutekjur maka hafa 25% vægi
     c.      Við útreikning á fjárhæð vistunarframlags skv. 21., sbr. 22. gr., skal ekki reikna með lífeyrisgreiðslum maka vistmanns úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     d.      Við útreikning á fjárhæð vistunarframlags skv. 21., sbr. 22. gr., skulu aðrar tekjur vistmannsins en tilgreindar eru í a–c-liðum þessarar málsgreinar hafa 75% vægi við ákvörðun tekjugrundvallar og aðrar tekjur maka hafa 25% vægi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. teljast ekki til tekna bætur frá lífeyristryggingum almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
    Tryggingastofnun ríkisins skal annast framkvæmd útreiknings á tekjum skv. 21. og 22. gr. og þessari grein og greiðir stofnunum vistunarframlag skv. 1. mgr. 21. gr.
    Tekjumörk skv. 22. gr. breytast í samræmi við breytingar á tekjumörkum ellilífeyris skv. 11. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
    Til grundvallar útreikningi á vistunarframlagi hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum greiðsluársins. Greiðsluár er almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá skattyfirvöldum, umsækjanda, vistmanni eða öðrum þeim aðilum sem getið er um í 47. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Ef um nýja umsókn um vistunarframlag er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá framangreindum aðilum og réttur til vistunarframlags reiknaður út frá þeim tekjum vistmanns og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem réttur stofnaðist.
    Tryggingastofnun skal hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 47. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
    Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna fjárhæð vistunarframlags á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur vistmanns tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.
    Komi í ljós við endurreikning að vistunarframlag hafi verið vangreitt af Tryggingastofnun ríkisins skal Tryggingastofnun greiða stofnun það sem upp á vantar. Ef vistunarframlag hefur verið ofgreitt skal um endurheimtu fara skv. 1., 2. og 5. mgr. 50. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Stofnun skal leiðrétta greiðslur til vistmanns í framhaldi af endurreikningi Tryggingastofnunar.
    Tryggingastofnun skal upplýsa umsækjanda eða vistmann um forsendur útreiknings og gefa kost á að koma að athugasemdum. Um upplýsingaskyldu varðandi tekjur fer skv. 47. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
    Þegar nýr vistmaður kemur til dvalar á stofnun skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. skulu stjórnendur stofnunarinnar óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að hún kanni hvort viðkomandi skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar, sbr. 3. mgr. 21. gr. og 23. gr.
    Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

17. gr.

    Við lögin bætast fimm ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

    a. (I.)
    Ákvæði 1. málsl. b-liðar 1. mgr. 26. gr. laganna skal koma til framkvæmda 1. janúar 2009 og skal fjárhæðin vera 200.000 kr. á tímabilinu 1. janúar til og með 31. desember 2009.

    b. (II.)
    Í 2. málsl. b-liðar og d-lið 1. mgr. 26. gr. laganna skulu hlutföllin 75% og 25% vera 50% og 50% á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 og 65% og 35% á tímabilinu 1. janúar 2009 til og með 31. desember 2009.

    c. (III.)
    Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 1. mgr. 26. gr. laganna skulu lífeyrisgreiðslur vistmanns hafa 50% vægi og lífeyrisgreiðslur makans 50% vægi við útreikning á fjárhæð vistunarframlags á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008. Á tímabilinu 1. janúar 2009 til og með 31. desember 2009 skulu lífeyrisgreiðslur vistmanns hafa 80% vægi og lífeyrisgreiðslur makans 20% vægi.

    d. (IV.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 9. gr. laganna skal fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra einnig varið til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum á árinu 2007.

    e. (V.)
    Vegna útreiknings á vistunarframlagi skv. 21. gr. laganna er hægt að óska eftir því hjá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 að gerður verði samanburður á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir og eftir gildistöku þessara laga. Ef samanburðurinn leiðir til hærri bóta samkvæmt eldri lögum skal leiðrétta vistunarframlag vegna framangreinds tímabils.

18. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.
    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál I. kafla þeirra inn í lög nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og meginmál II. kafla þeirra inn í lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum og samfelldri röð töluliða, stafliða og ákvæða til bráðabirgða sem enn hafa gildi. Við útgáfuna skulu allar fjárhæðir og tekjumörk sem breytt hefur verið með reglugerðum uppfærð og miðast við útgáfudag laganna.
    Á sama tíma skal gefa út lög nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, með samfelldri greinatölu og samfelldri röð töluliða, stafliða og ákvæða til bráðabirgða sem enn hafa gildi. Við útgáfuna skulu allar fjárhæðir sem breytt hefur verið með reglugerðum uppfærðar og miðast við útgáfudag laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í framhaldi af tillögum nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra til þess annars vegar að fjalla um búsetu- og þjónustumál aldraðra með tilliti til fjölbreyttari búsetuforma, stoðþjónustu og samþættingar heimahjúkrunar og félagslegrar heimilisþjónustu og hins vegar að skoða fyrirkomulag tekjutengingar bóta með hliðsjón af skerðingu bóta lífeyrisþega vegna tekjuöflunar þar sem jafnframt yrði þó horft til tekjujöfnunarhlutverks tekjutengingar bóta. Nefndin var skipuð 16. janúar 2006 og skilaði tillögum til forsætisráðherra 19. júlí 2006 sem birtar eru sem fylgiskjal II með frumvarpi þessu. Nefndin var skipuð Ólafi Ólafssyni, Einari Árnasyni, Helga K. Hjálmssyni, Margréti Margeirsdóttur og Pétri Guðmundssyni sem tilnefnd voru af Landssambandi eldri borgara, Ragnhildi Arnljótsdóttur sem tilnefnd var af félagsmálaráðherra, Ólafi Hjálmarssyni sem tilnefndur var af fjármálaráðherra, Steingrími Ara Arasyni sem tilnefndur var af utanríkisráðherra, Vilborgu Þ. Hauksdóttur og Vilborgu Ingólfsdóttur sem tilnefndar voru af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Ásmundi Stefánssyni sem tilnefndur var af forsætisráðherra en hann var jafnframt formaður nefndarinnar. Fjóla Agnarsdóttir, starfsmaður forsætisráðuneytisins, Eyþór Benediktsson, starfsmaður fjármálaráðuneytisins, Sigurður M. Grétarsson, starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins, og Borgþór Kjærnested, framkvæmdastjóri Landssambands eldri borgara, störfuðu með nefndinni.
    Nefndin gerði m.a. tillögur um eftirfarandi að því er varðar almannatryggingar og Framkvæmdasjóð aldraðra:
     *      Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga verði hækkaðar.
     *      Bótaflokkum verði fækkað og lífeyristryggingakerfið þar með einfaldað.
     *      Dregið verði úr áhrifum tekna maka.
     *      Skerðingarhlutföll vegna annarra tekna verði lækkuð.
     *      Fjárhæð vasapeninga verði hækkuð.
     *      Heimiluð verði sveigjanleg starfslok þannig að lífeyrisgreiðslur hækki við frestun á töku ellilífeyris.
     *      Sett verði frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega.
     *      Það fjármagn sem nú gangi til reksturs stofnana úr Framkvæmdasjóði aldraðra gangi til uppbyggingar öldrunarstofnana.
    Sem fyrsta skref breytinganna lagði nefndin til að ellilífeyrir hækkaði um 5,5% frá 1. júlí 2006 (þar af 1,7% flýting verðbóta um áramótin 2006/2007) og til bráðabirgða yrðu greiddar sérstakar uppbætur á lífeyri á tímabilinu 1. júlí til 31. desember 2006. Uppbætur til bráðabirgða skyldu samsvara því í grófum dráttum að heildarhækkun greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins yrði um 15.000 kr. á mánuði. Tillögur nefndarinnar um bætur almannatrygginga gera ráð fyrir hækkun launa um 2,9% og verðlags um 4,6% á árinu 2007. Endanleg ákvörðun bóta á árinu 2007 ræðst á hinn bóginn af ákvæðum laga um almannatryggingar.
    Þessum tillögum nefndarinnar um fyrsta skref breytinganna var komið í framkvæmd með setningu reglugerða. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setti þrjár reglugerðir 21. júlí 2006 sem stoð hafa í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, og lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð. Reglugerðirnar eru nr. 638/2006, 639/2006 og 640/2006 og hækka bætur almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, hækka frítekjumörk elli- og örorkulífeyris og skylda Tryggingastofnun ríkisins til að greiða sérstaka viðbótarfjárhæð til elli- og örorkulífeyrisþega á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember 2006. Samtals er áætlað að kostnaður vegna reglugerðanna verði 1.930 millj. kr. frá 1. ágúst til 31. desember 2006 og tæpar 3.900 millj. kr. á ári frá og með 1. janúar 2007.
    Öðrum tillögum nefndarinnar um bætur almannatrygginga verður eingöngu komið í framkvæmd með breytingum á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, og lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Þetta á við tillögur um fækkun bótaflokka og einföldun lífeyristryggingakerfisins, að draga úr áhrifum tekna maka á bætur frá lífeyristryggingum, setningu frítekjumarks fyrir atvinnutekjur ellilífeyrisþega, lækkun á skerðingarhlutföllum vegna tekna úr 45% í 38,35% og heimild til sveigjanlegra starfsloka. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þessar tillögur.
    Eins og að framan greinir lagði nefndin einnig til að það fé sem nú fer úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða færðist til uppbyggingar öldrunarþjónustu. Með því ykist fjármagn til uppbyggingar um rúmlega 200 millj. kr. á ári. Tilfærslan yrði þó aðeins að hálfu á árinu 2007. Taldi nefndin að þessi ráðstöfun mundi fjármagna hlut ríkisins af byggingarkostnaði 60–65 hjúkrunarrýma á næstu fjórum árum. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þessa tillögu.
    Nefndin kannaði tekjuþróun aldraðra með hliðsjón af þróun verðlags og tekjuþróun annarra hópa. Upplýsingar um tekjuþróun aldraðra eru í fylgiskjali III með frumvarpi þessu og settar fram með sama hætti og gert var í álitsgerð starfshóps stjórnvalda og Landssambands eldri borgara frá árinu 2002 en álitsgerð starfshópsins fylgdi frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2002.
    Nefndin taldi að með tillögunum sem eru í fylgiskjali II með frumvarpi þessu væri lagður grunnur að áætlun um fjögurra ára samkomulag stjórnvalda og Landssambands eldri borgara en lagði jafnframt áherslu á áframhaldandi samráð þessara aðila.
    Heildarkostnaður ríkissjóðs, uppsafnað, vegna lífeyristrygginga til ársins 2010 vegna samkomulags ríkisstjórnarinnar og fulltrúa aldraðra er áætlaður 26,7 milljarðar króna. Tekur sá kostnaður bæði til elli- og örorkulífeyrsþega og einnig sérstakra hækkana lífeyris á árinu 2006. Stærsti hluti kostnaðarins fellur þó til ellilífeyrisþega eða samtals 18 milljarðar króna til ársins 2010. Nánar má sjá þennan kostnað í eftirfarandi töflu:

Samantekt um kostnað vegna samkomulags við eldri borgara.
(millj. kr.)
Lífeyrishluti 2006 2007 2008 2009 2010 Samtals
Ellilífeyrisþegar
Kjarasamn.+ sameining flokka 1.203 2.405 2.405 2.405 2.405 10.824
Frestun töku lífeyris 0 0 0 100 200 300
Lækkun skerðingarhlutfalls 0 1.164 1.503 1.503 1.503 5.673
Lækkun tengingar við tekjur maka 0 0 0 92 329 420
Frádráttur frá atvinnutekjum 0 0 0 142 208 350
25% hækkun vasapeninga 0 119 119 119 119 476
Samtals 1.203 3.688 4.027 4.361 4.764 18.044
Örorkulífeyrisþegar
Kjarasamn.+ sameining flokka 731 1.462 1.462 1.462 1.462 6.580
Frestun töku lífeyris 0 0 0 0 0 0
Lækkun skerðingarhlutfalls 0 368 465 465 465 1.763
Lækkun tengingar við tekjur maka 0 0 0 14 234 247
Frádráttur frá atvinnutekjum 0 0 0 0 0 0
25% hækkun vasapeninga 0 16 16 16 16 64
Samtals 731 1.846 1.943 1.957 2.177 8.655
Samtals hækkun lífeyrisgreiðslna 1.934 5.534 5.971 6.319 6.941 26.699

    Samkvæmt fjárlögum 2006 eru útgjöld ríkissjóðs til lífeyristrygginga ásamt vasapeningum og heimilisuppbót áætluð 32,2 milljarðar króna en sú tala hækkar nú um tæpa tvo milljarða króna vegna samkomulagsins við Landssamband eldri borgara. Á næsta ári er áætlað að útgjöldin hækki í samtals 42,4 milljarða króna. Á eftirfarandi mynd má sjá hvernig útgjöld ríkissjóðs til lífeyristrygginga hafa þróast á föstu verðlagi 2006.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þær breytingar sem fylgja samkomulaginu við Landssamband eldri borgara munu færa elli- og örorkulífeyrisþegum mikla kaupmáttaraukningu. Um áramótin 2006/2007 er gert ráð fyrir að óskertur lífeyrir og tekjutrygging ásamt heimilisuppbót verði 127 þús. kr. á mánuði hjá einhleypingum og óskertur lífeyrir og tekjutrygging verði 103 þús. kr. á mánuði hjá lífeyrisþega sem á maka. Nánar má sjá fjárhæðirnar á árinu 2007 í eftirfarandi töflu í samanburði við fjárhæðirnar á árinu 2005.

2005 2007 Mism. kr. Mism. % Verðbólga Laun
Einhleypingur 107.880 126.537 18.657 17% 12% 15%
Sambúðarfólk 84.678 103.372 18.694 22%

    Bætur til einhleypinga hækka því um 17% og bætur lífeyrisþega sem eiga maka um 22% á milli áranna 2005 og 2007. Á sama tímabili er áætlað að neysluverðsvísitala hækki um tæp 12% og að launavísitala hækki um 15%. Því er um að ræða talsverða kaupmáttaraukningu á lífeyri sem auk þess er áætluð meiri en nemur kaupmáttaraukningu launa.
    Eftirfarandi mynd sýnir kaupmáttarþróun á árunum1995–2007 miðað við spá um hækkun neysluverðs- og launavísitölu. Á tímabilinu er áætlað að kaupmáttur lífeyrisþega sem á maka hækki um 80% og um 50% hjá einhleypingi. Á sama tíma er áætlað að kaupmáttur launa hækki um rúmlega 40%. Þróun á kaupmætti örorkulífeyrisþega yrði mjög svipaður.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Framangreindur mælikvarði tekur þó ekki tillit til þeirrar mikilvægu staðreyndar að skerðingarhlutfall vegna annarra tekna mun lækka umtalsvert. Hér á eftir eru tekin nokkur dæmi sem sýna hvernig áhrifin verða þegar allar breytingar eru komnar í framkvæmd. Viðmiðunartölurnar miðast við lífeyriskerfið og fjárhæðir í byrjun árs 2006 en fjárhæðirnar sem sýna breytingarnar eru á verðlagi 2007. Til einföldunar eru þó aðrar tekjur látnar standa óbreyttar, þ.e. ekki er tekið tillit til verðlags- og launabreytinga. Dæmi 1–4 eiga við um ellilífeyrisþega og dæmi 5–8 eru samsvarandi fyrir örorkulífeyrisþega.

Dæmi 1: Einhleypur ellilífeyrisþegi með mismunandi lífeyrissjóðstekjur.

Heildartekjur á mán.
Lífeyrissjóðstekjur Fyrir Eftir Mism. kr. Mism. %
0 108.623 126.537 17.914 16%
50.000 136.514 151.707 15.193 11%
100.000 154.996 176.877 21.881 14%
150.000 173.061 202.046 28.985 17%
200.000 222.873 227.216 4.343 2%
250.000 272.873 274.831 1.958 1%

    Dæmi 1 sýnir hvernig breytingarnar koma þeim til góða sem lægstu tekjurnar hafa. Þeir sem eru með það háar tekjur að tekjutrygging (nýr sameinaður bótaflokkur) skerðist að fullu fá minnst þar sem ellilífeyrir (grunnlífeyrir) hækkar ekki mikið við beytingarnar. Jaðaráhrif þess að sameina bótaflokka koma þeim best sem hafa verið með um 150 þús. kr. á mánuði í lífeyrissjóðstekjur.

Dæmi 2: Einhleypur ellilífeyrisþegi með mimundandi atvinnutekjur.

Heildartekjur á mán.
Atvinnutekjur Fyrir Eftir Mism. kr. Mism. %
0 108.623 126.537 17.914 16%
50.000 136.514 164.122 27.608 20%
100.000 154.996 189.292 34.296 22%
150.000 173.061 214.462 41.401 24%
200.000 210.230 239.631 29.401 14%
250.000 250.000 267.086 17.086 7%

    Í dæmi 2 gætir áhrifa lækkunar skerðingarhlutfalls og frítekjumarks vegna atvinnutekna. Sem fyrr skila breytingarnar sér fyrst og fremst til þeirra sem eru með lægri tekjurnar. Einnig er sýnt hvernig frítekjumark atvinnutekna hefur áhrif til hækkunar þar sem 50 þús. kr. atvinnutekjur gefa samtals 20% en 11% ef ekkert frítekjumark væri.

Dæmi 3: Ellilífeyrisþegi í sambúð – maki ekki lífeyrisþegi og með 150 þús. kr. í atvinnutekjur og lífeyrisþeginn sjálfur með mismunandi atvinnutekjur.

Heildartekjur á mán.
Atvinnutekjur Fyrir Eftir Mism. kr. Mism. %
0 67.711 96.182 28.471 42%
50.000 111.196 131.801 20.605 19%
100.000 149.946 167.420 17.474 12%
150.000 188.696 203.039 14.343 8%
200.000 214.802 238.657 23.855 11%
250.000 250.000 274.276 24.276 10%

    Í dæmi 3 er sýnt hversu mikla kjarabót (42% hækkun) ellilífeyrisþegi sem hefur engar tekjur fær en við breytingarnar munu einungis 25% af atvinnutekjum makans koma til skerðingar á tekjutryggingu í stað 50%.

Dæmi 4: Ellilífeyrisþegi í sambúð – maki lífeyrisþegi og með 150 þús. kr. í lífeyrissjóðstekjur og lífeyrisþeginn sjálfur með mismunandi atvinnutekjur.

Heildartekjur á mán.
Atvinnutekjur Fyrir Eftir Mism. kr. Mism. %
0 56.715 110.564 53.849 95%
50.000 95.465 146.182 50.717 53%
100.000 134.215 181.801 47.586 35%
150.000 172.965 217.420 44.455 26%
200.000 210.230 253.039 42.809 20%
250.000 250.000 288.657 38.657 15%

    Í dæmi 4 koma fram mjög miklar kjarabætur hjá lífeyrisþegum þar sem breytingarnar hafa í för með sér að greiðslur maka úr lífeyrissjóðum hafa engin áhrif á tekjutryggingu. Auk þess hækka bætur hins makans, sem er með 150 þús. kr. í lífeyrissjóðstekjur, umtalsvert þar sem einungis 25% af atvinnutekjum makans í dæminu koma til skerðingar í stað 50%.
    Hér á eftir fylgja svo samasvarandi dæmi fyrir örorkulífeyrisþega.

Dæmi 5: Einhleypur örorkulífeyrisþegi með mismunandi lífeyrssjóðstekjur.

Heildartekjur á mán.
Lífeyrissjóðstekjur Fyrir Eftir Mism. kr. Mism. %
0 109.724 127.638 17.914 16%
50.000 137.615 152.886 15.271 11%
100.000 157.366 178.134 20.768 13%
150.000 175.656 203.382 27.726 16%
200.000 222.873 228.630 5.757 3%
250.000 272.873 274.831 1.958 1%

Dæmi 6: Einhleypur örorkulífeyrisþegi með mismundandi atvinnutekjur.

Heildartekjur á mán.
Atvinnutekjur Fyrir Eftir Mism. kr. Mism. %
0 109.724 127.638 17.914 16%
50.000 137.615 162.787 25.172 18%
100.000 182.733 197.936 15.203 8%
150.000 213.707 233.084 19.377 9%
200.000 234.896 268.233 33.337 14%
250.000 253.370 303.382 50.012 20%

Dæmi 7: Örorkulífeyrisþegi í sambúð – maki ekki lífeyrisþegi og með 150 þús. kr. í atvinnutekjur og lífeyrisþeginn sjálfur með mismunandi atvinnutekjur.

Heildartekjur á mán.
Atvinnutekjur Fyrir Eftir Mism. kr. Mism. %
0 68.812 90.093 21.281 31%
50.000 118.812 131.464 12.652 11%
100.000 168.634 172.835 4.201 2%
150.000 211.884 214.207 2.323 1%
200.000 245.349 255.578 10.229 4%
250.000 276.099 296.949 20.850 8%

Dæmi 8: Örorkulífeyrisþegi í sambúð – maki lífeyrisþegi og með 150 þús. kr. í lífeyrissjóðstekjur og lífeyrisþeginn sjálfur með mismunandi atvinnutekjur.

Heildartekjur á mán.
Atvinnutekjur Fyrir Eftir Mism. kr. Mism. %
0 58.598 90.093 31.495 54%
50.000 97.348 120.918 23.570 24%
100.000 136.098 151.743 15.645 11%
150.000 174.848 182.568 7.720 4%
200.000 222.873 224.831 1.958 1%
250.000 272.873 274.831 1.958 1%

    Í frumvarpi þessu er einnig gert ráð fyrir að bæta réttarstöðu friðargæsluliða íslenska ríkisins erlendis og háskólanema í starfsnámi að því er varðar vinnuslysatryggingar skv. III. kafla laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru eftirfarandi:
     *      Tekjutryggingarauki og tekjutrygging felld saman í einn bótaflokk, tekjutryggingu. Grunnfjárhæð er hækkuð og verður óháð hjúskaparstöðu.
     *      Skerðingarhlutfall vegna tekna er lækkað úr 45% í 38,35% við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar.
     *      Samanlögð skerðing lífeyris og tekjutryggingar er takmörkuð við 38,35% af tekjum.
     *      Lífeyrissjóðstekjum, þ.m.t. séreignarlífeyrissparnaði, hjóna er haldið aðgreindum þannig að lífeyrissjóðstekjur annars þeirra hafa ekki áhrif á viðmiðunartekjur hins við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar.
     *      Dregið er úr tengingu vegna atvinnutekna þannig að vægi atvinnutekna lífeyrisþegans verði 75% og atvinnutekna makans 25% við útreikning á tekjutryggingu.
     *      Frestun á töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins leiði til allt að 30% hækkunar bóta.
     *      Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega er sett og verður 300.000 kr. á ári.
     *      Fjármagn úr Framkvæmdasjóði aldraðra fer eingöngu í uppbyggingu á öldrunarstofnunum og hættir að fara í rekstur þeirra.
     *      Friðargæsluliðar íslenska ríkisins sem staddir eru erlendis vegna friðargæslustarfa eru slysatryggðir allan sólarhringinn hvort sem þeir eru við störf eða ekki.
     *      Allir háskólanemar í starfsnámi eru slysatryggðir.
     *      Lög um almannatryggingar, lög um félagslega aðstoð og lög um málefni aldraðra verða endurútgefin þar sem breytingar eru felldar inn í meginmál laganna og fjárhæðir og tekjumörk uppfærð til samræmis við gildandi reglugerðir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 10. gr. núgildandi laga eru tilgreindar þær tekjur sem lagðar eru til grundvallar við útreikning á tekjutengdum bótum almannatrygginga. Með lögum nr. 74/2002 var tekjuhugtak laga um almannatryggingar samræmt í öllum bótaflokkum lífeyristrygginga og talið að notkun tekjuhugtaks skattalaga væri auðveldast í framkvæmd þar sem viðskiptavinir Tryggingastofnunar ríkisins þekki það hugtak af áratugalangri reynslu í almannatryggingalögum og skattalögum. Tekjuhugtakið er skilgreint með sama hætti í frumvarpi þessu og í núgildandi 10. gr. laganna. Í 10. gr. er kveðið á um mikilvæg atriði er tengjast réttindum og því er nauðsynlegt að ákvæðin séu skýr til að auðvelda viðskiptavinum og starfsmönnum Tryggingastofnunar að gera sér grein fyrir hvaða tekjur hafi áhrif á bætur frá stofnuninni. Því er gert ráð fyrir í frumvarpi þessu að 10. gr. laganna verði tekin upp í heild sinni og jafnframt skipt niður í fleiri málsgreinar til að gera greinina enn skýrari.
    Eins og að framan segir er hugtakið tekjur skilgreint í 10. gr. núgildandi laga og er í öðrum ákvæðum laganna vísað til þeirrar greinar ef um tekjutengdar bætur er að ræða. Í frumvarpinu er þetta með sama hætti en þó gert ráð fyrir að í a–e-liðum 2. mgr., 3. og 4. mgr. 10. gr. séu skýringar og undantekningar frá tekjuhugtakinu.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að tekjutrygging og tekjutryggingarauki verði felld saman í einn bótaflokk og af þeim sökum þarf að fella út orðið tekjutryggingarauki í 1. og 2. mgr. 10. gr. Einnig þarf í 2. mgr. 10. gr. að lagfæra tilvísanir í töluliði A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en þegar lög um tekjuskatt voru endurútgefin breyttust númer á töluliðum.
    A-liður 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er efnislega óbreyttur frá núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir að ákvæði um fjármagnstekjur hjóna sem nú eru í 4. gr. reglugerðar nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins, verði tekið inn í lögin og er það í samræmi við niðurstöður nefndar forsætisráðherra að öll ákvæði um skiptingu tekna milli hjóna verði í 10. gr. laganna.
    1. málsl. b-liðar 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er óbreyttur frá núgildandi lögum.
    Í 2. málsl. b-liðar 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að þegar um hjón er að ræða skuli atvinnutekjur örorkulífeyrisþegans hafa 75% vægi við útreikning tekjutryggingar og atvinnutekjur makans hafa 25% vægi. Gert er ráð fyrir að skipting atvinnutekna með þessum hætti þegar um hjón er að ræða komi til framkvæmda 1. janúar 2010. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 skulu atvinnutekjur skiptast til helminga milli hjóna en á tímabilinu 1. janúar til og með 31. desember 2009 skulu hlutföllin vera 65% hjá lífeyrisþeganum en 35% hjá makanum, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Slík skipting tekna þegar um hjón er að ræða er í samræmi við það sem lagt er til í 2. málsl. c-liðar 2. mgr. þegar um ellilífeyrisþega í hjúskap er að ræða og er vísað til þess sem segir hér að neðan um þann málslið. Var talið eðlilegt að láta örorkulífeyrisþega njóta sömu reglu og nefnd forsætisráðherra gerði tillögu um að gilti fyrir ellilífeyrisþega, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi þessu.
    Í 1. málsl. c-liðar 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því nýmæli að við útreikning á tekjutryggingu skuli meta tekjur ellilífeyrisþega af atvinnu umfram 300.000 kr. á ári. Með þessu er ellilífeyrisþegum gert kleift að stunda atvinnu og fá 300.000 kr. á ári í laun án þess að það skerði tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins. Gert er ráð fyrir að hið sérstaka frítekjumark vegna atvinnutekna komi til framkvæmda 1. janúar 2009 og að á tímabilinu 1. janúar til og með 31. desember 2009 sé fjárhæðin 200.000 kr. á ári, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Ákvæðin eru í samræmi við tillögur nefndar sem forsætisráðherra skipaði 16. janúar 2006, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi þessu.
    Í 2. málsl. c-liðar 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að þegar um hjón er að ræða skuli atvinnutekjur ellilífeyrisþegans hafa 75% vægi við útreikning tekjutryggingar og atvinnutekjur maka hafa 25% vægi. Gert er ráð fyrir að ákvæðin komi til framkvæmda 1. janúar 2010. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 skulu atvinnutekjur skiptast til helminga milli hjóna en á tímabilinu 1. janúar til og með 31. desember 2009 skulu hlutföllin vera 65% hjá lífeyrisþeganum og 35% hjá makanum, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Ákvæðin eru í samræmi við tillögur nefndar sem forsætisráðherra skipaði 16. janúar 2006, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi þessu, en nefndin lagði til að dregið yrði úr áhrifum atvinnutekna makans við útreikning á tekjutryggingu lífeyrisþegans. Samkvæmt núgildandi lögum hafa tekjur maka ekki áhrif á ellilífeyri en þær hafa áhrif á tekjutryggingu ellilífeyrisþegans. Skiptast sameiginlegar tekjur hjóna til helminga við útreikning á tekjutryggingu. Í 2. málsl. c-liðar 2. mgr. er gert ráð fyrir að hverfa frá þessari helmingaskiptareglu í áföngum og láta atvinnutekjur maka ellilífeyrisþega hafa 25% vægi í stað 50% við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar.
    D-liður 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins fjallar um hvernig skuli við útreikning á tekjutryggingu fara með lífeyrisgreiðslur maka úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Gert er ráð fyrir að lífeyrisgreiðslur maka elli- og örorkulífeyrisþega hafi ekki áhrif á viðmiðunartekjur lífeyrisþegans og að ákvæðin komi til framkvæmda 1. janúar 2010. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 skulu lífeyrisgreiðslur lífeyrisþega og makans skiptast til helminga en á tímabilinu 1. janúar til og með 31. desember 2009 skulu hlutföllin vera 80% hjá lífeyrisþeganum og 20% hjá makanum. Nefnd forsætisráðherra, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi þessu, lagði til að lífeyrissjóðstekjum yrði haldið aðgreindum með framangreindum hætti við útreikning á ellilífeyrisgreiðslum almannatrygginga. Samkvæmt núgildandi lögum um almannatryggingar hafa tekjur maka ekki áhrif á elli- og örorkulífeyri en þær hafa áhrif á tekjutryggingu. Skiptast sameiginlegar tekjur hjóna til helminga og útreikningur tekjutryggingar miðast við þá fjárhæð. Í d-lið 2. mgr. er eins og að framan segir gert ráð fyrir að hverfa frá þessari helmingaskiptareglu í áföngum og láta lífeyrisgreiðslur maka elli- og örorkulífeyrisþega hætta að hafa áhrif á útreikning á fjárhæð tekjutryggingar.
    Í e-lið 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er fjallað um hvernig skuli við útreikning á tekjutryggingu fara með aðrar tekjur elli- og örorkulífeyrisþega en fjármagnstekjur, atvinnutekjur og lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum og séreignarlífeyrissparnaði. Gert er ráð fyrir að við útreikning á tekjutryggingu skuli aðrar tekjur lífeyrisþegans hafa 75% vægi við ákvörðun tekjugrundvallar og aðrar tekjur makans hafa 25% vægi. Gert er ráð fyrir að ákvæðin komi til framkvæmda 1. janúar 2010. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 skulu aðrar tekjur skiptast til helminga milli hjóna en á tímabilinu 1. janúar til og með 31. desember 2009 skulu hlutföllin vera 65% hjá lífeyrisþeganum og 35% hjá makanum, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Ákvæðin eru í samræmi við niðurstöður nefndar forsætisráðherra, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi þessu, en nefndin lagði til að dregið yrði úr áhrifum tekna makans við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar ellilífeyrisþegans. Núgildandi lög kveða á um að tekjur maka hafi ekki áhrif á elli- og örorkulífeyri en þær hafa áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega. Skiptast aðrar tekjur hjóna til helminga milli þeirra við útreikning á tekjutryggingu en í e-lið 2. mgr. er gert ráð fyrir að horfið verði frá þessari helmingaskiptareglu í áföngum og aðrar tekjur makans látnar hafa 25% vægi við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar.
    Í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, hafi með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum ekki áhrif á útreikning elli- og örorkulífeyris. Er um að ræða ívilnandi ákvæði þar sem núgilandi lög gera ráð fyrir að séreignarsparnaður teljist tekjur sem komi til skerðingar á elli- og örorkulífeyri. Að öðru leyti er málsgreinin óbreytt frá núgildandi lögum.
    4.–5. mgr. 1. gr. frumvarpsins eru óbreyttar frá núgildandi lögum að öðru leyti en því að lokamálsliður 5. mgr. sem fjallar um nýja umsókn um bætur er fluttur úr 6. mgr. 10. gr. núgildandi laga og orðalagi hans breytt lítillega.
    Í 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldu Tryggingastofnunar ríkisins til að hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar um tekjur úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 47. gr. laganna. Með eftirliti getur stofnunin brugðist fyrr við og má gera ráð fyrir að dragi úr erfiðleikum vegna ofgreiðslna þar sem fyrr er hægt að leiðrétta hvort sem um of- eða vangreiðslur er að ræða. Tryggingastofnun getur hafið leiðréttingar þegar frá og með næsta mánuði eftir að aðstæður breytast. Til innheimtu á ofgreiddum bótum kemur þó ekki fyrr en innheimta hefst eftir árlegt uppgjör tekjutengdra bóta. Ákvæði 6. mgr. eru í samræmi við tillögur starfshóps sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði hinn 5. janúar 2006 til þess að fara yfir eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins með endurreikningi á tekjutengdum bótum. Formaður starfshópsins var Þórir Haraldsson lögfræðingur en í hópnum voru fulltrúar frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Tryggingastofnun ríkisins, ríkisskattstjóra, Landssambandi eldri borgara og Öryrkjabandalagi Íslands. Einnig var leitað álits Ásmundar Stefánssonar, formanns nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi þessu, um nánari útfærslu á framkvæmd og eftirliti með tekjutengdum bótum Tryggingastofnunar. Framangreindur starfshópur fór ítarlega yfir framkvæmd Tryggingastofnunar á eftirliti og árlegu uppgjöri tekjutengdra bóta til lífeyrisþega. Þá fór starfshópurinn yfir upplýsingar frá Tryggingastofnun um endurreikning bótagreiðslna, fjölda bótaþega sem voru endurreiknaðir og skiptingu inneigna og krafna. Í áliti starfshópsins kom fram að framkvæmd eftirlits, endurreiknings bóta og uppgjörs hefði leitt í ljós að bæta þyrfti núverandi kerfi og gera það sveigjanlegra. Starfshópurinn var sammála um mikilvægi þess að útreikningur Tryggingastofnunar á bótarétti lífeyrisþega væri byggður á réttum upplýsingum og lífeyrisþegar ættu að tryggja sem best að upplýsingar sem bótaréttur þeirra væri byggður á væru sem réttastar á hverjum tíma. Starfshópurinn taldi að efling samtímaeftirlits af hálfu Tryggingastofnunar væri brýn nauðsyn þar sem með því móti gæti Tryggingastofnun betur sinnt því grundvallarhlutverki sínu að greiða réttar bætur á réttum tíma. Starfshópurinn taldi að með eflingu slíks eftirlits og innleiðingu skýrra reglna um aðgerðir í tengslum við það ætti að vera mögulegt að draga verulega úr van- og ofgreiðslum bóta og þar fari saman hagsmunir Tryggingastofnunar og viðskiptavina hennar.
    Í samræmi við ábendingar starfshópsins hefur í frumvarpi til fjáraukalaga á árinu 2006 verið óskað eftir 50 millj. kr. viðbótarframlagi til reksturs Tryggingastofnunar ríkisins. Af þessum 50 millj. kr. eru 20 millj. kr. tímabundið fjárframlag vegna breytinga á tölvukerfi stofnunarinnar. Þá er jafnframt óskað eftir að á fjárlögum fyrir árið 2007 fái stofnunin 60 millj. kr. varanlegt rekstrarframlag vegna framkvæmdar við tekjutengdar bætur.
    7.–11. mgr. 1. gr. frumvarpsins eru efnislega óbreyttar frá núgildandi lögum.

Um 2. gr.

    Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að 10. gr. laganna verði skipt í fleiri málsgreinar er tilvísun breytt í almenna tilvísun í 10. gr.

Um 3. gr.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir að farið verði að tillögum nefndar, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi þessu, um að tekjutryggingarauki og tekjutrygging verði felld saman í einn bótaflokk, tekjutryggingu, og að grunnfjárhæðin verði hækkuð og verði óháð hjúskaparstöðu. Tillögur nefndarinnar ná eingöngu til ellilífeyrisþega en ákvæðið gerir ráð fyrir að sömu reglur séu látnar gilda um örorkulífeyrisþega. Breytingin felur í sér verulega einföldun á reglum sem gilda um tekjutryggingu, tveimur bótaflokkum er slegið saman, fjárhæð tekjutryggingar hækkuð og ekki er gerður greinarmunur á því hvort um einhleyping eða hjón er að ræða. Enn fremur eru öll ákvæði um tekjur og skiptingu þeirra milli hjóna færð í 10. gr. laganna, sbr. 1. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er kveðið skýrar á um búsetuskilyrði vegna tekjutryggingar en réttur til tekjutryggingar er bundinn við búsetu hér á landi í tiltekinn tíma og felast ekki í því breytingar frá núgildandi lögum. Í næstsíðustu málsgrein núgildandi 17. gr. er kveðið á um að ákvæði 11. gr. gildi eftir því sem við á en með þeirri tilvísun er m.a. átt við búsetuskilyrðið.
    Í 2.–4. mgr. er gert ráð fyrir að skerðingarhlutfall tekjutryggingar verði 38,35% frá 1. janúar 2008 en 39,95% á árinu 2007, sbr. 12. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir óbreyttum reglum frá núgildandi 17. gr. að því er varðar lágmarksréttindi til tekjutryggingar þegar um hjón er að ræða.
    Ákvæði 6. og 7. mgr. eru efnislega óbreytt frá núgildandi lögum.
    Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. er kveðið á um frestun á töku lífeyris en þar er gert ráð fyrir að þeir sem eigi rétt á ellilífeyri skv. 11. gr. núgilandi laga en hafa ekki lagt inn umsókn eða fengið greiddan ellilífeyri geti frestað töku lífeyris til 72 ára aldurs. Frestunin tekur til ellilífeyris og bóta sem tengjast honum samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Einnig er gert ráð fyrir því að eftir að bótaréttur hafi verið reiknaður út leiði frestunin til hækkunar á ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð fram til 72 ára aldurs eða að hámarki 30%. Þá er einnig gert ráð fyrir að nánari útfærsla verði í reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
    Forsaga 4. gr. er að 9. maí 2000 samykkti Alþingi þingsályktun þar sem skorað var á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að móta tillögur um að auka sveigjanleika íslenskra launamanna við starfslok. Skipuð var nefnd 12. janúar 2001 sem Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður stýrði og í voru fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytinu. Verkefni nefndarinnar voru að
     *      gera grein fyrir lögum, reglum og venjum er gilda um starfslok launþega, bæði hjá opinberum aðilum og á almennum vinnumarkaði,
     *      gera grein fyrir því hvernig starfslokum er háttað í þeim nágrannalöndum sem gjarnan eru höfð til viðmiðunar hér á landi,
     *      gera grein fyrir vandkvæðum og álitamálum sem uppi eru varðandi fyrirkomulag starfsloka og
     *      fjalla um valkosti og mögulegar breytingar varðandi fyrirkomulag starfsloka og ráðstafanir sem slíkar breytingar mundu útheimta, t.a.m. varðandi iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóði og lífeyrisgreiðslur.
    Í tillögum nefndarinnar frá árinu 2001 um starfslok og almannatryggingar segir m.a.:
    „Nýlega lauk störfum vinnuhópur á vegum ríkisstjórnarinnar um endurskoðun almannatrygginga og samspil þeirra við skattkerfið og lífeyrissjóði. Í áliti vinnuhópsins frá því í maí 2001 er vikið að málefnum er tengjast starfslokum en lagt er til að í almannatryggingum verði tekin upp heimild til frestunar á töku lífeyris. Í álitinu segir orðrétt:
        Vinnuhópurinn leggur til að heimilt verði að fresta töku lífeyris til allt að 72 ára aldrus gegn hækkun grunnlífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar er gæti numið allt að 0,5% á mánuði. Frestun á töku lífeyris til 72 ára aldurs gæti þannig falið í sér allt að 30% hækkun lífeyris og tryggt einhleypum ellilífeyrisþega 99 þúsund krónur á mánuði. Þetta er til þess að gera starfslok sveigjanlegri og tekur enn fremur mið af reglum flestra lífeyrissjóða sem bjóða upp á töku lífeyris á aldrinum 65–70 ára. Einnig er horft til reglna um viðbótarlífeyrissparnað. Um langt skeið var heimild í lögum til frestunar á töku ellilífeyris allt til 72 ára aldurs gegn hækkun greiðslu sem var byggð á tryggingafræðilegu mati. Fáir nýttu sér þetta enda kom hækkunin eingöngu á grunnlífeyri. Með tillögunni opnast raunhæfari möguleikar til frestunar gegn hækkun. Margt mælir með þessari tillögu. Nefna má að reglur um lífeyrissparnað kveða á um að hann geti orðið til ráðstöfunar samkvæmt ákveðnum reglum þegar einstaklingur nær 60 ára aldri. Athugun á vegum vinnuhópsins sýnir að ekki þarf að vera um aukin útgjöld að ræða fyrir ríkissjóð. Huga þarf nánar að útfærslu þessa þáttar á tryggingafræðilegan hátt.
    Ljóst er að þessar tillögur eru fallnar til þess að auka sveigjanleika í starfslokum og þær gefa fólki aukið svigrúm og möguleika á að hafa nokkur áhrif á eigin lífeyristekjur, bæði hvað varðar tímasetningar og fjárhæðir. Æskilegt er að reglur lífeyrissjóða á almennum markaði og hjá opinberum starfsmönnum verði samræmdar nýjum reglum um töku lífeyris úr almannatryggingakerfinu.“
    Þá lagði nefndin um starfslok og almannatryggingar frá árinu 2001 til að einstaklingum yrði heimilað að fresta töku almannatrygginga til 72 ára aldurs og að réttindaávinningur ykist í takt við frestun greiðslna. Ávinningur í formi ellilífeyris frá Tryggingastofnun yrði tekjutengdur líkt og tíðkast hafi enda væru bætur stofnunarinnar fyrst og fremst ætlaðar til grunnframfærslu þeim sem ekki njóta fullra réttinda í almenna lífeyrissjóðakerfinu og muni í framtíðinni einungis verða ætlaðar þeim sem ekki hafi verið á vinnumarkaði nægjanlega lengi.
    Í tillögum starfshóps stjórnvalda og Landssambands eldri borgara sem forsætisráðherra skipaði 25. september 2002 var tekið undir framangreindar tillögur nefndarinnar frá 2001 og mælt með því að lögum um almannatryggingar yrði breytt á þann veg að fólk hefði af því skýran ávinning að fresta töku lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, eigi það þess kost og kjósi. Var lagt til að lífeyrisþegi sem frestað hefði töku ellilífeyris og tengdra bóta almannatrygginga, fengi álag á lífeyri sem svaraði 0,5% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris væri frestað fram yfir 67 ára aldur. Álagið mundi reiknast á alla bótaflokka sem viðkomandi ætti rétt á við lífeyristöku en greiddist sérstaklega. Til að frestunin hefði örugglega þýðingu þyrfti að taka mið af henni við útreikning á áhrifum annarra tekna og var því lagt til að frítekjumörk hlutaðeigandi mundu hækka sem því svaraði þannig að ekki kæmi til skerðingar annarra bóta vegna áunnins álags á lífeyri.
    Starfshópur forsætisráðherra frá 25. september 2002 skilaði álitsgerð og tillögum 19. nóvember 2002. Í yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands og Landssambands eldri borgara þann sama dag kom fram að það væri sameiginleg afstaða ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara að tillögur starfshópsins vitnuðu um gagnlegt samstarf og samráð aðila og endurspeglaði samkomulag um aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra næstu tvö til þrjú árin. Þar kemur fram að ríkisstjórnin hefði samþykkt að beita sér fyrir því að tillögurnar næðu fram að ganga.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði 31. maí 2005 samráðsnefnd til að fara yfir efndir á samkomulaginu frá 19. nóvember 2002. Samráðsnefndin var skipuð fulltrúum frá Landssambandi eldri borgara, fjármálaráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og skilaði skýrslu 8. nóvember 2005. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að framangreindar tillögur um sveigjanleg starfslok hafi ekki gengið eftir. Einnig lagði nefndin til að stofnaður yrði vinnuhópur til að gera tillögur um lagabreytingar og í þeim vinnuhópi ættu að vera fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra, Tryggingastofnunar ríkisins og Landssambands eldri borgara.
    Nefnd sem forsætisráðherra skiptaði 16. janúar 2006, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi þessu, tók málið upp og gerði tillögur um að heimila frestun á töku ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins og byggist 4. gr. frumvarpsins á tillögum þeirrar nefndar.

Um 5. gr.

    Vaknað hafa spurningar um réttarstöðu friðargæsluliða íslenska ríkisins að því er varðar vinnuslysatryggingar skv. III. kafla laganna þar sem ákvæði 2. mgr. 22. gr. þeirra kveður á um að þeir einir séu slysatryggðir við vinnu sem slasast við vinnu á vinnustað eða á leið til eða frá vinnu. Íslenskir friðargæsluliðar sem starfa erlendis, t.d. í Afganistan, eru því einungis tryggðir ef þeir slasast þegar þeir eru að sinna starfi sínu. Þeir eru því ekki tryggðir allan tímann sem þeir eru staddir á ófriðarsvæði.
    Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laganna telst slys ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna. Í sömu málsgrein er gerð undantekning á þessari reglu en þar segir að tryggingin taki þó til allra slysa á sjómanni sem verða um borð í skipi hans eða þegar hann ásamt skipinu er staddur utan heimahafnar skips eða útgerðarstaðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að persónulegt gildissvið slysatrygginganna verði víkkað út og að íslenskir friðargæsluliðar fái sömu réttarstöðu og sjómenn og verði tryggðir allan sólarhringinn hvort sem þeir séu beinlínis við störf eða ekki.

Um 6. gr.

    Með lögum nr. 74/2002 var ákvæðum b-liðar 1. mgr. 24. gr. laganna breytt og persónulegt gildissvið slysatryggingarinnar víkkað út þannig að fyrir utan nemendur við iðnnám í löggiltum iðngreinum urðu einnig slysatryggðir háskólanemar og nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum þegar þeir sinna verklegu námi.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvæðið verði víkkað enn frekar út þannig að allir háskólanemar sem stunda verklegt nám verði slysatryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Um 7. gr.

    Núgildandi ákvæði 8. mgr. 43. gr. laganna vísa til tekjumarka tekjutryggingar í 17. gr. laganna. Gert er ráð fyrir því í frumvarpi þessu að tekjumörk tekjutryggingar verði felld brott, sbr. athugasemdir við 3. gr. frumvarpsins, og þarf því að setja sérstök tekjumörk í ákvæði 8. mgr. 43. gr. laganna. Við ákvörðun fjárhæðarinnar var miðað við núverandi tekjumark tekjutryggingar örorkulífeyrisþega og þau hækkuð um 8,4%.

Um 8. gr.

    Ákvæði 7. málsl. 2. mgr. 47. gr. núgildandi laga skyldar umsækjanda og bótaþega að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um breytingar á tekjum sem verða á yfirstandandi tekjuári. Orðalag ákvæðisins er lagfært þannig að umsækjanda og bótaþega ber ekki aðeins að tilkynna um breytingar á tekjum heldur einnig um breytingar á öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Með öðrum aðstæðum er m.a. átt við breytta hjúskapar- eða sambúðarstöðu og búsetu hér á landi en þessi atriði geta haft áhrif á bótarétt samkvæmt almannatryggingalögum.

Um 9. og 10. gr.

    Í a-lið 9. gr. og 10. gr. frumvarpsins er orðinu „úrskurðaðar“ breytt í orðið „ákvarðaðar“ en ekki er um úrskurð um bætur af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins að ræða heldur ákvörðun um bætur.
    Ákvæði b-liðar 9. gr. frumvarpsins skýra betur frá hvaða tímamarki skuli ákvarða bætur aftur í tímann. Óvissa hefur verið um þessi tímamörk og þykir eðlilegt að miða við tímann frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.

Um 11. gr.

    Í a-lið er gert ráð fyrir að ákvæði sem eru í núgildandi 5. mgr. 10. gr. laganna séu flutt í 4. mgr. 50. gr. Ákvæði um að hafi Tryggingastofnun vangreitt bótaþega bætur skuli stofnunin greiða honum það sem upp á vantar á ekki eingöngu við um tekjutengdar bætur. Af þeim sökum er gert ráð fyrir að ákvæðið verði flutt í 50. gr. laganna og taki til allra bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar.
    Í b-lið er gert ráð fyrir að ráðherra geti sett reglugerð um framkvæmd 50. gr., t.d. um innheimtu á ofgreiddum bótum, undanþágur frá innheimtu ofgreiddra bóta og afskriftir krafna.

Um 12. gr.

    Við lögin bætast sex ný ákvæði til bráðabirgða en þar er kveðið á um hvenær tiltekin ákvæði í 2. mgr. 10. gr. og 2.–4. mgr. 17. gr. laganna komi til framkæmda. Einnig er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 65. gr. laganna skuli elli- og örorkulífeyrir og tekjutrygging hækka um 2,9% á árinu 2007 og er það í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar við Landssamband eldri borgara frá 19. júlí 2006. Forsendur samkomulagsins voru að laun mundu hækka um 2,9% og verðlag um 4,6% á árinu 2007 en að endanleg ákvörðun bóta á árinu 2007 réðist af ákvæðum laga um almannatryggingar. Þá er í bráðabirgðaákvæði kveðið á um að á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 sé hægt að óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að gerður verði samanburður á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir og eftir gildistöku laganna. Ef samanburðurinn leiði til hærri bóta samkvæmt eldri lögum sé heimilt að greiða hærri bæturnar. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 1. og 3. gr. frumvarpsins til skýringar.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að 4. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna verði felldur brott. Með því er felld brott heimild til að verja fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Ákvæðið er í samræmi við tillögur nefndar forsætisráðherra, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi þessu, um að það fé sem í dag fer úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða færist til uppbyggingar öldrunarþjónustu. Með því taldi nefndin að fjármagn til uppbyggingar aukist um rúmlega 200 millj. kr. á ári. Á árinu 2007 verði tilfærslan þó aðeins að hálfu en 1. janúar 2008 komi hún að fullu til framkvæmda, sbr. 4. tölul. 17. gr. frumvarpsins. Telur nefndin að þessi ráðstöfun fjármagni hlut ríkisins af byggingarkostnaði 60–65 rýma á næstu fjórum árum.

Um 14. gr.

    Í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um að Framkvæmdasjóður aldaðra skuli vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að sjóðurinn verði frá 1. janúar 2007 í vörslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í stað Tryggingastofnunar og varsla færist með því nær þeim aðila sem tekur ákvörðun um veitingu fjármagns úr sjóðnum.

Um 15. gr.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að öll ákvæði með skilgreiningum á tekjum og skiptingu þeirra milli hjóna við útreikning á vistunarframlagi verði í 26. gr. laganna. Ákvæði 26. gr. laganna eru sambærileg ákvæðum 10. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og er því gert ráð fyrir í frumvarpinu að sami háttur verði hafður á og í lögum um almannatryggingar. Í núgildandi 3. tölul. 2. mgr. 22. gr. laganna er kveðið á um að tekjur vistmanns og maka skiptist að jöfnu milli vistmanns og makans. Frumvarpið gerir ráð fyrir að skiptingin á tekjum hjóna verði með sama hætti og gerð er grein fyrir í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins. Er vísað til þeirra athugasemda til frekari skýringar.

Um 16. gr.

    Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.

    Við lögin er bætt fimm nýjum ákvæðum til bráðabirgða sem kveða á um hvenær ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna komi til framkvæmda. Einnig er kveðið á um að á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 sé hægt að óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin geri samanburð á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingu fyrir og eftir gildistöku laganna. Ef samanburðurinn leiði til hærri bóta samkvæmt eldri lögum er heimilt að leiðrétta vistunarframlag samkvæmt því.

Um 18. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2007.
    Í 2. og 3. mgr. er gert ráð fyrir endurútgáfu laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.

Fylgiskjal I.


Yfirlýsing ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara.
(Reykjavík 19. júlí 2006.)


Hinn 16. janúar síðastliðinn skipaði forsætisráðherra nefnd með fulltrúum ráðuneyta og Landssambands eldri borgara til að fjalla um aðbúnað og afkomu ellilífeyrisþega. Nefndin hefur í dag skilað sameiginlegum tillögum sínum.

Landssamband eldri borgara og ríkisstjórnin fagna því góða samstarfi sem tókst í nefndinni. Það er sameiginleg afstaða ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara að tillögurnar séu til vitnis um gagnlegt samstarf og samráð aðila og endurspegli samkomulag um aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra sem komi til framkvæmda næstu fjögur árin eins og nánar er lýst í tillögum nefndarinnar.

Meginatriði tillagnanna eru eftirfarandi:
     *      Hækkun lífeyrisgreiðslna almannatrygginga.
     *      Einföldun bótakerfisins með fækkun og sameiningu bótaflokka.
     *      Lækkun skerðingar bóta vegna tekna maka.
     *      Lækkun skerðingar bóta vegna annarra tekna bótaþega.
     *      Tekið verði upp frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega.
     *      Hækkun vasapeninga.
     *      Starfslok verði sveigjanleg þannig að lífeyrisgreiðslur hækki við frestun á töku lífeyris.
     *      Heimaþjónusta verði stóraukin og áhersla færð frá stofnanaþjónustu.
     *      Fjármagn sem nú gengur til reksturs stofnana úr Framkvæmdasjóði aldraðra gangi til uppbyggingar öldrunarstofnana.
     *      Verulega aukið fjármagn til framkvæmda og reksturs til átaks vegna biðlista eftir hjúkrunarrými.
     *      Aukin áhersla verði lögð á fullnægjandi framboð þjónustu- og öryggisíbúða.

Ríkisstjórnin hefur þegar fjallað um framangreindar tillögur og samþykkt að beita sér fyrir framkvæmd þeirra.

Jafnframt árétta aðilar vilja til áframhaldandi samráðs um þau viðfangsefni sem tillögurnar taka til og annað það sem upp kann að verða tekið í samráðsnefnd aðila. Sérstaklega verður árangurinn metinn á miðju umræddu tímabili í ljósi þróunar verðlags, launa og efnahagsmála almennt.



Fylgiskjal II.


Álit nefndar fulltrúa ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara.


Reykjavík 19. júlí 2006

Hr. forsætisráðherra
Geir Haarde
Stjórnarráðshúsinu
Lækjartorgi

Hinn 16. janúar 2006 skipaði forsætisráðherra nefnd til að fjalla um lífeyrismál svo og búsetu- og þjónustumál aldraðra.

Nefndina skipa:
Tilnefnd af Landssambandi eldri borgara: Ólafur Ólafsson, Einar Árnason, Helgi K. Hjálmsson, Margrét Margeirsdóttir og Pétur Guðmundsson.
Ólafur Hjálmarsson, tilnefndur af fjármálaráðherra, Steingrímur Ari Arason tilnefndur af utanríkisráðherra, Ragnhildur Arnljótsdóttir tilnefnd af félagsmálaráðherra, Vilborg Hauksdóttir og Vilborg Ingólfsdóttir tilnefndar af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Ásmundur Stefánsson tilnefndur af forsætisráðherra og var hann skipaður formaður nefndarinnar.
Fjóla Agnarsdóttir, starfsmaður forsætisráðuneytisins, var ritari nefndarinnar en auk hennar hafa Eyþór Benediktsson, starfsmaður fjármálaráðuneytisins, Sigurður Grétarsson, starfsmaður tryggingastofnunar og Borgþór Kjærnested, framkvæmdastjóri Landssambands eldri borgara starfað með nefndinni.
Nefndin hefur átt 25 formlega fundi og leitað upplýsinga víða um viðfangsefni sitt.
Upphaflega var stefnt að því að nefndin skilaði af sér á komandi hausti en þegar á reyndi þótti óhjákvæmilegt að flýta niðurstöðum og koma breytingum á lífeyriskjörum í framkvæmd nú á miðju ári.

Niðurstöður nefndarinnar fylgja þessu bréfi en þar er m.a. fjallað um eftirtalin atriði:
     *      hækkun lífeyrisgreiðslna almannatrygginga
     *      einföldun kerfisins með fækkun bótaflokka
     *      dregið er úr áhrifum tekna maka
     *      lækkun skerðingar vegna annarra tekna
     *      vasapeningar hækka
     *      sveigjanleg starfslok þannig að lífeyrisgreiðslur hækki við frestun á töku lífeyris.
     *      frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega
     *      heimaþjónusta verði stóraukin og áhersla færð frá stofnanaþjónustu
     *      það fjármagn sem nú gengur til rekstrar stofnana úr Framkvæmdasjóði aldraðra gangi til uppbyggingar öldrunarstofnana
     *      verulegt fjármagn til framkvæmda og rekstrar til átaks vegna biðlista eftir hjúkrunarrými
     *      áhersla á fullnægjandi framboð þjónustu- og öryggisíbúða.

Nefndin leggur áherslu á að tillögur hennar nái sem fyrst fram að ganga.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Lífeyrismál

Tillögurnar eru eftirfarandi:
     1.      Útfærsla nýgerðra kjarasamninga á almennum markaði, þ.e. útfærsla á 15 þ.kr. hækkuninni, tekur mið af tillögum nefndarinnar um sameiningu bótaflokka. Allir sem ekki njóta annarra tekna en greiðslna frá TR hækka um 15 þ.kr. á mánuði. Um áramót hækka bætur sem svarar almennri hækkun launa á vinnumarkaði eða um 2,9%.

     2.      Tekjutryggingarauki hjóna og einstaklinga verður samræmdur og fjárhæð tekjutryggingarauka hækkuð þannig að tekjutryggingarauki og tekjutrygging geti falli saman í einn bótaflokk, tekjutryggingu.

     3.      Heimilisuppbót einstaklings sem býr einn á eigin vegum hækkar um kr. 4.361 á mánuði miðað við þær tölur sem í gildi eru í dag og skerðist á sama tekjubili og hinn sameinaði flokkur, tekjutrygging.

     4.      Skerðingarhlutfall hins sameinaða lífeyrisflokks, tekjutryggingar, verði lækkað í 38,35% en skerðingarhlutfall tekjutryggingar og tekjutryggingarauka er það sama í báðum flokkum í dag, 45%.

     5.      Hækkun lífeyrisgreiðslna og lækkun skerðingarhlutfalls leiðir til þess að núllmark tekjutryggingar (efra tekjumark) verður hærra en frítekjumark (neðra tekjumark) ellilífeyris. Til að ekki verði um tvöfalda skerðingu tekjutryggingar og ellilífeyris að ræða er gerð tillaga um að samanlögð skerðing verði takmörkuð við 38,35%.

     6.      Þar sem fast hlutfallslegt álag á tekjutryggingu kemur í stað heimilisuppbótar og núllmark hækkar með hækkun ellilífeyris og lækkun skerðingarhlutfalls verður samanlögð skerðing tekjutryggingar og álags þeirra sem búa einir á eigin vegum tæplega 50% miðað við þær tölur sem felast í tillögum nefndarinnar í stað 64% í dag. Um leið fellur burt sérstakt frítekjumark heimilisuppbótar þannig að hún skerðist strax með fyrstu tekjum. Samspil lækkunar skerðingarhlutfalls og hækkunar bóta leiðir hins vegar til þess að allir hækka við breytingarnar.

     7.      Næstu tvö árin verður í gildi sérregla til að tryggja að þar sem tekjur við frítekjumörk verða hærri samkvæmt gildandi kerfi en eftir breytingu sé viðkomandi tryggður óverðtryggður réttur samkvæmt eldra kerfi.

     8.      Við ákvörðun lífeyrisgreiðslna er í dag tekið mið af meðaltekjum hjóna og sambúðarfólks. Lagt er til að þessum reglum verði breytt. Í fyrsta lagi verði lífeyrissjóðstekjum hjónanna haldið aðgreindum þannig að lífeyrissjóðstekjur annars þeirra hafi ekki áhrif á viðmiðunartekjur hins. Í öðru lagi verði dregið úr tengingu vegna atvinnutekna þannig að í tekjuuppgjöri telji eigin atvinnutekjur 75% og atvinnutekjur maka 25% í stað 50% í dag.

     9.      Þeir einstaklingar sem ekki hafa hafið töku ellilífeyris 1. janúar 2007 geta með frestun lífeyristöku hjá TR tryggt sér hækkun allra bótafjárhæða um 0,5% fyrir hvern mánuð fram til 72 ára aldurs. Hækkun vegna frestunar getur þannig mest orðið 30%.

     10.      Frá og með 1. janúar 2009 verði frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 200 þ.kr. á ári og frá 1. janúar 2010 verði frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 300 þ.kr.

     11.      Ráðstöfunarfé (vasapeningar) við dvöl á stofnun hækki um 25%.

     12.      Sem fyrsta skref breytinganna er lagt til að ellilífeyrir hækki um 5,5% frá 1. júlí 2006 (þar af eru 1,7% flýting verðbóta um áramótin 2006/2007) og til bráðabirgða verði greiddar sérstakar uppbætur á lífeyri á tímabilinu 1. júlí til 31. desember 2006. Uppbætur til bráðabirgða skulu samsvara því í grófum dráttum að heildarhækkun greiðslna frá TR verði um 15 þ.kr. á mánuði.

     13.      Öðrum áföngum verði skipt þannig að kostnaður sem er áætlaður 4.250 m.kr. þegar öll atriði eru komin til framkvæmda verði orðinn um 3.650 m.kr. á árinu 2007 og síðan bætist við 200 m.kr. á ári næstu þrjú ár.

     14.      Tillögur um bætur almannatrygginga gera ráð fyrir hækkun launa um 2,9% og verðlags um 4,6% á árinu 2007. Endanleg ákvörðun bóta á árinu 2007 ræðst á hinn bóginn af ákvæðum laga um almannatryggingar.

     15.      Mikilvægt er að nauðsynlegar lagabreytingar nái fram að ganga í haust þannig að þær geti tekið gildi um næstu áramót.

     16.      Með þessum tillögum nefndarinnar og þeim tillögum sem fylgja um úrbætur í húsnæðis- og þjónustumálum aldraðra er lagður grunnur að áætlun um fjögurra ára samkomulag stjórnvalda og Landssambands eldri borgara. Jafnframt er lögð áhersla á áframhaldandi samráð samningsaðila.

Búsetumál- og þjónustumál aldraðra

Þjónusta og aðgerðir í húsnæðismálum aldraðra hljóta að taka mið af því að flestir vilja búa heima svo lengi sem þeir hafa heilsu til.

Nefndin leggur til:
     *      Að félagsmálaráðuneytið fylgi því eftir að ákvæðum laga um félagsþjónustu sveitarfélaga varðandi framboð á húsnæði sé framfylgt og að sveitarfélögin séu á hverjum tíma með markvissar áætlanir og aðgerðir til að tryggja fullnægjandi framboð íbúða.

     *      Jafnframt að sveitarfélögin tryggi framboð á þjónustuíbúðum þar sem auðveldara er að nálgast þjónustuna en þar sem byggð er dreifð auk þess sem búseta í þjónustuíbúðaklösum getur dregið úr félagslegri einangrun aldraðra. Einhver hluti þess húsnæðis verður að vera leiguhúsnæði en fyrir flesta er eignarhald ekki óyfirstíganlegur þröskuldur heldur eðlilegur tilflutningur úr einni eign í aðra.

     *      Öryggisíbúðir eru sérstakt form þjónustuíbúða og almennt miðað við að þær séu í þjónustutengslum við hjúkrunarheimili. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tryggi að ljóst sé hvaða þjónustuviðmiðanir gildi um það íbúðaform.

Stuðningur við aldraða sem búa heima
Meginhluti aldraðra býr í eigin húsnæði án heimilisaðstoðar og á ekki önnur samskipti við heilbrigðiskerfið en hefðbundnar læknisheimsóknir eins og aðrir landsmenn. Ef vinna á að því markmiði að styðja aldraða við að vera heima sem lengst þrátt fyrir veikindi og minnkaða færni þarf að auka verulega ýmis konar þjónustu við aldraða sem búa heima frá því sem nú er. Það er skoðun nefndarinnar að aukin heimaþjónusta geri hvort tveggja í senn að bæta lífsgæði aldraðra og draga úr útgjöldum vegna stofnanaþjónustu.

Nefndin leggur til:
     *      Að heimahjúkrun verði aukin verulega og stefnt að því að kvöld og næturþjónusta heimahjúkrunar standi til boða um allt land og að sú fjárhæð sem nú fer til heimahjúkrunar aldraðra, um 540 m.kr. árlega verði á næstu þremur árum aukin í 1.440 m.kr. Aukningin verði í þeim skrefum að 200 m.kr. bætist við árið 2007, 300 m.kr. árið 2008 (samtals 500 m.kr.) og 400 m.kr. árið 2009 (samtals 900 m.kr. aukning).

     *      Að yfirvöld menntamála vinni markvisst að því að mennta ófaglærðra starfsmenn til aðstoðar við aðhlynningu um leið og áhersla er lögð á að fjölga hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum og öðrum faghópum til að mæta aukinni þörf.

     *      Að heilsugæslan styrki tengslin á milli heilsugæslulækna og heimahjúkrunar og læknar vitji reglulega sjúklinga sem þess þarfnast og heimahjúkrun sinnir.

     *      Að félagsleg heimaþjónusta og önnur þjónusta sem sveitarfélögum ber að veita öldruðum samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga verði stórefld til muna og félagsmálaráðuneytið setji leiðbeinandi reglur um þessa þjónustu þannig að fyrir liggi skýr viðmiðun um það hvað sé eðlileg þjónusta.

     *      Að tryggð verði aukin samþætting heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu. Aukin heimaþjónusta nær ekki fram að ganga nema sveitarfélögin auki verulega sinn þátt í þjónustunni.

     *      Að hvíldarrýmum á heilbrigðisstofnunum og dagvistarrýmum verði fjölgað til að mæta þeirri þörf sem nú er og þeirri aukningu sem leiða mun af fjölgun aldraðra í heimahúsum sem þurfa á mikilli aðhlynningu að halda.

     *      Að ársframlag til hjálpartækjaþjónustu TR við aldraða, sérstaklega varðandi öryggishnappa, verði aukið um 20 m.kr. eða 80 m.kr. á næstu fjórum árum til að auðvelda fólki sjálfstæða búsetu


Hjúkrunarheimili
Hjúkrunarrýmum hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og á þessu ári eru hjúkrunarrými á hjúkrunarheimilum eða heilbrigðisstofnunum um 2.500. Á biðlista eftir innlögn eru yfir 400 einstaklingar í brýnni þörf, flestir á höfuðborgarsvæðinu.
Að óbreyttu nær langtímaáætlun heilbrigðisráðuneytisins ekki að tryggja að framkvæmdafé fjármagni að fullu fjölgun rýma til að mæta fjölgun aldraðra næstu árin.

Nefndin leggur til:
     *      Að framlög til bygginga hjúkrunarheimila verði aukin til að mæta fjölgun aldraðra og ná biðlistum niður þannig að markmiðsetning heilbrigðisráðuneytisins um að biðtími verði ekki að meðaltali yfir þrír mánuðir náist.

     *      Að áætlanir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um uppbyggingu hjúkrunarheimila verði endurskoðaðar með reglubundnum hætti með hag aldraðra og hagkvæmni í framkvæmdum og rekstri í huga. Sérstaklega verði metið hvort líklegt sé að tilfærsla fjármuna frá framkvæmdum og rekstri hjúkrunarheimila til aukinnar heimaþjónustu frá því sem tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir sé líkleg til að bæta öldrunarþjónustuna. Tillögurnar verði jafnframt kynntar hagsmunafélögum aldraðra, almenningi, sveitarfélögum og þeim sem nú reka hjúkrunarheimili þannig að áætlunum og frumkvæði ráðuneytisins verði komið vel á framfæri.

     *      Að það fé sem í dag fer úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraðra færist til uppbyggingar öldrunarþjónustu. Með því eykst fjármagn til uppbyggingar um rúmlega 200 m.kr. á ári. Á árinu 2007 verði tilfærslan þó aðeins að hálfu. Þessi ráðstöfun fjármagnar hlut ríkisins af byggingarkostnaði 60–65 rýma á næstu fjórum árum.

     *      Að sérstök 1.300 m.kr fjárveiting verði til framkvæmda sem sérstaklega er ætluð til að stytta biðlista eftir hjúkrunarrýmum. Þar af komi 700 m.kr. á árinu 2008 og 600 m.kr. á árinu 2009. Með fjárveitingunni greiðist kostnaðarhlutdeild ríkisins við 130 rými. Með þeim, uppbyggingu samkvæmt núverandi langtímaáætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, auknu fjármagni til uppbyggingar úr Framkvæmdasjóði aldraðra og aukinni heimaþjónustu er áætlað að ná megi biðlistum í ásættanlegt horf.

     *      Að til viðbótar komi framlag sem nemi 100 m.kr. á ári árin 2008, 2009 og 2010 sem gangi sérstaklega til breytinga og endurbygginga hjúkrunarheimila umfram það sem nú er gert ráð fyrir í langtímaáætlun ráðuneytisins til að breyta eldri hjúkrunarrýmum úr fjölbýli í einbýli og færa að breyttum kröfum. Heildarviðbót fjárveitinga til framkvæmda er þannig 800 m.kr. árið 2008, 700 m.kr. árið 2009 og 100 m.kr. árið 2010.

     *      Að dvalarrýmum verði breytt í hjúkrunarrými þar sem það er talið æskilegt og hagkvæmt. Þessi breyting verði framkvæmd í takt við aukna þjónustu og fjölgun öryggisíbúða.

     *      Að kostnaði vegna fjölgunar hjúkrunarrýma og dagvista verði mætt með sérstöku rekstrarframlagi. Fjárhæðin verði 100 m.kr. árið 2008, 580 m.kr. árið 2009 og 1.060 m.kr. árið 2010. Það samsvarar kostnaði við um rekstur 200 rýma til viðbótar því sem nú er gert ráð fyrir í langtímaáætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

     *      Að vistunarmat á hjúkrunarheimilum verði samræmt og því flýtt að RAI-mat fyrir heimaþjónustu verði tekið í notkun.

     *      Að hjúkrunarþyngd ráði meiru en nú er um rekstarfjármögnun hjúkrunarheimila. Til að RAI-mat geti verið traustur og ásættanlegur grunnur til ákvörðunar á greiðslu til hjúkrunarheimilanna þarf að tryggja samræmt mat og að það endurspegli hjúkrunarkostnaðinn rétt. Því þarf að styrkja eftirlit með RAI-matinu.

     *      Að greiðsla daggjalda á hjúkrunarheimilum taki mið af RAI-mati og sé RAI-stuðull aldraðs einstaklings 0,95 eða lægri greiðist daggjald eins og um dvalarheimilisvist væri að ræða.

     *      Að stefnt verði að því að fyrirkomulagi greiðslna aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum verði breytt þannig að greiðslunni verði skipt í kostnað við húsnæði, mat, þvotta og ræstingu og umönnun. Samkvæmt núgildandi lögum greiða vistmenn allt að 190 þ.kr. á mánuði, þar af 90–100 þ.kr. vegna umönnunar á dvalar- og hjúkrunarheimilunum. Jafnframt verði kannað með hag aldraðra og hagkvæmni í rekstri í huga hvernig breyta megi greiðslufyrirkomulagi lífeyrisgreiðslna TR þannig að þær verði ekki felldar niður eins og nú er gert heldur gangi þær til einstaklingsins sem greiði til stofnunarinnar af tekjum sínum í samræmi við greiðslugetu. Við kerfisbreytingu yrði að tryggja að ekki þrengi að persónulegum fjárhag íbúa frá því sem nú er. Breytt kerfi gæti opnað möguleika á því að íbúar fjármagni húsnæðisfjárfestinguna ef eignastaða leyfir. Ef þjónustan er færð frá stofnunum inn á heimilin er rökrétt að skoða greiðslur þeirra sem njóta þjónustu heima í ljósi aukinnar þjónustu. Til greina kemur að gera þjónustusamninga við notendur þjónustunnar hvort sem er á dvalar- og hjúkrunarheimilum eða utan stofnana. Ítreka verður að slíkir samningar mættu þó aldrei ganga nærri framfærslumöguleikum viðkomandi einstaklinga.

     *      Að hjúkrunarheimilin gefi sjúkrahúsunum meiri forgang en nú er varðandi innlagnir þannig að aldraðir fái notið eðlilegs aðbúnaðar og bætt verði úr þeirri röskun sem fjöldi aldraðra sem betur væri kominn á hjúkrunarheimili en sjúkrahúsi hefur valdið í starfsemi Landsspítala – háskólasjúkrahúss. Sú röskun hefur ekki aðeins haft áhrif á almenna starfsemi sjúkrahússins heldur einnig aðstöðu þess til endurhæfingar aldraðra og hvíldarinnlagna.
Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Í almennri umræðu hefur mikið verið fjallað um ófullnægjandi samstarf heimahjúkrunar sem ríkið rekur og félagslegrar heimaþjónustu sem sveitarfélögin sjá um. Samningar hafa verið gerðir í einstökum sveitarfélögum um að sveitarfélagið yfirtaki heimahjúkrunina og heilsugæsluna á svæðinu til að verkefnin séu undir einum hatti og í öðrum sveitarfélögum hefur verið leitast við með skipulegum hætti að samræma þjónustuna.

Stærstu stökkin í kostnaði öldrunarþjónustunnar eru þegar þjónustan færist á milli þjónustustiga, þ.e. frá félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun í eigin íbúð eða þjónustuíbúð til dvalar á hjúkrunarheimili. Í fyrra tilvikinu er hluti kostnaðar hjá sveitarfélaginu en í því síðar færist hann allur á ríkið (og íbúinn). Tilflutningur verkefna þarf að hafa það að markmiði að framkvæmd, ábyrgð og fjármögnun séu á sömu hendi. Tilfærsla á hjúkrunarþjónustu er því aðeins rökrétt að heilsugæslan fylgi og tilflutningur heimahjúkrunar og heilsugæslu því aðeins að dvalar- og hjúkrunarheimilin fylgi. Kerfið verður að vera í því samræmi að það verði ekki stórhagsmunamál einhvers ákvörðunaraðila að einstaklingar flytjist milli þjónustustiga. Með þeirri tillögu sem gerð er hér að framan er gert ráð fyrir því að kostnaðargreiðslur endurspegli RAI-mat og að lágmarksviðmiðun verði sett í RAI-mati gagnvart greiðslu daggjalds hjúkrunarheimilis. Þannig reglur kunna að gera kleift að skipta verkefnum á faglegum grundvelli sem ekki býður hagsmunaágreiningi heim.

Í stjórnmálaumræðum síðasta misserið hafa flestir lýst þeirri skoðun að öldrunarmál eigi að flytjast frá ríkinu til sveitarfélaganna. Skipulagsbreyting af því tagi kallar á vandlega umfjöllun allra aðila þar sem ekki er aðeins fjallað um verkefnin heldur einnig tekjustofna. Sú umræða mun taka tíma og því er nauðsynlegt að þegar verði brugðist við en verkefnum ekki slegið á frest með tilvísun til væntanlegar breytingar á verkaskiptingu.

Nefndin leggur til:
Að ríkisvaldið og Samband íslenskra sveitarfélaga endurskoði verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi þjónustu og búsetumál aldraðra sem fyrst.

Fulltrúar ráðuneytanna telja að ganga eigi til endurskoðunarinnar með opnum huga en Landssamband eldri borgara leggur þunga áherslu á þá kröfu að markmið endurskoðunarinnar verði að málefni aldraðra flytjist í heild frá ríki til sveitarfélaganna svo fljótt sem unnt er því ekki sé að vænta ásættanlegrar niðurstöðu fyrr en verkefnin séu á einni hendi. Þessi mismunandi sjónarmið gera enn mikilvægara en ella að gengið sé hratt í verkefnið.

Nefndin leggur mikla áherslu á að sú vinna sem hér er gert ráð fyrir verði ekki til að tefja framgang þeirra tillagna sem nefndin er sammála um.

Samantekt á kostnaði (m.kr.)

Lífeyrishluti 2006 2007 2008 2009 2010
Ellilífeyrisþegar
Kjarasamn.+ sameining flokka 1.203 2.405 2.405 2.405 2.405
Frestun töku lífeyris 0 0 0 100 200
Lækkun skerðingarhlutfalls 0 1.164 1.503 1.503 1.503
Lækkun tengingar við tekjur maka 0 0 0 92 329
Frádráttur frá atvinnutekjum 0 0 0 142 208
25% hækkun vasapeninga 0 119 119 119 119
Samtals 1.203 3.688 4.027 4.361 4.764
Þjónustuhluti
Rekstur
Efling heimahjúkrunar 0 200 500 900 900
Bætt rekstraraðstaða hj.heimila 0 500 500 500 500
Rekstur nýrra hjúkrunarheimila 0 100 580 1.060
Hjálpartæki 0 20 20 20 20
Samtals 0 720 1.120 2.000 2.480
Framkvæmdir
Framkvæmdasjóður aldraðra 0 100 200 200 200
Sérstök viðbótarfjárveiting 0 0 800 700 100
Samtals 0 100 1.000 900 300
Rekstur + framkvæmdir 0 820 2.120 2.900 2.780
Heildarkostnaður v/ellilífeyrisþega 1.203 4.508 6.147 7.261 7.544
Örorkulífeyrisþegar
Kjarasamn.+ sameining flokka 731 1.462 1.462 1.462 1.462
Frestun töku lífeyris 0 0 0 0 0
Lækkun skerðingarhlutfalls 0 368 465 465 465
Lækkun tengingar við tekjur maka 0 0 0 14 234
Frádráttur frá atvinnutekjum 0 0 0 0 0
25% hækkun vasapeninga 0 16 16 16 16
Samtals 731 1.846 1.943 1.957 2.177
Heildarkostnaður 1.934 6.354 8.091 9.219 9.721



Fylgiskjal III.


Töflur og myndir sem sýna tekjuþróun aldraðra.


Tafla 1. Samsetning meðaltekna einhleyps lífeyrisþega 1991, 1996, 2001 og 2004
% af heildartekjum
1991 1996 2001 2004
Atvinnutekjur      17,7 14,3 11,0 9,2
Aðrar tekjur      0,5 1,0 0,7 0,4
Greiðslur frá Tryggingastofnun      45,3 43,9 33,5 33,2
Greiðslur úr lífeyrissjóði      26,0 32,1 34,5 35,8
Fjármagnstekjur      10,5 8,8 20,3 21,4
Samtals      100,0 100,0 100,0 100,0

Tafla 2. Samsetning meðaltekna hjóna þar sem bæði eru lífeyrisþegar 1991, 1996, 2001 og 2004
% af heildartekjum
1991 1996 2001 2004
Atvinnutekjur      30,4 27,1 18,0 13,4
Aðrar tekjur      0,6 0,9 0,6 0,4
Greiðslur frá Tryggingastofnun      33,6 33,0 27,1 26,4
Greiðslur úr lífeyrissjóði      22,2 27,9 31,1 31,1
Fjármagnstekjur      13,2 11,1 23,2 28,6
Samtals      100,0 100,0 100,0 100,0

Tafla 3. Samsetning meðaltekna 70 ára lífeyrisþega
% af heildartekjum
1991 1996 2001 2004
Atvinnutekjur      39,4 38,1 26,6 21,3
Aðrar tekjur      0,9 1,4 0,6 0,5
Greiðslur frá Tryggingastofnun      29,2 28,0 23,7 22,2
Greiðslur úr lífeyrissjóði      19,5 25,6 29,6 29,5
Fjármagnstekjur      11,0 6,9 19,5 26,4
Samtals      100,0 100,0 100,0 100,0

Tafla 4. Þróun heildartekna einhleypra lífeyrisþega 1991, 1996, 2001 og 2004
Vísitölur 1991=100
1991 1996 2001 2004
Heildartekjur án fjármagnstekna      100,0 116,4 165,2 205,5
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar      100,0 114,3 185,6 234,2

Tafla 5. Þróun heildartekna hjóna þar sem bæði eru lífeyrisþegar 1991, 1996, 2001 og 2004
Vísitölur 1991=100
1991 1996 2001 2004
Heildartekjur án fjármagnstekna      100,0 115,2 164,3 203,9
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar      100,0 112,6 185,7 248,0

Mynd 1 Þróun meðaltekna eftir aldurshópum 1991, 1996, 2001 og 2004
Vísitölur 1991=100

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 6. Þróun vísitalna 1991, 1996, 2001 og 2004
Vísitölur 1991=100
1991 1996 2001 2004
Launavísitala á almennum markaði      100,0 114,6 156,7 -
Almenn launavísitala      100,0 117,5 168,0 199,0
Neysluverðsvísitala      100,0 114,0 136,7 151,0

Tafla 7. Breyting á heildartekjum einhleyps lífeyrisþega, eftir fimmtungum 1991 til 2004
Skipting eftir heildartekjum
Tekju-
lægstu

2

3

4
Tekju-
hæstu

Samtals
Heildartekjur án fjármagnstekna 1991      567,9 704,9 771,9 890,9 1.340,0 855,3
Heildartekjur án fjármagnstekna 2004      1.030,8 1.397,5 1.537,9 1.725,6 3.095,2 1.757,7
Breyting 1991 til 2004      82% 98% 99% 94% 131% 106%
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar 1991 577,4 716,6 807,7 973,5 1.698,9 955,1
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar 2004 1.866,4 1.586,0 1.689,4 1.980,4 4.061,2 2.237,2
Breyting 1991 til 2004      223% 121% 109% 103% 139% 134%

Tafla 8. Breyting á heildartekjum hjóna sem bæði eru lífeyrisþegar, eftir fimmtungum 1991 til 2004
Skipting eftir heildartekjum
Tekju-
lægstu

2

3

4
Tekju-
hæstu

Samtals
Heildartekjur án fjármagnstekna 1991      986,3 1.200,6 1.382,1 1.666,2 2.766,0 1.601,0
Heildartekjur án fjármagnstekna 2004      1.921,3 2.432,7 2.772,0 3.308,2 5.886,0 3.265,1
Breyting 1991 til 2004      95% 103% 101% 99% 113% 104%
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar 1991 1.008,0 1.253,5 1.487,7 1.857,3 3.605,8 1.843,6
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar 2004 4.087,8 3.352,2 3.669,5 4.278,3 7.470,0 4.572,8
Breyting 1991 til 2004      306% 167% 147% 130% 107% 148%

Tafla 9. Dreifing heildartekna einhleyps lífeyrisþega og hjóna með fjármagnstekjum, 1991
% hlutfall
Tekju-
lægstu

2

3

4
Tekju-
hæstu

Samtals
Einhleypur     
Heildartekjur án fjármagnstekna      13,3 16,5 18,0 20,8 31,4 100,0
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar      12,1 15,0 16,9 20,4 35,6 100,0
Hjón, bæði lífeyrisþegar     
Heildartekjur án fjármagnstekna      12,3 15,0 17,3 20,8 34,6 100,0
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar      10,9 13,6 16,1 20,1 39,3 100,0

Tafla 10. Dreifing heildartekna einhleyps lífeyrisþega og hjóna með fjármagnstekjum, 2001
% hlutfall
Tekju-
lægstu

2

3

4
Tekju-
hæstu

Samtals
Einhleypur     
Heildartekjur án fjármagnstekna      13,1 16,1 18,0 20,0 32,8 100,0
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar      10,9 13,5 15,4 18,8 41,4 100,0
Hjón, bæði lífeyrisþegar     
Heildartekjur án fjármagnstekna      12,1 15,1 17,2 21,1 34,5 100,0
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar      9,8 12,4 14,8 19,2 43,8 100,0

Tafla 11. Dreifing heildartekna einhleyps lífeyrisþega og hjóna með fjármagnstekjum, 2004
% hlutfall
Tekju-
lægstu

2

3

4
Tekju-
hæstu

Samtals
Einhleypur     
Heildartekjur án fjármagnstekna      11,7 15,9 17,5 19,6 35,3 100,0
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar      16,7 14,2 15,1 17,7 36,3 100,0
Hjón, bæði lífeyrisþegar     
Heildartekjur án fjármagnstekna      11,8 14,9 17,0 20,3 36,1 100,0
Heildartekjur, fjármagnstekjur meðtaldar      17,9 14,7 16,0 18,7 32,7 100,0

Tafla 12. Hækkun hámarksbóta einhleyps lífeyrisþega frá 1991
Verðlag hvers árs


Ellilífeyrir
Tekju-
trygging

Eingr.
Heimilis-
uppbót

Eingr.
Tekjutr.-
auki

Eingr.

Samtals
1991 11.943 21.973 1.376 7.469 468 5.137 322 48.688
1992 12.260 22.558 1.475 7.668 501 5.274 345 50.081
1993 12.329 22.684 2.533 7.711 861 5.304 592 52.014
1994 12.329 22.684 2.321 7.711 789 5.304 543 51.681
1995 12.822 23.592 2.021 8.019 687 5.517 473 53.131
1996 13.373 24.605 2.009 8.364 683 5.754 470 55.258
1997 14.243 26.206 1.104 11.050 528 6.129 258 59.518
1998 15.123 27.824 1.159 13.304 554 6.507 271 64.742
1999 16.554 28.937 1.206 13.836 577 6.767 282 68.159
2000 17.594 30.252 1.266 14.464 605 7.075 296 71.552
2001 18.424 31.679 1.320 15.147 631 10.736 586 78.523
2002 19.990 34.372 1.432 16.434 685 15.257 636 88.806
2003 20.630 38.500 1.604 16.960 707 18.000 750 97.151
2004 21.249 41.655 1.736 17.469 728 20.540 856 104.233

Tafla 13. Hækkun hámarksbóta hjóna þar sem bæði eru lífeyrisþegar, frá 1991
Verðlag hvers árs


Ellilífeyrir
Tekju-
trygging

Eingr.
Heimilis-
uppbót

Eingr.
Tekjutr.-
auki

Eingr.

Samtals
1991 10.749 21.973 1.376 0 0 0 0 34.098
1992 11.034 22.558 1.475 0 0 0 0 35.067
1993 11.096 22.684 2.533 0 0 0 0 36.313
1994 11.096 22.684 2.321 0 0 0 0 36.101
1995 11.540 23.592 2.021 0 0 0 0 37.153
1996 12.036 24.605 2.009 0 0 0 0 38.650
1997 12.819 26.206 1.104 0 0 0 0 40.129
1998 13.611 27.824 1.159 0 0 0 0 42.594
1999 14.898 28.937 1.206 0 0 0 0 45.041
2000 15.835 30.252 1.266 0 0 0 0 47.353
2001 17.503 31.679 1.320 0 0 5.274 440 56.216
2002 19.990 34.372 1.432 0 0 11.445 477 67.716
2003 20.630 38.500 1.604 0 0 14.066 586 75.386
2004 21.249 41.655 1.736 0 0 16.488 687 81.815

Tafla 14. Laun greiðslur og verðlag 1991 til 2004
Vísitölur 1991=100
Hæstu mögulegar bætur


Verðlag

Almenn
launavísitala
Launavísitala
á alm.
markaði


Einhleypir

Hjón bæði
lífeyrisþegar
1991 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0
1992 103,7 103,0 102,6 102,9 102,8
1993 108,0 104,4 103,5 106,8 106,5
1994 109,6 105,6 104,4 106,1 105,9
1995 111,5 110,4 108,8 109,1 109,0
1996 114,0 117,4 114,6 113,5 113,3
1997 116,0 123,8 121,2 122,2 117,7
1998 118,0 135,4 129,8 133,0 124,9
1999 122,0 144,7 136,8 140,0 132,1
2000 128,1 154,3 144,6 147,0 138,9
2001 136,7 167,9 157,4 161,3 164,9
2002 142,9 179,5 168,6 182,4 198,6
2003 146,3 190,1 178,0 199,5 221,1
2004 151,0 199,0 186,4 214,1 239,9



Fylgiskjal IV.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra.

    Með frumvarpinu eru gerðar ýmsar breytingar sem taka mið af samkomulagi stjórnvalda og Landsambands eldri borgara. Breytingarnar á lögunum hafa í flestum tilvikum áhrif á lífeyrisgreiðslur elli- og örorkulífeyrisþega. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi er skerðingarhlutfall vegna annarra tekna lækkað úr 45% í 38,35%. Fyrsta skrefið í þessari breytingu verður tekið á árinu 2007 en þá fer skerðingarhlutfallið í 39,95% og verður svo lækkað í 38,35% á árinu 2008. Í öðru lagi eru áhrif lífeyrissjóðstekna maka til skerðingar afnumin en áður komu 50% af lífeyrissjóðstekjum makans til skerðingar á lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar. Í þriðja lagi er dregið úr áhrifum atvinnutekna maka til skerðingar en áður kom 50% af atvinnutekjum makans til skerðingar en nú 25%. Fyrsta skrefið við að draga úr áhrifum tekna maka verður stigið á árinu 2009 og að fullu árið 2010. Í þriðja lagi eru sett frítekjumörk á atvinnutekjur ellilífeyrisþega. Á árinu 2009 verður 200 þús. kr. frítekjumark á ári sem verður hækkað í 300 þús. kr. árið 2010. Í fjórða lagi eru gerðar breytingar sem fela í sér hækkun á lífeyrisgreiðslum ef viðkomandi frestar töku lífeyris. Getur þá viðkomandi fengið 0,5% hækkun fyrir hvern frestunarmánuð til 72 ára aldurs eða að hámarki 30% hækkun. Í fimmta lagi er felld á brott heimild í lögum til að verja fjármagni úr framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs stofnanaþjónustu við aldraða. Verður breytingin í tveimur áföngum árin 2007 og 2008. Í sjötta lagi felur frumvarpið í sér einföldun á lífeyriskerfi Tryggingastofnunar þannig að bótaflokkum verði fækkað. Bótaflokkarnir tekjutrygging og tekjutryggingarauki verða sameinaðir í einn bótaflokk sem mun nefnast tekjutrygging.
    Kostnaður við allar tillögur nefndarinnar er snúa að lífeyrismálum er áætlaður samtals um 7 milljarðar króna. Þar af er áætlað að um 3 milljarðar falli til í vegna breytinga í frumvarpinu. Annar kostnaður, um 4 milljarðar, fellur til vegna reglugerða um hækkun lífeyris til samræmis við samkomulag þar um. Kostnaðaraukning ríkissjóðs vegna breytinga í frumvarpinu á tímabilinu 2007 til 2010 er áætluð tæpar 3.200 m.kr. Fellur kostnaðaraukningin þannig að 1.630 m.kr. falla til á árinu 2007, 540 m.kr. á árinu 2008, 430 m.kr. á árinu 2009 og 540 m.kr. á árinu 2010. Kostnaðarmatið byggist á verðlagi ársins 2006.