Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 47. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 366 —  47. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2006.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar gerir 91 breytingartillögu við frumvarpið sem samtals nema 4.888,9 m.kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.
    Þá gerir 1. minni hluti breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta, en endurskoðuð tekjuáætlun gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 4.209,0 m.kr. frá áætlun í frumvarpinu.
    Það er álit nefndarinnar að skoða þurfi sérstaklega heilbrigðismál á milli 2. og 3. umræðu fjáraukalaga. Nefndin hefur kallað eftir upplýsingum um stöðu heilbrigðis-, hjúkrunar- og öldrunarstofnana. Nauðsynlegt er að fara heildstætt yfir stöðu viðkomandi stofnana áður en kemur að 3. umræðu.
    Þá var einnig ákveðið að fresta afgreiðslu heimildagreina sem falla undir 4. gr. fjáraukalagafrumvarpsins, eða 6. gr. fjárlaga 2006, og fara betur yfir þær heimildir í samvinnu við fjármálaráðuneyti.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 743,9 m.kr.
202     Tilraunastöð Háskólans að Keldum.
        1.01
Tilraunastöð Háskólans að Keldum. Lagt er til að 87,2 m.kr. framlag sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu verði millifært af þessu viðfangsefni yfir á 02-269-6.02 Tilraunastöð Háskólans að Keldum, en þetta er stofnkostnaðarframlag sem fært hafði verið á almennan rekstur Keldna en á betur heima undir liðnum Háskóla- og vísindastofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
234     Ritlauna- og rannsóknasjóður prófessora.
        1.11
Ritlauna- og rannsóknasjóður prófessora. Við úthlutun úr Ritlauna- og rannsóknasjóði prófessora á árinu 2006 var ekki tekið tillit til launatengdra gjalda, en samkvæmt hæstaréttardómi er ekki heimilt að draga launatengd gjöld frá styrkfjárhæðum úr sjóðnum. Kjararáð túlkar dóminn með þeim hætti að úthluta beri heildarframlagi til sjóðsins í formi styrkja. Háskólarnir greiða starfsmönnum samkvæmt úthlutunum kjararáðs en bera auk þess kostnað vegna launatengdra gjalda. Fjárveitingar sjóðsins eru millifærðar á einstaka háskóla í samræmi við úthlutanir kjararáðs. Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar hefur ekki verið haldið eftir kostnaði vegna launatengdra gjalda við úthlutun úr sjóðnum og því er lagt til að sjóðurinn fái 24 m.kr. aukafjárveitingu sem er áætlaður kostnaður vegna þessa.
269     Háskóla- og vísindastofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
        6.02
Tilraunastöð Háskólans að Keldum. Lagt er til að 87,2 m.kr. framlag verði millifært af viðfangsefninu 02-202-1.01 Tilraunastöð Háskólans að Keldum yfir á þennan lið en eins og áður segir er þetta stofnkostnaðarframlag sem fært hafði verið á almennan rekstur Keldna en á betur heima hér.
319     Framhaldsskólar, almennt.
        1.90
Framhaldsskólar, óskipt. Gerð er tillaga um 10 m.kr. framlag til reksturs Kvikmyndaskóla Íslands.
902     Þjóðminjasafn Íslands.
        1.10
Byggða- og minjasöfn. Gerð er tillaga um 5 m.kr. styrk til Kolkuóss til uppbyggingar og varðveislu á menningarverðmætum á staðnum.
971     Ríkisútvarpið.
        1.10
Ríkisútvarpið, afnotagjöld. Lagt er til að gjaldfærðar verði 625 m.kr. til að létta skuldbindingum af Ríkisútvarpinu. Um er að ræða skuldir Ríkisútvarpsins við ríkissjóð og er markmiðið með aðgerðinni að eiginfjárhutfall í nýju hlutafélagi nái 15%.
982     Listir, framlög.
        1.90
Listir. Gerð er tillaga um að veita Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar 2,5 m.kr. styrk til listdanskennslu.
988     Æskulýðsmál.
        1.12 Ungmennafélag Íslands. Gerð er tillaga um 10 m.kr. framlag til ungmenna- og tómstundabúða að Laugum í Dalasýslu þar sem tekjuliðir hafa brugðist.
999     Ýmislegt.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 2,4 m.kr. framlag fyrir verkefnið Vestnordens historie, sem felst í því að rita og gefa út sameiginlega sögu vestnorræna svæðisins, þ.e. Íslands, Færeyja og Grænlands.
         1.98 Ýmis framlög menntamálaráðuneytis. Gerð er tillaga um 50 m.kr. framlag til að minnast 200 ára afmælis þjóðskáldsins og fræðimannsins Jónasar Hallgrímssonar. Í hugmyndum nefndar, sem skipuð var af þessu tilefni, er m.a. að finna tillögur um gerð sýningar sem yrði sett upp í Amtbókasafninu á Akureyri, á Bryggjunni í Kaupmannahöfn og í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík. Einnig má nefna tillögur um hátíðarsamkomu í Þjóðleikhúsinu 16. nóvember 2007, um að styrkja ráðstefnuhald í Háskóla Íslands af þessu tilefni, efna til ritgerðasamkeppni í skólum um Jónas Hallgrímsson, styrkja hátíðarhöld í Danmörku til kynningar á Jónasi, sem og að styrkja hátíðarhöld í heimasveit Jónasar, Eyjafirði. Þessar og fleiri hugmyndir um verkefni munu tryggja góða kynningu á þjóðskáldinu og fræðimanninum.
        6.90
Ýmis stofnkostnaðarframlög. Gerð er tillaga um að veita Þingeyjarsveit 15 m.kr. styrk vegna framkvæmda í tengslum við unglingalandsmót sem haldið var sl. sumar að Laugum í Reykjadal.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 100 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmis verkefni. Lagt er til að 42 m.kr. framlag til öryggisgæslu á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll í frumvarpinu á þessu viðfangsefni verði flutt á nýjan lið fyrir þau verkefni, 03-215-1.01 Rekstur fyrrum varnarsvæða við Keflavíkurflugvöll. Fyrirhugað er að sá liður verði jafnframt notaður fyrir fjárveitingar til þessara verkefna í fjárlögum fyrir árið 2007.
215     Rekstur fyrrum varnarsvæða við Keflavíkurflugvöll.
        1.01
Rekstur fyrrum varnarsvæða við Keflavíkurflugvöll. Gerð er tillaga um 100 m.kr. framlag til umsjónar með varnarsvæðinu. Fjárheimildinni er einkum ætlað að standa undir umsjón með húsnæði á svæðinu, þ.m.t. hita, rafmagni, gæslu og viðhaldi.
                  Jafnframt er gerð tillaga um að 42 m.kr. framlag til öryggisgæslu á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll í frumvarpinu á viðfangsefninu 03-190-1.90 Ýmis verkefni verði flutt á þennan nýja lið fyrir þau verkefni. Fyrirhugað er að liðurinn verði jafnframt notaður fyrir fjárveitingar til þessara verkefna í fjárlögum fyrir árið 2007.
390     Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
        1.11
Þróunaraðstoð. Lagt er til að 200 m.kr. fjárheimild verði millifærð af þessu viðfangsefni yfir á 03-391-1.90 Þróunarmál og hjálparstarfsemi, óskipt. Um er að ræða breytta forgangsröðun á framlögum til þróunarmála milli tvíhliða verkefna og fjölþjóðlegra verkefna. Áformað er að ráðstafa fénu til skólamáltíðarverkefnis á vegum Sameinuðu þjóðanna.
391     Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi.
        1.90
Þróunarmál og hjálparstarfsemi, óskipt. Lagt er til að 200 m.kr. fjárheimild verði millifærð á þennan lið af viðfangsefninu 03-390-1.11 Þróunarsamvinnustofnun Íslands, þróunaraðstoð eins og þar greinir.

04 Landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 222,8 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.98
Ýmis framlög landbúnaðarráðuneytis. Gerð er tillaga um þrjár breytingar á þessum lið sem nema alls 322,5 m.kr. til lækkunar. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 5 m.kr. framlag vegna Nytjalands, gagnagrunns um jarðir á Íslandi, svo að ljúka megi úrvinnslu, yfirferð og frágangi gagna fyrir innfærslu þeirra í Landskrá fasteigna.
                  Þá er lögð til 2,5 m.kr. fjárveiting til ritunar íslenskrar landbúnaðarsögu. Áætlað er að ritið verði gefið út á árinu 2008.
                  Loks er gerð tillaga um millifærslu á 330 m.kr. fjárveitingu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu til að styrkja byggingu reiðhalla, reiðskemma og reiðskála á þessu viðfangsefni. Lagt er til að fjárveitingin verði millifærð á viðfangsefni fyrir stofnkostnað á lið fyrir sérstakar greiðslur í landbúnaði, 04-891-6.92, þar sem sú framsetning samræmist betur tilgangi fjárveitingarinnar.
221     Veiðimálastofnun.
        1.01
Veiðimálastofnun. Gerð er tillaga um 60 m.kr. fjárveitingu vegna uppsafnaðs rekstrarhalla stofnunarinnar. Á undanförnum árum hafa sértekjur Veiðimálastofnunar dregist verulega saman og er það meginskýring rekstrarvandans. Landsvirkjun hefur á undanförnum árum greitt fyrir rannsóknarverkefni í ám og vötnum en verulega hefur dregið úr þeim greiðslum og eins hefur Fiskræktarsjóður ekki getað styrkt rannsóknastarfsemi stofnunarinnar í sama mæli og áður.
234
     Landbúnaðarstofnun.
        1.01
Landbúnaðarstofnun. Lögð er til 98 m.kr. fjárveiting til að jafna tap sem stofnanir þær sem í upphafi árs sameinuðust í Landbúnaðarstofnun fluttu með sér inn í hina nýju stofnun, þ.e. 81 m.kr. halla hjá yfirdýralækni, 12 m.kr. halla hjá aðfangaeftirlitinu, 4 m.kr. halla hjá yfirkjötmati og 1 m.kr. halla hjá veiðimálastjóra.
811     Bændasamtök Íslands.
        1.11
Ráðgjafaþjónusta og búfjárrækt. Lögð er til 21,4 m.kr. hækkun á framlagi til Bændasamtaka Íslands. Annars vegar er um að ræða 13,8 m.kr. í samræmi við niðurstöður reiknilíkans með endurmetnum verðlagsforsendum búnaðarlagasamnings fyrir árið 2006, og hins vegar 7,6 m.kr. vegna uppgjörs lífeyrisskuldbindinga á árinu, þar af 3 m.kr. vegna greiðslna Bændasamtaka Íslands og 4,6 m.kr. vegna hlutdeildar ríkissjóðs í greiðslum búnaðarsambanda.
821     Framleiðnisjóður landbúnaðarins.
        1.01
Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Lögð er til 41,9 m.kr. hækkun á fjárheimild sjóðsins án greiðslu úr ríkissjóði. Þegar sjóðurinn var færður úr C-hluta í A-hluta á árinu 2005 tók hann með sér 41,9 m.kr. jákvæðan höfuðstól inn í A-hlutann. Til að fjárheimildastaða sjóðsins verði jöfn höfuðstól þarf því að hækka hana um 41,9 m.kr. Þessi hækkun fjárheimildar er einungis tæknilegs eðlis og miðar að því að hún verði jöfn höfuðstólsstöðu sjóðsins. Ekki er gert ráð fyrir greiðslu úr ríkissjóði vegna þessarar heimildar því sjóðurinn hefur nú þegar yfir fénu að ráða.
891     Sérstakar greiðslur í landbúnaði.
        6.92
Bygging reiðhalla, reiðskemma og reiðskála. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 330 m.kr. fjárveitingu til að styrkja byggingu reiðhalla, reiðskemma og reiðskála á viðfangsefninu 04-190-1.98 Ýmis framlög landbúnaðarráðuneytis. Lagt er til að fjárveitingin verði millifærð á þennan stofnkostnaðarlið þar sem sú framsetning samræmist betur tilgangi fjárveitingarinnar.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 108,5 m.kr.
202     Hafrannsóknastofnunin.
        1.01
Hafrannsóknastofnunin. Lögð er til 108,5 m.kr. hækkun á fjárheimild stofnunarinnar án greiðslu úr ríkissjóði. Í kjölfar þess að stofnunin þurfti að afskrifa 80% af hlutafjáreign sinni í Fiskeldi Eyjafjarðar hf. og alla hlutafjáreign í Máka hf. og Sæbýli hf. á árinu 2005 var ákveðið að lækka stöðu endurmatsreiknings niður í bókfært verð hlutafjáreignar með millifærslu yfir á höfuðstól. Þessi hækkun fjárheimildar er einungis tæknilegs eðlis og miðar að því að fjárheimildastaða stofnunarinnar verði jöfn höfuðstólsstöðu hennar.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 114,5 m.kr.
101     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að veitt verði 2,7 m.kr. fjárheimild til að fjölga starfsmönnum um einn frá 1. desember og vegna ferðakostnaðar á þessu ári. Við brottför varnarliðsins taka íslensk stjórnvöld við nýjum verkefnum. Nauðsynlegt er að bæta við starfsmanni á aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytisins sem hefur sérþekkingu á sviði varnar- og öryggismála. Á þessu ári hefur jafnframt fallið til nokkur kostnaður vegna viðræðna við Bandaríkin um varnarmál og er það aðallega ferðakostnaður.
106     Þjóðskrá.
        1.01
Þjóðskrá. Lögð er til 71,8 m.kr. hækkun fjárheimildar og er hún af tvennum toga. Annars vegar er lagt til að 64,8 m.kr. fjárheimild verði millifærð frá Hagstofu Íslands vegna flutnings Þjóðskrár til dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 1. júlí samkvæmt lögum sem sett voru fyrr á þessu ári. Fjárheimildin svarar til útgjalda í hálft ár samkvæmt áætlun fjárlaga. Áætlað er að ríkistekjur Þjóðskrárinnar til að fjármagna útgjöldin verði 15,9 m.kr. en heildartekjur ársins voru áætlaðar 80,2 m.kr. og höfðu 64,2 m.kr. af því þegar verið færðar til tekna fyrir 1. júlí. Til að fjármagna útgjöldin á árinu að fullu er því einnig gert ráð fyrir 48,9 m.kr. beinu framlagi úr ríkissjóði.
                  Hins vegar er gert ráð fyrir að fjárheimild Þjóðskrár hækki um 7 m.kr. en að ríkistekjur sem renna til starfseminnar hækki jafnmikið þannig að greiðsla úr ríkissjóði verði óbreytt. Hækkun útgjalda byggist á mati á kostnaði við rekstur Þjóðskrár sem áður var fært til gjalda í almennum rekstri Hagstofu Íslands en ekki á viðfangsefni Þjóðskrár. Rauntekjur á árinu 2005 gefa til kynna svigrúm til hækkunar tekna miðað við áætlun fjárlaga ársins 2006. Samsvarandi tillaga er gerð í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007.
        6.01
Tæki og búnaður. Lagt er til að veitt verði 40 m.kr. viðbótarframlag til Þjóðskrár. Annars vegar er 25 m.kr. fjárveiting vegna gerðar nýs tölvukerfis Þjóðskrár en núverandi kerfi er meira en tuttugu ára gamalt og ófullnægjandi. Í núverandi tölvukerfi eru t.d. ekki möguleikar á að skrá forsjá barna, breytingar forsjár vegna ættleiðinga eða fóstursamninga og eru slík gögn því einungis varðveitt á pappír. Jafnframt þarf að gera ráð fyrir möguleika á að skrá nöfn ásamt stafabilum sem eru lengri en 31 stafur og huga þarf að nútímalegri tilhögun við dreifingu þjóðskrár til stjórnvalda og almennra viðskiptavina.
                  Hins vegar er lagt til að veitt verði 15 m.kr. framlag vegna öryggismála, m.a. til að tryggja megi örugga varðveislu helstu grunngagna Þjóðskrár. Jafnframt er nauðsynlegt að bæta almennar brunavarnir í núverandi húsnæði Þjóðskrár, t.d. hvað varðar sérstök brunahólf.
426     Sýslumaðurinn á Seyðisfirði.
        1.40
Tollgæsla. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 23 m.kr. fjárveitingu til kaupa á tækjum til tolleftirlits á þessu viðfangsefni. Lagt er til að fjárveitingin verði millifærð á sameiginlegan safnlið fyrir stofnkostnað sýslumanna þar sem sú framsetning samræmist betur tilgangi fjárveitingarinnar.
491     Húsnæði og búnaður sýslumanna.
        6.01
Tæki og búnaður. Framangreind 23 m.kr. fjárveiting til kaupa á tækjum til tolleftirlits á viðfangsefninu 06-426-1.40 er millifærð á þennan sameiginlegan safnlið fyrir stofnkostnað sýslumanna þar sem sú framsetning samræmist betur tilgangi fjárveitingarinnar.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 136,4 m.kr.
331     Vinnueftirlit ríkisins.
        1.01
Vinnueftirlit ríkisins. Lögð er til samtals 30 m.kr. hækkun fjárveitingar. Þar af eru 20 m.kr. vegna þess að við fjárlagagerð ársins 2006 voru ríkistekjur hækkaðar án þess að taka tillit til þess kostnaðar sem fellur til við öflun þeirra, en 10 m.kr. eru vegna uppsafnaðs halla á árinu.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.10
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, lögbundin framlög. Gert er ráð fyrir að fjárheimild liðarins hækki um 66 m.kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðin framlög í sjóðinn árið 2006, en framlögin taka mið af skatttekjum ríkissjóðs og útsvarsstofni. Áætlunin miðast við að innheimtar skatttekjur ríkissjóðs verði 342.209 m.kr. á þessu ári.
980     Vinnumálastofnun.
        1.01
Vinnumálastofnun. Gerð er tillaga um 11 m.kr. fjárheimild til að mæta auknum kostnaði stofnunarinnar við framkvæmd laga um starfsmannaleigur sem tóku gildi 1. janúar 2006.
989     Fæðingarorlof.
        1.01
Umsýslukostnaður Tryggingastofnunar ríkisins. Gerð er tillaga um 18,5 m.kr. til viðbótar því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu til undirbúnings á yfirtöku Vinnumálastofnunar á starfsemi Fæðingarorlofssjóðs. Stofnunin mun taka yfir umsýslu sjóðsins 1. janúar á næsta ári og verður starfsemin flutt á Hvammstanga. Hanna þarf nýjan hugbúnað, kaupa búnað og tæki og ráða starfsfólk og þjálfa.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.41
Stígamót. Lögð er til 1,9 m.kr. fjárveiting vegna hallareksturs sem stefnir í hjá Stígamótum á yfirstandandi ári.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 5 m.kr. til Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga vegna starfsendurhæfingarverkefnis á Húsavík.
                  Lagt er til að veita Foreldra- og styrktarfélagi Öskjuhlíðarskóla 4 m.kr. styrk vegna reksturs sumardvalar fyrir nemendur skólans.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 1.938,4 m.kr.
206     Sjúkratryggingar.
        1.11
Lækniskostnaður. Gerð er tillaga um 68 m.kr. viðbótarfjárveitingu til kaupa á læknisverkum (einingum) hjá sérgreinalæknum vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu ákveðinna sérgreina. Gera má ráð fyrir að þörfin nemi samtals 88 m.kr. en á móti komi 20 m.kr. svigrúm á öðrum útgjaldaliðum viðfangsefnisins. Jafnframt er unnið að endurskoðun reglugerðar nr. 471/2001 og gjaldskrár augnlækna til að auka gagnsæi í notkun taxta og stemma stigu við auknum útgjöldum. Þá er einnig sýnt að eftirspurn eftir rannsóknar- og röntgenþjónustu stefnir í um 7% umfram heimildir ársins 2006.
358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri.
        1.01
Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Lagt er til að veita 100 m.kr. framlag til greiðslu uppsafnaðs rekstrarhalla sjúkrahússins en höfuðstóll þess var neikvæður um 36 m.kr. árið 2005 samkvæmt ársreikningi. Þá gerir útkomuspá spítalans ráð fyrir nokkrum halla á yfirstandandi ári.
        6.01 Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 20 m.kr. aukafjárveitingu til endurnýjunar á stofnbúnaði sjúkrahússins.
373     Landspítali – háskólasjúkrahús.
        1.01
Landspítali – háskólasjúkrahús. Lagt er til að veitt verði 1.000 m.kr. framlag til greiðslu uppsafnaðs rekstrarhalla sjúkrahússins en höfuðstóll þess var neikvæður um 487 m.kr. árið 2005 samkvæmt ársreikningi. Þá gerir útkomuspá spítalans ráð fyrir verulegum rekstrarhalla á yfirstandandi ári sem framlaginu er ætlað að mæta.
386     Vistun ósakhæfra afbrotamanna.
        1.10
Vistun ósakhæfra afbrotamanna. Lagt er til 17 m.kr. framlag til að mæta uppsöfnuðum halla réttargeðdeildarinnar að Sogni sem kemur til af því að fleiri einstaklingar eru vistaðir á stofnuninni en upphaflega var gert ráð fyrir. Þá hefur lögboðið eftirlit með útskrifuðum einstaklingum aukist umfram það sem áætlað var.
401     Öldrunarstofnanir, almennt.
        1.01
Hjúkrunarheimili, almennt. Gerð er tillaga um að ráðstafa allt að 500 m.kr. af ónotuðum fjárheimildum öldrunarstofnana til að koma til móts við rekstrarhalla öldrunarheimila á árunum 2005 og útkomuspá ársins 2006. Gert er ráð fyrir að áformaðri hækkun daggjalda hjúkrunarrýma á dvalar- og hjúkrunarheimilum 1. janúar nk. verði flýtt og taki gildi síðari hluta árs 2006. Lagt er til að þeim 500 m.kr. sem færðar verða af liðnum í þessu skyni verði skipt á milli stofnana á grundvelli reiknilíkans sem hér segir:

            401     Öldrunarstofnanir, almennt.
                        1.09
Ný hjúkrunarrými.          5,3 m.kr.
                        1.13 Óskipt framlag til minni öldrunarstofnana.          11,3 m.kr.
              405     Hrafnista, Reykjavík.
                        1.01
Hjúkrunarrými.          62,5 m.kr.
              406     Hrafnista, Hafnarfirði.
                        1.01
Hjúkrunarrými.          38,1 m.kr.
             407
     Grund, Reykjavík.
                        1.01
Hjúkrunarrými.          47,5 m.kr.
              408
     Sunnuhlíð, Kópavogi.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          18,3 m.kr.
              409
     Hjúkrunarheimilið Skjól.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          27,9 m.kr.
              410
     Hjúkrunarheimilið Eir.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          44,0 m.kr.
              411
     Garðvangur, Garði.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          10,7 m.kr.
              412
     Hjúkrunarheimilið Skógarbær.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          18,1 m.kr.
              413
     Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          21,3 m.kr.
              414
     Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          6,3 m.kr.
               415    Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          4,1 m.kr.
              416
     Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          5,0 m.kr.
              417
     Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          3,2 m.kr.
              418     Seljahlíð, Reykjavík.
                     1.01
Hjúkrunarrými.          7,1 m.kr.
              419
     Sólvangur, Hafnarfirði.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          21,7 m.kr.
              421
     Víðines.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          9,1 m.kr.
              423
     Höfði, Akranesi.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          10,0 m.kr.
              424
     Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi.
                       1.01
Hjúkrunarrými.          4,9 m.kr.
              425
     Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          2,4 m.kr.
              426
     Fellaskjól, Grundarfirði.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          2,4 m.kr.
              427
     Jaðar, Ólafsvík.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          2,4 m.kr.
              428
     Fellsendi, Búðardal.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          6,6 m.kr.
              429
     Barmahlíð, Reykhólum.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          3,1 m.kr.
              433
     Dalbær, Dalvík.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          5,9 m.kr.
              434
     Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          37,7 m.kr.
              436
     Uppsalir, Fáskrúðsfirði.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          3,2 m.kr.
              437
     Samningur við Sveitarfélagið Hornafjörð
                        um öldrunarþjónustu.

                       1.01
Hjúkrunarrými.          6,4 m.kr.
              438
     Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri.
                      1.01
Hjúkrunarrými.          4,2 m.kr.
              439
     Hjallatún, Vík.
                       1.01
Hjúkrunarrými.          2,8 m.kr.
              440
     Kumbaravogur, Stokkseyri.
                       1.01
Hjúkrunarrými.          10,4 m.kr.
              441
     Ás/Ásbyrgi, Hveragerði.
                       1.01
Hjúkrunarrými.          6,4 m.kr.
              442
     Hraunbúðir, Vestmannaeyjum.
                       1.01
Hjúkrunarrými.          7,0 m.kr.
              443
     Holtsbúð, Garðabæ.
                       1.01
Hjúkrunarrými.          9,7 m.kr.
              444
     Vífilsstaðir, Garðabæ.
                       1.01
Hjúkrunarrými.          12,8 m.kr.

500
     Heilsugæslustöðvar, almennt.
        1.10
Heilsugæslustöðvar, almennt. Lögð er til 7 m.kr. fjárveiting vegna ráðgjafarvinnu við flutning á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í nýtt húsnæði í Mjódd í Reykjavík.
        6.01
Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 41,5 m.kr. framlag til kaupa á búnaði vegna flutnings Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis í Mjódd.
501     Sjúkraflutningar.
        1.15
Sjúkraflug. Lagt er til að veittar verði 4 m.kr. til að mæta kostnaði við staðsetningu sjúkraflugvélar á Ísafirði í vetur. Þar sem framkvæmdum á Þingeyrarflugvelli hvað varðar aðflugsbúnað er ekki að fullu lokið hefur verið ákveðið að hafa flugvakt á Ísafirði í vetur.
506     Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu.
        1.01
Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu. Gerð er tillaga um 45 m.kr. fjárveitingu til að mæta kostnaði við flutning Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Mjódd.
700     Heilbrigðisstofnanir.
        6.99
Bygging heilbrigðisstofnana, óskipt. Gerð er tillaga um 107,4 m.kr. til að mæta kostnaði við framkvæmdir nokkurra heilbrigðisstofnana í kjölfar gerðardóms sem var skipaður til að kveða upp úrskurð um ágreining sem upp hafði komið milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ágreiningurinn stóð um túlkun á 3. mgr. 34. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, um skiptingu á stofnkostnaði, meiri háttar viðhaldi á svæðis-, deildar- og almennum sjúkrahúsum vegna hjúkrunarrýma. Í dómsorðum segir að með breytingu sem gerð var með 11. gr. laga nr. 78/2003 á 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu hafi sveitarfélögin að fullu verið losuð undan skyldum til að greiða hlutdeild í þeim kostnaði.
721     Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði.
        1.11
Sjúkrasvið. Lagt er til að 2 m.kr. verði veittar til stofnunarinnar vegna uppsafnaðs rekstrarhalla þar sem rekstur stofnunarinnar er nú í jafnvægi innan ársins.
735     Heilbrigðisstofnunin Hólmavík.
        1.11
Sjúkrasvið. Lögð er til 16,3 m.kr. fjárveiting til stofnunarinnar í samræmi við niðurstöður reiknilíkans en fjárveitingar til heilbrigðisstofnana verða reiknaðar eftir því líkani frá og með næsta ári. Í einstaka tilvikum þar sem umtalsverður munur er á fjárheimildum og niðurstöðu reiknilíkans er lagt til að niðurstöður þess verði látnar ná til nokkurra fyrri ára til að auðvelda stofnunum að laga rekstur sinn að því.
777     Heilbrigðisstofnun Austurlands.
        1.11
Sjúkrasvið. Lögð er til 93,6 m.kr. fjárveiting til stofnunarinnar í samræmi við niðurstöður reiknilíkans en fjárveitingar til heilbrigðisstofnana verða reiknaðar eftir því líkani frá og með næsta ári. Í einstaka tilvikum þar sem umtalsverður munur er á fjárheimildum og niðurstöðu reiknilíkans er lagt til að niðurstöður þess verði látnar ná til nokkurra fyrri ára til að auðvelda stofnunum að laga rekstur sinn að því.
781     Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum.
        1.11
Sjúkrasvið. Lagt er til að 23 m.kr. framlag verði veitt til stofnunarinnar vegna uppsafnaðs rekstrarhalla þar sem rekstur stofnunarinnar er nú í jafnvægi innan ársins.
787     Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
        1.01
Heilsugæslusvið. Gerð er tillaga um 8,7 m.kr. viðbótarfjárveitingu til að mæta hækkun launakostnaðar við sjúkraflutninga. Frá og með síðustu áramótum rann út samningur við sýslumanninn í Árnessýslu um framkvæmd verkefnisins og færðist það þá til heilbrigðisstofnunarinnar. Sjúkraflutningamenn réðust til stofnunarinnar sem fastir starfsmenn á launakjörum samkvæmt kjarasamningi launanefndar ríkisins við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
        1.11
Sjúkrasvið. Lögð er til 144,7 m.kr. fjárveiting til stofnunarinnar í samræmi við niðurstöður reiknilíkans en fjárveitingar til heilbrigðisstofnana verða reiknaðar eftir því líkani frá og með næsta ári. Í einstaka tilvikum þar sem umtalsverður munur er á fjárheimildum og niðurstöðu reiknilíkans er lagt til að niðurstöður þess verði látnar ná til nokkurra fyrri ára til að auðvelda stofnunum að laga rekstur sinn að því.
791     Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum.
        1.11
Sjúkrasvið. Lögð er til 167,2 m.kr. fjárveiting til stofnunarinnar í samræmi við niðurstöður reiknilíkans en fjárveitingar til heilbrigðisstofnana verða reiknaðar eftir því líkani frá og með næsta ári. Í einstaka tilvikum þar sem umtalsverður munur er á fjárheimildum og niðurstöðu reiknilíkans er lagt til að niðurstöður þess verði látnar ná til nokkurra fyrri ára til að auðvelda stofnunum að laga rekstur sinn að því.
795     St. Jósefsspítali, Hafnarfirði.
        1.11
St. Jósefsspítali, Hafnarfirði. Lögð er til 73,2 m.kr. fjárveiting til stofnunarinnar í samræmi við niðurstöður reiknilíkans en fjárveitingar til heilbrigðisstofnana verða reiknaðar eftir því líkani frá og með næsta ári. Í einstaka tilvikum þar sem umtalsverður munur er á fjárheimildum og niðurstöðu reiknilíkans er lagt til að niðurstöður þess verði látnar ná til nokkurra fyrri ára til að auðvelda stofnunum að laga rekstur sinn að því.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 1.144,2 m.kr.
262     Tollstjórinn í Reykjavík.
        6.01
Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 120 m.kr. framlag til kaupa á gegnumlýsingarbúnaði. Unnið hefur verið að því um nokkurt skeið að kanna grundvöll fyrir því að kaupa gegnumlýsingarbifreið til notkunar við gegnumlýsingu á gámum og stærri einingum við tolleftirlit. Áherslur í tollgæslu hafa breyst þannig að aukin áhersla er á að efla eftirlit með þjóðaröryggi og innflutningi fíkniefna fremur en á tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Auk þess hefur alþjóðasamfélagið gert þær kröfur til tollyfirvalda að þau hafi eftirlit með útflutningi sem lið í baráttunni gegn hryðjuverkum. Íslensk stjórnvöld hafa gefið út viljayfirlýsingu til Alþjóðatollastofnunarinnar um að styðja og innleiða reglur til að vernda og auðvelda alþjóðleg viðskipti en í því felst m.a. að tollyfirvöld hafi yfir að ráða og noti gegnumlýsingartæki og geislamæla til tolleftirlits í tengslum við áhættugreiningu án þess að opna þurfi umbúðir, m.a. gáma. Það tæki sem fyrirhugað er að kaupa getur skoðað sendingar í gámum og er á hjólum þannig að hægt yrði að færa það á milli staða.
721     Fjármagnstekjuskattur.
        1.11
Fjármagnstekjuskattur. Lagt er til að fjárheimild vegna fjármagnstekjuskatts af fengnum arði og vaxatekjum sem gjaldfærður er hjá ríkinu hækki um 783 m.kr. Stærsti hluti hækkunarinnar skýrist af vaxtatekjum af innstæðu ríkissjóðs í Seðlabankanum sem hefur aukist mikið vegna tekjuafgangs í ríkisrekstrinum og söluandvirðis Landssímans. Skatturinn færist einnig sem tekjur hjá ríkissjóði og hefur því ekki áhrif á afkomu ársins.
821     Vaxtabætur.
        1.11
Vaxtabætur. Lagt er til að fjárheimild til greiðslu vaxtabóta verði aukin um 200 m.kr. Til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í júní á þessu ári lýsti ríkisstjórnin yfir að gerðar yrðu breytingar á ákvæðum laga um vaxtabætur vegna húsnæðislána ef í ljós kæmi við niðurstöðu skattálagningar á árinu að hækkun fasteignaverðs á síðasta ári hefði leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum. Eftir að skattálagning hafði verið yfirfarin var lagt fram á Alþingi lagafrumvarp þar sem lagt er til að eignaviðmiðunarmörk til skerðingar á vaxtabótum verði hækkuð um 25% en það svarar til hækkunar fasteignamatsins að meðaltali á landsvísu. Áætlað er að sú breyting hafi í för með sér að vaxtabætur vegna húsnæðislána verði um 200 m.kr. meiri en áformað var í fjárlögum.
989     Launa- og verðlagsmál.
        1.90
Launa- og verðlagsmál. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárheimildir ýmissa fjárlagaliða hækki vegna endurmats á gengisforsendum fjárlaga 2006. Lagt er til að sú fjárheimild hækki um 41,2 m.kr. og verði 1.360,5 m.kr. Fjárhæðin í frumvarpinu byggðist á útreikningi sem gerður var miðað við gengisþróun krónunnar fram til loka ágúst en sá útreikningur hefur nú verið endurskoðaður m.a. í ljósi gengisþróunarinnar til loka október. Skipting á einstök viðfangsefni er sýnd í sérstöku yfirliti með breytingartillögum 1. minni hluta og munu breytingarnar koma fram í viðkomandi fjárveitingum í stöðuskjali frumvarpsins eftir 2. umræðu þess.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 64 m.kr.
472     Framkvæmdir Flugmálastjórnar.
        6.41
Framkvæmdir. Samtals er lögð til 64 m.kr. hækkun á liðnum. Í frumvarpinu er lagt til 80 m.kr. framlag til stækkunar flugstöðvarinnar á Egilsstöðum. Ný kostnaðaráætlun hefur nú leitt í ljós að kostnaður hefur verið vanmetinn og að hann verði 111 m.kr. Því er hér lagt til að tillagan í frumvarpinu verði hækkuð um 31 m.kr. Svo sem segir í frumvarpinu er gert ráð fyrir að umrædd framkvæmd verði fjármögnuð með því að ráðstafa fyrir fram mörkuðum tekjum flugmálaáætlunar og verður þeim skilað í ríkissjóð síðar þegar framkvæmdir við flugvelli verða ákveðnar í ljósi endurskoðaðra áætlana um tekjuáætlun.
                  Jafnframt er lagt til að veita 15 m.kr. framlag til að unnt verði að uppfylla kröfur um flugvernd meðan á stækkun flugstöðvarinnar á Egilsstöðum stendur. Nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til að bæta aðstöðu til aðskilnaðar innanlands- og millilandafarþega. Þótt þessar ráðstafanir séu einkum til þess að ná fram endurbótum til skamms tíma munu þær að mestu leyti nýtast til frambúðar. Gert er ráð fyrir að verkefni þetta verði fjármagnað með tekjum flugmálaáætlunar.
                  Loks er gerð tillaga um 18 m.kr. framlag til nauðsynlegra aðgerða í því skyni að lækka aðflugslágmörk blindaðflugs á Akureyrarflugvelli. Í desember 2005 var gerð endurúttekt á aðflugshönnun blindaðflugs flugvallarins. Úttektin leiddi í ljós að hækka þurfti aðflugslágmörk til vallarins. Þetta hefur valdið röskun á flugi til Akureyrar og nauðsynlegt er að lækka þessi mörk m.a. með þéttingu aðflugsljósanna til að draga úr þessari röskun. Gert er ráð fyrir að verkefni þetta verði fjármagnað með tekjum flugmálaáætlunar.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 31 m.kr.
299     Iðja og iðnaður, framlög.
        1.50
Nýsköpun og markaðsmál. Gerð er tillaga um 1 m.kr. framlag til Árneshrepps á Ströndum til leiðréttingar á greiddum fjárveitingum á yfirstandandi ári, sbr. þingsályktun um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi sem samþykkt var á Alþingi 15. mars 2003.
301     Orkustofnun.
        1.01
Orkustofnun. Lagt er til að veitt verði 30 m.kr. fjárheimild til að unnt verði að flýta 2. áfanga mats og samanburðar á virkjunarkostum. Stefnt hefur verið að því að þessum áfanga ljúki á fyrri hluta árs 2009. Til að svo megi verða þarf undirbúningsvinna og gagnaöflun að mestu að fara fram á árunum 2006 og 2007. Gagnaöflun er kostnaðarsamasti hluti verkefnisins og til að ljúka megi verkefninu á tilsettum tíma þarf að koma til aukafjárveiting á árinu 2006.

13 Hagstofa Ísland

        Lagt er til að fjárheimild Hagstofu Íslands verði lækkuð um 52,8 m.kr.
101     Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa.
        1.01
Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa. Gerð er tillaga um 10 m.kr. fjárveitingu til að bæta Hagstofunni tekjutap sem hún verður fyrir við flutning Þjóðskrár til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, en rekstur hennar hefur skilað Hagstofunni tekjuafgangi sem nýst hefur til annarrar starfsemi Hagstofunnar.
                  Jafnframt er lögð til 2 m.kr. fjárveiting vegna sérfræðivinnu fyrir matvælaverðsnefnd og vinnu við undirbúning að flutningi hagskýrslugerðar um þjónustujöfnuð frá Seðlabanka Íslands til Hagstofunnar.
         1.50 Þjóðskráin. Lagt er til að 64,8 m.kr. fjárheimild verði millifærð frá Hagstofu Íslands vegna flutnings Þjóðskrár til dóms- og kirkjumálaráðuneytis þann 1. júlí sl. samkvæmt lögum sem sett voru fyrr á þessu ári. Fjárheimildin svarar til útgjalda í hálft ár samkvæmt áætlun fjárlaga. Ríkistekjur Þjóðskrárinnar til að fjármagna útgjöldin sem þegar höfðu verið færðar til tekna fyrir 1. júlí námu 64,3 m.kr. en í fjárlögum voru heildartekjur ársins áætlaðar 80,2 m.kr. Fjármögnun útgjaldanna á árinu felur því einnig í sér að gert er ráð fyrir að beint framlag úr ríkissjóði lækki um 48,9 m.kr.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 42 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.61
Úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál. Gerð er tillaga um 16 m.kr. fjárveitingu til nefndarinnar. Annars vegar eru 9 m.kr. til að leysa úr uppsöfnuðum rekstrarvanda og hins vegar 7 m.kr. til að ráða lögfræðing í eitt ár svo að vinna megi á uppsöfnuðum hala óafgreiddra mála sem hefur myndast bæði vegna mikillar fjölgunar innkominna mála og veikinda forstöðumanns nefndarinnar.
211     Umhverfisstofnun.
        1.01
Umhverfisstofnun. Gerð er tillaga um 11 m.kr. fjárveitingu til kaupa og uppsetningar á tveimur mælistöðvum vegna innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins 2004/107/EB um arsen, kadmíum, kvikasilfur, nikkel og fjölhringja arómatísk vetniskolefni í andrúmslofti. Tilskipunin á að vera komin til framkvæmda 15. febrúar 2007.
401     Náttúrufræðistofnun Íslands.
        1.01
Yfirstjórn. Lagt er til að 15 m.kr. verði varið til að styrkja fjárhagsstöðu Náttúrufræðistofnunar en uppsafnaður rekstrarhalli stofnunarinnar í árslok 2005 nam um 30 m.kr.

19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

        Lagt er til að fjárheimild vaxtagjalda ríkissjóðs verði aukin um 290 m.kr.
801     Vaxtagjöld ríkissjóðs.
        1.10
Vaxtagjöld ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að gjaldfærð og greidd vaxtagjöld hækki um 290 m.kr. frá því sem reiknað er með í frumvarpinu. Í byrjun nóvember var ákveðið að heimila Seðlabanka Íslands að ráðast í opinbera skuldabréfaútgáfu til fimm ára fyrir hönd ríkissjóðs á erlendum markaði. Markmið útgáfunnar er að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Mikilvægt þykir að bregðast með þeim hætti við miklum vexti íslenska bankakerfisins á síðustu árum og vaxandi starfsemi þess erlendis samhliða því að stöðutaka erlendra aðila í íslenskum krónum hefur vaxið hratt með útgáfu svonefndra jöklabréfa og annarri stöðutöku með krónunni. Gert er ráð fyrir að vaxta- og gjaldmiðlaáhættu af útgáfunni verði eytt með því að kaupa auðseljanleg skuldabréf í samsvarandi tímalengdum. Áætlun um vaxtagjöldin miðast við þau kjör sem í boði eru fyrir þau skuldabréf sem talin eru vera hagstæðust í þessu skyni og að greiða þurfi af skuldinni í einn mánuð á þessu ári. Ríkissjóður mun á móti hafa vaxtatekjur af eignum í Seðlabankanum en þeir vextir taka mið af skuldabréfasafninu sem fjármunirnir verða bundnir í og er reiknað með að þeir geti orðið heldur lægri en af útgefna skuldabréfinu. Þær tekjur eru áætlaðar um 285 m.kr., eða um 5 m.kr. lægri en vaxtagjöldin, og hefur þessi ráðstöfun því lítil áhrif á afkomu ríkissjóðs á þessu ári en eykur veltuna og hækkar stöðu skulda og eigna.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ 2. OG 3. GR.

    Hækkun á lántökum ríkissjóðs um 113.900 m.kr. skv. a-lið breytingartillögu við 3. gr. á sér tvær skýringar. Annars vegar er lagt til að ríkissjóði verði heimilt að taka að láni allt að 1 milljarði evra, eða sem nemur 87 milljörðum kr. miðað við gengi um þessar mundir. Lánið er tekið í þeim tilgangi að styrkja gjaldeyrisstöðu Seðlabanka Íslands. Mikilvægt þykir að bregðast við þeim mikla vexti sem verið hefur í íslenska bankakerfinu á síðustu árum og vaxandi starfsemi bankanna erlendis samhliða því að erlendir aðilar hafa í auknum mæli gefið út skuldabréf í íslenskum krónum, svonefnd jöklabréf. Gert er ráð fyrir að afla lánsfjárins með skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs til fimm ára og miðast endanleg fjárhæð í íslenskum krónum við gengi á útgáfudegi. Áformað er að vaxta- og gjaldmiðlaáhættu af útgáfunni verði eytt með því að kaupa auðseljanleg skuldabréf í samsvarandi tímalengdum. Enn fremur er gert ráð fyrir að samsvarandi fjárhæð og nemur lántökunni, eða 87 milljarðar kr., komi sem veitt lán ríkissjóðs til Seðlabanka Íslands, sbr. b- og c-lið, undir fjármunahreyfingum í sjóðstreymi skv. 2. gr. fjárlaga. Þegar hefur verið gert ráð fyrir vaxtatekjum og vaxtagjöldum ríkissjóðs vegna lántökunnar og ráðstöfunar fjárins til Seðlabankans á þessu ári.
    Þá er hins vegar í a-lið breytingartillögu við 3. gr. gerð tillaga um heimild fyrir 26,9 milljarða kr. lántöku vegna kaupa ríkissjóðs á eignarhlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Kaupverðið er samtals 30,3 milljarðar kr. og færist í heild undir fjármunahreyfingar í sjóðstreymi ríkissjóðs skv. 2. gr. fjárlaga. Kaupverðið greiðist annars vegar með 26,9 milljarða kr. skuldabréfi til 28 ára sem er með jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti og hins vegar verður það sem á vantar, eða 3,4 milljarðar kr., greitt í reiðufé um áramótin.
    Einnig er gerð tillaga um eiginfjárframlag í nýtt hlutafélag um rekstur TETRA-kerfisins, eða 300 m.kr. Stofnað hefur verið nýtt félag, Öryggisfjarskipti ehf., um fjarskipti á lokuðum rásum fyrir öryggis- og neyðarþjónustu um land allt. Er styrking kerfisins liður í auknum verkefnum stjórnvalda við brotthvarf varnarliðsins og á að gegna lykilhlutverki við leit og björgun. Nauðsynlegt er talið að leggja hinu nýja hlutafélagi til 300 m.kr. eigið fé til að það geti staðið undir þeirri uppbyggingu fjarskipta sem fyrirhuguð er.
    Þá er gert ráð fyrir að auka eiginfjárframlög um 100 m.kr. og nýta þau ásamt afgangsheimildum til Matís ohf. o.fl. Matís ohf. er nýtt hlutafélag um matvælarannsóknir en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvert eigið fé hins nýja félags þarf að vera. Hlutafélagið var stofnað um Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og Rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar sem sameinast í hinu nýja félagi. Unnið er að mati á eignum og skuldum sem tengjast rekstri þeirra stofnana og deilda sem sameinast í félaginu.
    Loks ber að nefna að stofnuð hafa verið tvö ný hlutafélög. Annars vegar er hlutafélag um að leiða þróun og umbreytingu á fyrrum varnarsvæðum við Keflavíkurflugvöll, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf., og hins vegar Eignarhluti ehf., hlutafélag um eignarhald og umsýslu eignarhluta ríkisins í félögum og fyrirtækjum sem félaginu er falið að fara með. Ráðgert er að leggja til félagsins lítinn hlut í Landsvirkjun.
    Í d-lið breytingartillögu við 3. gr. er gerð tillaga um hækkun um 5.000 m.kr. á heimild fyrir ríkisábyrgð á lántökum Landsvirkjunar og er hún vegna uppgjörs á ófyrirséðum kostnaði við aðalverktaka Kárahnjúkavirkjunar.

    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 10. nóv. 2006.



Birkir J. Jónsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Guðjón Ólafur Jónsson.



Bjarni Benediktsson.