Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 339. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 362  —  339. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum.

Flm.: Björn Ingi Hrafnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson,


Guðjón Ólafur Jónsson, Sæunn Stefánsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Telji prestur, forstöðumaður trúfélags eða Þjóðskrá að eiginnafn eða millinafn gangi gegn lögum þessum skal vísa málinu til dómsmálaráðherra, sbr. þó 3. mgr. 6. gr. og 7. og 10. gr.

2. gr.

    Í stað orðsins „mannanafnanefndar“ í 4. mgr. 8. gr. laganna kemur: dómsmálaráðherra.

3. gr.

    5. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Það er skilyrði nafnbreytingar að hin nýju nöfn séu samþykkt af dómsmálaráðherra, sbr. þó 3. mgr. 6. gr. og 7. og 10. gr.

4. gr.

    Orðin „að höfðu samráði við mannanafnanefnd“ í 20. gr. laganna falla brott.

5. gr.

    VIII. kafli laganna, Mannanafnanefnd, fellur brott.

6. gr.

    Við 27. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Dómsmálaráðherra skal vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Þjóðskrá og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn samkvæmt lögum þessum.
    Dómsmálaráðherra skal skera úr öðrum álita- og ágreiningmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira þess háttar.
    Dómsmálaráðherra kveður upp úrskurði í þeim málum sem til hans er vísað skv. 3. gr. og 4. mgr. 8. gr. Úrskurðir skulu kveðnir upp svo fljótt sem við verður komið og ekki síðar en innan fjögurra vikna frá því að mál berst til ráðuneytisins.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Nafn manna hefur löngum verið talið einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar þeirra og margir hafa litið svo á að það varðaði fremur einkahagi fólks og persónurétt þess en hagsmuni alls almennings. Enn á við það sjónarmið dómsmálaráðherra, sem kom fram við setningu mannanafnalaga á sínum tíma, að þótt brýnt sé að sjálfsögðu að unnið sé að varðveislu íslenska mannanafnaforðans og íslenskra nafnasiða sé yfirleitt farsælla að vinna að því markmiði með fræðslu og upplýsingu en með beinu lagaboði.
    Þetta frumvarp er samið með það í huga að réttur foreldra til að ráða nafni barns síns sé mikill og óumdeildur, en veikari stoðir standi undir beinum afskiptum ríkisins eða löggjafans af slíkum ákvörðunum. Þá er þess og að geta að núgildandi lög hafa sætt mikilli gagnrýni, einkum hvað varðar mannanafnanefnd og úrskurði hennar. Þess eru jafnvel dæmi að nöfnum hafi verið hafnað, enda þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og tungu og hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir. Hefur þetta orðið tilefni mikilla sárinda og deilna, svo sem ítarlega hefur verið greint frá á opinberum vettvangi.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að mannanafnanefnd verði lögð niður og öll ákvæði um hana felld brott úr lögum um mannanöfn, nr. 45/1996. Lögboðið hlutverk mannanafnanefndar verði flutt til dómsmálaráðherra sem fer með mál er varða mannanöfn, sbr. 27. gr. laganna, og það verði hlutverk hans að skera úr álitamálum sem upp kunna að koma í sambandi við nafngiftir, nafnritun o.fl. Jafnframt verði mannanafnaskrá sem mannanafnanefnd hefur samið og gefið út lögð niður.
    Markmið frumvarpsins er að undirstrika þá meginreglu varðandi nöfn og nafngiftir fólks að almennt skuli gert ráð fyrir að nöfn séu leyfð og aðeins sérstakar aðstæður í undantekningartilfellum geti orðið til þess að ríkisvaldið komi í veg fyrir slíkt. Slíkar aðstæður geti t.d. verið hreinar nafnleysur eða að ljóst sé að nafn geti orðið nafnbera til ama, sbr. ákvæði núgildandi laga.
    Helstu verkefni mannanafnanefndar sem nú starfar, eru þessi:
     1.      Að semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem teljast heimil skv. 5. og 6. gr. laga um mannanöfn og er hún nefnd mannanafnaskrá.
     2.      Að vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Þjóðskrá, dómsmálaráðherra og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn samkvæmt lögum um mannanöfn.
     3.      Að skera úr öðrum álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira þess háttar.
    Úrskurðum mannanafnanefndar er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds.
    Með því að mannanafnanefnd verði lögð niður hættir hið opinbera að gefa út samræmda skrá um þau nöfn sem unnt er að gefa einstaklingum hér á landi. Áfram verði í gildi meginreglur um fullt nafn, eiginnöfn, millinöfn, kenninöfn og nafngjöf, svo og reglur um nafnrétt manna af erlendum uppruna, nafnbreytingar og skráningu og notkun nafns.