Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 357. máls.

Þskj. 388  —  357. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Gjaldskyldum aðilum skv. 3. gr. er heimilt að selja eða afhenda olíu skv. 1. gr. án innheimtu olíugjalds í eftirtöldum tilvikum.
     b.      1. tölul. 1. mgr. orðast svo: til nota á varðskip, kaupskip og önnur skip sem notuð eru í atvinnurekstri og skráð eru 6 metrar eða lengri.
     c.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, 2. tölul., sem orðast svo: til nota á önnur skip og báta en greinir í 1. tölul.
     d.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, 1. málsl., svohljóðandi: Skilyrði sölu eða afhendingar olíu án innheimtu olíugjalds skv. 2.–9. tölul. 1. mgr. er að í olíuna hafi verið bætt litar- og merkiefnum sbr. 5. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað „528/1998“ í 2. málsl. 7. mgr. kemur: 688/2005.
     b.      Lokamálsliður 7. mgr. orðast svo: Heildarþyngd ökutækis með farmi má ekki vera umfram gjaldþyngd þess.

3. gr.

    14. gr. laganna fellur brott og breytast greinatölur samkvæmt því.

4. gr.

    Við 1. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisskattstjóra er heimilt við ákvörðun kílómetragjalds og/eða sérstaks kílómetragjalds að fella gjaldið niður sé það lægra en 200 kr.

5. gr.

    1. mgr. 17. gr. laganna orðast svo:
    Komi í ljós fyrir eða eftir ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds skv. 14. gr. að ökutæki hafi heimildarlaust verið í umferð án þess að vera búið ökumæli, ökumælir hafi verið óvirkur eða talið of lítið eða telji ríkisskattstjóri af öðrum ástæðum að ökumælir sé ekki nægilega örugg heimild um akstur ökutækis skal hann skriflega skora á eiganda eða umráðamann ökutækis að láta í té skýringar og gögn um aksturinn. Fái ríkisskattstjóri innan tiltekins tíma fullnægjandi skýringar og gögn ákvarðar hann eða endurákvarðar gjald að þeim skýringum og gögnum virtum, að öðrum kosti skal ríkisskattstjóri ákvarða eða endurákvarða gjald skv. 2. mgr. Áður en ríkisskattstjóri hrindir endurákvörðun í framkvæmd skal hann skriflega gera eiganda eða umráðamanni viðvart um fyrirhugaða endurákvörðun og forsendur hennar. Skal eiganda eða umráðamanni veittur a.m.k. 15 daga frestur, frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaða endurákvörðun, til að tjá sig skriflega um efni máls og leggja fram viðbótargögn áður en úrskurður um endurákvörðun er kveðinn upp. Ríkisskattstjóri hefur jafnframt heimild, að framangreindri málsmeðferð virtri, til endurákvörðunar kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds komi í ljós að aðrar forsendur ákvörðunar hafa verið rangar, svo sem að gjaldþyngd hafi verið ranglega skráð í álestrarskrá. Ríkisskattstjóra er heimilt að falla frá endurákvörðun nemi hún lægri fjárhæð en 5.000 kr.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað „15. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 14. gr.
     b.      Í stað „12., 14. og 17. gr.“ í 2. mgr. kemur: 12. og 16. gr.
     c.      4. og 5. mgr. falla brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „framkvæmd“ í lokamálslið 1. mgr. kemur: tiltekinna þátta.
     b.      Í stað orðanna „sýni af eldsneyti sem notað er á skráningarskylt ökutæki“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: sýni úr eldsneytisgeymi ökutækis.
     c.      Á eftir 2. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður svohljóðandi: Einnig er eftirlitsmönnum heimilt að taka sýni úr birgðageymum, að beiðni ríkisskattstjóra.
     d.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ökumanni ökutækis er skylt að stöðva ökutæki óski eftirlitsmaður þess og heimila eftirlitsmanni að gera nauðsynlegar athuganir til að staðreyna hvort lituð olía hafi verið notuð á ökutækið.
     e.      3. mgr. orðast svo:
             Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með gjaldskyldum aðilum, sem hlotið hafa skráningu skv. 3. gr., og er heimilt að krefjast þess að fá afhent bókhald og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn er varða reksturinn. Enn fremur hefur ríkisskattstjóri aðgang að starfsstöðvum og birgðastöðvum. Að öðru leyti gilda ákvæði laga um virðisaukaskatt eftir því sem þau geta átt við.
     f.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Hafi ríkisskattstjóri grun um skattsvik eða að refsiverð brot á lögum um bókhald hafi verið framin skal hann tilkynna það skattrannsóknarstjóra ríkisins sem ákveður um framhald málsins. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. er ríkisskattstjóra heimilt að ljúka máli án þess að vísa því til skattrannsóknarstjóra ríkisins enda sé einvörðungu um að ræða brot er varðar refsingu skv. 4. eða 5. mgr. 19. gr., sbr. 4. mgr. 20. gr.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      Í stað 4. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Sé ökutæki heimildarlaust í umferð án þess að það sé búið ökumæli eða ef ökumælir telur ekki eða akstur er ranglega færður eða ekki færður í akstursbók eða ef heildarþyngd ökutækis með farmi er umfram gjaldþyngd þess varðar það sektum allt að 100.000 kr.
             Sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr., varðar það sektum samkvæmt eftirfarandi töflu:

Heildarþyngd ökutækis: Fjárhæð sektar:
0–3.500 kg 200.000 kr.
3.501–10.000 kg 500.000 kr.
10.001–15.000 kg 750.000 kr.
15.001–20.000 kg 1.000.000 kr.
20.001 kg og þyngri 1.250.000 kr.

        Sektarfjárhæðina skal lækka hlutfallslega þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr., á tveggja ára tímabili, talið frá þeim tíma er brot liggur fyrir. Sektarfjárhæð skal að hámarki lækkuð um helming. Við ítrekuð brot er heimilt að tvöfalda sektarfjárhæðina. Við sérstakar aðstæður er heimilt að lækka eða fella niður sekt samkvæmt ákvæðinu.
             Skráðum eiganda ökutækis verður gerð sekt skv. 4. og 5. mgr. óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Hafi umráðamaður ökutækis gerst sekur um brot skv. 4. og 5 mgr. er hann ábyrgur fyrir greiðslu sektarinnar ásamt skráðum eiganda.
     b.      7. mgr. fellur brott.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Refsingar.

9. gr.

    Á eftir 20. gr. kemur ný grein og breytast greinatölur samkvæmt því. Hin nýja grein orðast svo ásamt fyrirsögn:

Málsmeðferð.

    Yfirskattanefnd úrskurðar sektir skv. 19. gr. nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og dómsmeðferðar skv. 2. mgr. Um meðferð mála hjá nefndinni fer eftir lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Skattrannsóknarstjóri ríkisins kemur fram af hálfu hins opinbera þegar nefndin úrskurðar sektir. Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir.
    Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunauts ef hann vill eigi hlíta því að mál verði afgreidd af yfirskattanefnd skv. 1. mgr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skattrannsóknarstjóra ríkisins eða löglærðum fulltrúa hans heimilt að gefa sökunaut kost á að ljúka refsimeðferð máls með því að greiða sekt til ríkissjóðs, enda verður brot ekki talið varða þyngri refsingu en sekt, og verður máli þá hvorki vísað til opinberrar meðferðar né sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd. Aðila skulu veittar upplýsingar um fyrirhugaða sektarfjárhæð áður en hann fellst á að ljúka máli með þessum hætti. Sektarákvörðun samkvæmt ákvæði þessu skal lokið innan sex mánaða frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ríkisskattstjóra heimilt að ljúka refsimeðferð með ákvörðun sektar við brotum er varða refsingu skv. 4. eða 5. mgr. 19. gr. enda hafi málinu ekki verið vísað til skattrannsóknarstjóra ríkisins til meðferðar. Sé sekt skv. 1. málsl. greidd innan 14 daga frá ákvörðun hennar lækkar sektarfjárhæðin um 20 af hundraði. Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er kæranleg til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða frá póstlagningu ákvörðunar. Ríkisskattstjóri kemur fram af hálfu hins opinbera fyrir nefndinni vegna kæru á úrskurði hans.
    Skattkröfu má hafa uppi í opinberu máli sem kann að vera höfðað vegna brota gegn lögum þessum.
    Sektir fyrir brot gegn lögum þessum renna í ríkissjóð.
    Vararefsing fylgir ekki sektarákvörðunum skattyfirvalda. Um innheimtu sekta skattyfirvalda gilda sömu reglur og um innheimtu virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
    Sök skv. 19. gr. fyrnist á sex árum. Fari fram rannsókn af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins eða ríkislögreglustjóra gegn aðila sem sökunaut miðast fyrningarfrestur við upphaf rannsóknar enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við um sektir skv. 4. og 5. mgr. 19. gr.
     b.      8. mgr. orðast svo:
             Kílómetragjaldi, sérstöku kílómetragjaldi og sektum skv. 4. og 5. mgr. 19. gr. fylgir lögveðsréttur í viðkomandi ökutæki.

11. gr.

    Í stað „15. gr.“ í fyrri málslið 22. gr. laganna kemur: 14. gr.

12. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2006“ í ákvæði til bráðabirgða I í lögunum, sbr. lög nr. 81/2006 og lög nr. 70/2005, kemur: 31. desember 2007.

13. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2006“ í ákvæði til bráðabirgða II í lögunum, sbr. lög nr. 81/2006 kemur: 31. desember 2007.

14. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um olíugjald og kílómetragjald.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þann 1. júlí 2005 komu til framkvæmda ný lög um olíugjald og kílómetragjald o.fl., sem leystu af hólmi eldra kerfi þungaskatts. Um heildarlög var að ræða sem höfðu í för með sér umfangsmikla kerfisbreytingu og því er eðlilegt að í kjölfarið sé farið yfir hvernig til hafi tekist og hvort einhver vandamál séu við framkvæmd hins nýja kerfis. Frá gildistöku laganna hefur þeim verið breytt þrisvar og hafa breytingarnar snúið að fjárhæð olíugjaldsins, auk þess sem breytingar voru gerðar á ákvæðum er lutu að ökutækjum í sérstakri notkun og þau skilgreind nánar ásamt því að lagt var til að vegna notkunar þeirra skyldi greitt sérstakt kílómetragjald til að gæta jafnræðis í skattlagningu þyngri ökutækja sem á er lagt bæði olíugjald og kílómetragjald.
    Á vormánuðum 2006 skipaði fjármálaráðherra starfshóp sem falið var að skoða lögin heildstætt með hliðsjón af þeirri reynslu sem komin var á framkvæmd þeirra. Ráðgert er að starfshópurinn ljúki störfum á næstunni. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er brugðist við þeim vandamálum sem hafa komið upp við framkvæmd laganna og starfshópurinn er sammála um að brýnt sé að taka á nú þegar. Önnur atriði sem komið hafa til umræðu í starfshópnum og varða kerfisbreytinguna í stærra samhengi verða áfram til skoðunar innan ráðuneytisins.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru annars vegar á III. kafla laganna, sem fjallar um kæruheimildir, refsiábyrgð og eftirlit, og hins vegar er lagt til að tímabundin lækkun olíugjalds verði framlengd um eitt ár.
    Í fyrsta lagi er með frumvarpinu lagt til að kveðið verði á með skýrum hætti að sala olíu um borð í varðskip og skip sem notuð eru í atvinnurekstri og skráð eru 6 metrar eða lengri sé undanþegin olíugjaldi. Við slíka afhendingu er ekki gerð krafa um að í olíuna sé bætt litar- eða merkiefnum. Í nefndaráliti fyrsta minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um olíugjald og kílómetragjald o.fl. (sjá þskj. 1708 í 849. máli á 130. löggjafarþingi) kom fram að litun olíu tæki ekki til skipagasolíu sem notuð væri á kaupskipaflotann og öll stærri fiskiskip. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 283/2005, um litun á gas- og dísilolíu, er að finna ákvæði þessa efnis en rétt þykir að skjóta styrkari stoðum undir það ákvæði.
    Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til umfangsmiklar breytingar á ákvæðum sem snúa að endurákvörðun, refsingu, kæruheimild, málsmeðferð og eftirliti. Ekki er lagt til að gerð verði breyting á því hvað teljist vera refsiverð háttsemi frá því sem er í núgildandi lögum. Stefnt er að því að refsiákvæði laganna verði gagnsærri og beiting þeirra skilvirkari.
    Í þriðja lagi er lagt til að tímabundin lækkun á fjárhæð olíugjalds verði framlengd. Með lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., var fjárhæð olíugjaldsins ákvörðuð 45 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu. Með lögunum var stefnt að því að útsöluverð á dísilolíu yrði ívið lægra en á bensíni með það að markmiði að gera dísilknúnar fólksbifreiðar ákjósanlegan kost við val á einkabifreið. Vegna óhagstæðrar þróunar á heimsmarkaðsverði á dísilolíu, samanborið við heimsmarkaðsverð á bensíni, var olíugjaldið lækkað tímabundið, úr 45 kr. í 41 kr., með lögum nr. 70/2005. Gilti sú tímabundna lækkun í sex mánuði frá gildistöku laganna um olíugjald og kílómetragjald, þ.e. frá 1. júlí til 31. desember 2005. Með lögum nr. 126/2005, um breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald o.fl., var sú tímabundna lækkun framlengd til 1. júlí 2006. Lækkunin var framlengd á ný til 31. desember 2006 með lögum nr. 81/2006, um breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald o.fl.
    Frá því að olíugjald var tekið upp hefur heimsmarkaðsverð á dísilolíu oftar en ekki verið hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni. Spár gera ráð fyrir því að heimsmarkaðsverð á dísilolíu verði á næstu missirum að jafnaði hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni. Hafa þarf í huga að nokkuð erfitt er að spá fyrir um þróun heimsmarkaðsverðs á bensíni og dísilolíu vegna ótrausts ástands í mörgum af helstu olíuframleiðsluríkjum heims. Mikilvægt er að innbyrðis samræmi sé í skattlagningu á dísilolíu og bensíni þannig að dísilknúnar fólksbifreiðar verði álitlegri kostur fyrir einstaklinga en þær hafa verið hingað til. Með vísan til framangreinds er með frumvarpi þessu lagt til að þessi tímabundna lækkun olíugjalds úr 45 kr. í 41 kr. verði framlengd til 31. desember 2007.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um að seljendum olíu innan lands sé, þrátt fyrir almenna skyldu til innheimtu olíugjalds við afhendingu olíu er fellur undir skattskyldusvið laganna, heimilt að falla frá innheimtunni við afhendingu olíu til nota á varðskip og skip í atvinnurekstri sem skráð eru 6 metrar eða lengri. Með ákvæði þessu er seljendum olíu heimilað að falla frá innheimtu olíugjalds enda er sönnunarbyrði um að uppfyllt séu skilyrði til að falla frá innheimtu gjaldsins á seljanda, þ.e. seljandanum ber að sýna fram á að hann hafi afhent olíuna til nota á skip af þeim toga sem ákvæðið tekur til. Þá er lagt til að framangreind undanþága frá innheimtu olíugjalds verði ekki bundin því skilyrði að í olíuna sé bætt litar- og/eða merkiefnum, líkt og gert er að skilyrði varðandi aðrar undanþágur sem kveðið er á um í 4. gr. laganna, þ.m.t. við afhendingu olíu til nota á önnur skip og báta.

Um 2. gr.

    Breytingin í a-lið greinarinnar þarfnast ekki skýringar, en í b-lið er lagt til að skýrt verði kveðið á um að heildarþyngd ökutækis með farmi megi ekki vera umfram gjaldþyngd þess.

Um 3. gr.

    Lagt er til að felld verði brott skylda ríkisskattstjóra til að endurákvarða um kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald með tilteknum hætti reynist heildarþyngd ökutækis með farmi vera umfram gjaldþyngd þess. Í stað þess er í 8. gr. frumvarpsins lagt til að við því liggi sektir. Eru þessar breytingar lagðar til vegna ýmissa annmarka sem komið hafa í ljós við framkvæmd gildandi ákvæða. Fyrir það fyrsta leiðir reikniregla gildandi ákvæða til þess að endurákvarðaðar fjárhæðir geta reynst mjög lágar í þeim tilvikum þegar akstur ökutækis á viðkomandi tímabili hefur verið lítill en núgildandi ákvæði segir að við endurákvörðun skuli miða við akstur síðustu 60 daga. Fjárhæð kílómetragjalds í núgildandi lögum er mun lægra en það var í tíð laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Sem dæmi má nefna að af ökutæki sem við vigtun mælist 26 tonn en er með skráða gjaldþyngd 23 tonn og hefur verið ekið 3.000 kílómetra síðustu 60 daga, næmi endurákvörðun kílómetragjalds 5.400 kr. en fyrir gildistöku núgildandi laga hefði þessi fjárhæð verið mun hærri. Enn fremur er málsmeðferð samkvæmt ákvæðinu mjög þung í vöfum. Sem dæmi má nefna tilvik þegar fullnægjandi gögn um akstur eru ekki fyrir hendi eða þegar ökutækið hefur ekki verið í akstri síðustu 60 daga, t.d. vegna breytinga á eignarhaldi þess.

Um 4. gr.

    Lagt er til að ríkisskattstjóra verði heimilað að falla frá álagningu kílómetragjalds og/eða sérstaks kílómetragjalds nái fjárhæð gjaldsins ekki 200 kr. Þar sem kílómetragjaldið er lágt getur það leitt til þess að álagning á eigendur léttustu ökutækjanna sem ekið er lítið verði mjög lág. Sem dæmi má nefna að 10 tonna ökutæki greiðir 0,29 kr. á hvern ekinn kílómetra. Hafi ökutækinu verið ekið um 200 kílómetra á gjaldtímabilinu verður álagningin 58 kr. Í slíkum tilvikum er kostnaður vegna innheimtunnar mun hærri en ávinningur hennar.

Um 5. gr.

    Lagt er til að málsmeðferð við ákvörðun og endurákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds verði felld að almennum málsmeðferðarreglum skattaréttar, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í lokamálslið greinarinnar er lagt til að ríkisskattstjóra verði heimilað að falla frá endurákvörðun nemi hún lægri fjárhæð en 5.000 kr. Rétt þykir að miða við hærri fjárhæð en í 4. gr. frumvarpsins þar sem kostnaður og vinna við endurákvarðanir ríkisskattstjóra er mun meiri en við útsendingu greiðsluseðils vegna álagningar kílómetragjalds.

Um 6. gr.

    Brottfelldar málsgreinar eru teknar upp, efnislega samhljóða í nýrri lagagrein, sbr. 9. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til ýmsar breytingar á 19. gr. laganna. Í fyrsta lagi er tillaga um orðalagsbreytingu á 1. mgr. þar sem kveðið yrði með skýrari hætti á um að fjármálaráðherra sé heimilt að fela Vegagerðinni framkvæmd tiltekinna þátta eftirlitsins. Þá er lagt til skýrara orðalag til að tryggja eftirlitsaðila aðgang að eldsneytisgeymi ökutækis.
    Í c-lið greinarinnar er lagt til að eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar verði heimilt, að beiðni ríkisskattstjóra, að taka sýni úr birgðageymum, öðrum en eldsneytisgeymi ökutækis, t.d. birgðageymum undir eldsneyti á starfsstöðvum. Enn fremur er áréttuð sú skylda ökumanna að stöðva ökutæki að kröfu eftirlitsmanna. Sambærilega heimild er að finna í 68. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. 12. gr. laga nr. 66/2006, um breytingu á umferðarlögum.
    Enn fremur er lagt til að skýrar verði kveðið á um inntak eftirlitsheimilda ríkisskattstjóra í 3. mgr. en nú er.
    Í f-lið ákvæðisins er gerð tillaga um nýja málsgrein sem er í samræmi við þá meginreglu að tilkynna skuli skattrannsóknarstjóra ríkisins rökstuddan grun um refsiverð brot á skattalögum. Í síðari málslið málsgreinarinnar er lagt til að kveðið verði á um að ríkisskattstjóri geti vikið frá meginreglunni í tilviki brota sem honum er falið að ljúka með sektargerð, sbr. ákvæði 9. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að tilgreind háttsemi varði sektum allt að 100.000 kr. en um er að ræða sömu háttsemi og lýst er refsiverð í lögunum. Gert er ráð fyrir að sektarfjárhæðin verði fjárhæð að ákveðinni krónutölu en ekki afleidd af þeirri ætluðu fjárhæð sem undan er dregin líkt og í gildandi lögum, enda hefur það verið erfiðleikum bundið í framkvæmd og í sumum tilvikum ekki átt við. Með þessari breytingu er gert ráð fyrir að refsingar við þessum brotum verði fyrirsjáanlegri, auk þess sem framkvæmd við beitingu þeirra verður skilvirkari. Sé brotið gegn fleiri en einum lið ákvæðisins er gert ráð fyrir að sektarfjárhæðin sé samanlagðar þær fjárhæðir sem við hverju einstöku broti liggja. Gert er ráð fyrir því að einfalt gáleysi sé skilyrði refsiábyrgðar.
    Þá er lagðar til breytingar á viðurlögum við brotum sem felast í því að nota litaða gjaldfrjálsa olíu á skráningarskylt ökutæki án heimildar. Skv. 4. mgr. 20. gr. núgildandi laga er sú háttsemi refsiverð. Breytingin lýtur einkum að því að lagt er til að sektarfjárhæðin taki mið af heildarþyngd ökutækisins og fari stighækkandi eftir því sem þyngd ökutækis eykst, í stað þess að taka mið af þeirri fjárhæð sem ætla má að hafi verið dregin undan. Er þetta fyrirkomulag sambærilegt við það sem viðhaft er í Noregi. Í framkvæmd hefur verið erfiðleikum bundið að miða sektarfjárhæðina við undandregna fjárhæð þar sem erfitt getur reynst að sýna fram á magn olíu sem notuð hefur verið með ólögmætum hætti. Auk þess er sektarfjárhæð sem reiknuð er út með þeim hætti óveruleg og ekki í samræmi við alvarleika brotanna og þá fjárhagslegu hagsmuni sem þar vegast á. Þá er töluverður beinn kostnaður vegna eftirlitsins samfara þessum brotum, sem m.a. felst í efnagreiningu olíunnar. Með þessu ákvæði er gert ráð fyrir að refsingar við þessum brotum verði þyngdar og hafðar í meira samræmi við þá hagsmuni sem ákvæðinu er ætlað að vernda. Þá er gert ráð fyrir að refsingar verði gagnsærri og framkvæmd við beitingu þeirra skilvirkari. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að lækka sektarfjárhæðina þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á umrætt ökutæki á tveggja ára tímabili frá þeim tíma er brot liggur fyrir. Hér er einkum haft í huga ef breyting verður á eignarhaldi ökutækis innan hins tveggja ára tímabils. Mæla sanngirnisrök með því að sektarfjárhæðin verði þá í hlutfalli við eignarhaldstímann. Er í þessum tilvikum gert ráð fyrir að stuðst verði við opinber gögn um eignarhald ökutækja. Lagt er til að sektarfjárhæðina sé að hámarki unnt að lækka um helming af þessari ástæðu. Þá er lagt til að við ítrekað brot sé unnt að tvöfalda sektarfjárhæðina. Við sérstakar aðstæður er heimilt að lækka eða fella niður sekt samkvæmt ákvæðinu. Gert er ráð fyrir að það mat sé í höndum þess er refsingunum beitir. Hafi viðkomandi orðið uppvís að öðrum brotum gegn ákvæðum þessara laga er gert ráð fyrir því að sektarfjárhæðin sé samanlagðar þær fjárhæðir er við brotunum liggja.
    Einnig er lögð til hlutlæg ábyrgð skráðs eiganda ökutækis vegna brota sem tilgreind eru í þessari grein. Ökumaður kann að vera annar en umráðamaður þess eða skráður eigandi. Er fyrirséð að í sumum tilvikum þar sem svo háttar til sé nánast ómögulegt að upplýsa um hver þeirra hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þótt ljóst sé að brot hafi verið framið. Er því lagt til að skráður eigandi ökutækisins beri refsiábyrgð án tillits til þess hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Með skráðum eiganda er gert ráð fyrir að tekið sé mið af opinberri skráningu í ökutækjaskrá. Verði hins vegar sýnt fram á að umráðamaður ökutækis hafi hagnast á brotinu má gera hann ábyrgan fyrir greiðslu sektarinnar með skráðum eiganda þess (in solidum). Með umráðamanni er átt við skráðan umráðamann samkvæmt ökutækjaskrá. Aðrir en skráður eigandi bera refsiábyrgð vegna brota á ákvæðum á grundvelli sakar.
    Í b-lið er lagt til að 7. mgr. falli brott en í 20. gr. laganna verði öll ákvæði um málsmeðferð refsiverðra brota gegn lögunum. Skýr greinarmunur verði þannig gerður á annars vegar ákvæðum 19. gr. sem tekur til þeirrar háttsemi sem lýst er refsiverð samkvæmt lögunum og refsinga vegna hennar og hins vegar 20. gr., sem hefur að geyma tæmandi reglur um málsmeðferð brotanna.
    Loks er lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði „ Refsingar“ í stað „Refsiábyrgð“. Er það meira lýsandi fyrir efnisinntak greinarinnar sem tekur ekki einungis til ábyrgðar vegna brota á lögunum heldur einnig refsinga vegna þeirra.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að sett verði á einn stað ákvæði um málsmeðferð og fyrningarreglur vegna brota á lögunum, í stað þess að hafa ákvæði þess efnis í tveimur greinum, 18. og 20. gr. laganna.
    Ákvæði 1. mgr. er efnislega óbreytt frá 4. mgr. 18. gr. laganna. Meginreglan er sú að sektir vegna brota á lögunum séu ákveðnar af hálfu yfirskattanefndar með úrskurði. Tekinn er af allur vafi um að skattrannsóknarstjóri ríkisins komi fram af hálfu hins opinbera fyrir yfirskattanefnd sem er í samræmi við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
    Ákvæði 2. mgr. er sambærilegt öðrum ákvæðum skattalaga t.d. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Efnislega er ákvæðið óbreytt frá 4. málsl. 4. mgr. 18. gr.
    Ákvæðið í 3. mgr. tekur til sektarheimildar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Ákvæðið kemur í stað 1.–3. málsl. 7. mgr. 20. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að heimildin nái til allra brota gegn lögunum, verði brot ekki talin varða þyngri refsingu en sektum. Samkvæmt gildandi lögum nær heimildin einvörðungu til háttsemi sem fellur undir 3. mgr. 20. gr. laganna. Lagt er til að aðili þurfi að gangast undir sektarboð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins til að unnt sé að ljúka refsimeðferð máls með þessum hætti. Er það í samræmi við önnur ákvæði laga er taka til sektarheimildar skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. lög nr. 134/2005. Gangist sökunautur ekki undir sektarboð tekur skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvörðun um hvort máli hans verði vísað til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd eða til opinberrar meðferð hjá lögreglu.
    Ákvæði 4. mgr. fjallar um sektarheimild ríkisskattstjóra. Gert er ráð fyrir að sektarheimild ríkisskattstjóra taki til háttsemi sem lýst er refsiverð skv. a. og b. lið í 8. gr. frumvarpsins, þ.e. til brota annarra en gjaldskyldra aðila skv. 1.–3. mgr. 20. gr., sbr. 3. gr. núgildandi laga. Hafi máli verið vísað til skattrannsóknarstjóra ríkisins til meðferðar skv. f-lið. 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti lokið refsimeðferð málsins. Verður sektum ekki beitt af hálfu ríkisskattstjóra samkvæmt þessu ákvæði í þeim tilvikum. Lagt er til að ákvörðuð sektarfjárhæð af hálfu ríkisskattstjóra lækki um 20 af hundraði verði hún greidd innan 14 daga frá ákvörðun hennar. Til að taka af tvímæli þar um er tiltekið að ríkisskattstjóri komi fram af hálfu hins opinbera fyrir yfirskattanefnd vegna kæru á úrskurði hans samkvæmt þessu ákvæði.
    Í 5. mgr. er lagt til að skattkröfu megi hafa uppi í opinberu máli sem kann að verða höfðað vegna brota á löggjöfinni. Ákvæðið er sambærilegt öðrum ákvæðum í skattalögum, t.d. 2. málsl. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003. Sé máli vísað til opinberrar rannsóknar er það gert á grundvelli kæru skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. 2. mgr. þessarar greinar frumvarpsins.
    Í 6. mgr. er lagt til að tekin verði af tvímæli um að sektir fyrir brot gegn lögunum renni í ríkissjóð.
    Samkvæmt 7. mgr. fylgir vararefsing ekki ákvörðunum skattyfirvalda um beitingu sektar. Ákvæðið á við hvort heldur er um að ræða ákvarðanir ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins eða yfirskattanefndar. Í 2. málsl. er ákvæði um innheimtu sekta skattyfirvalda. Fer um hana á sama hátt og um innheimtu virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Er sú tilhögun í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna.
    Ákvæðið í 8. mgr. er að mestu efnislega óbreytt frá 5. mgr. 18. gr. núgildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Hér er í fyrsta lagi lagt til að ekki verði heimilt að skipa úr landi ökutæki nema greiddar hafi verið álagðar sektir skv. a-lið 8. gr. frumvarpsins. Á það m.a. við um sektir vegna brota á gjaldþyngd og vegna óheimillar notkunar á litaðri olíu á skráningarskylt ökutæki.
    Í öðru lagi er lagt til að auk kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds fylgi lögveðsréttur í viðkomandi ökutæki vegna sekta skv. a-lið 8. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 12. gr.

    Með greininni er lagt til að framlengd verði tímabundin lækkun olíugjalds í 41 kr. á hvern lítra. Áætlað er að sú ráðstöfun leiði til þess að tekjur ríkissjóðs verði um 450 millj. kr. lægri en ella hefði orðið og hefur þegar verið reiknað með því í forsendum tekjuhliðar fjárlagafrumvarps fyrir árið 2007. Er því ekki gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Um 13. gr.

    Með greininni er lagt til að framlengd verði tímabundin lækkun á sérstöku kílómetragjaldi á bifreiðar til sérstakra nota til þess að jafnræðis sé gætt í skattlagningu þeirra ökutækja sem greiða olíugjald og þeirra sem greiða sérstakt kílómetragjald. Þessi breyting er talin hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs á árinu 2007.

Um 14. gr.

    Til einföldunar er lagt til að heiti laganna verði breytt og „o.fl.“ verði fellt brott.

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 87/2004,
um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um olíugjald og kílómetragjald. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu snúa aðallega að ákvæðum um kæruheimildir, refsiábyrgð, málsmeðferð og eftirlit og miða m.a. að því að gera refsingar við brotum á lögunum gagnsærri og framkvæmd eftirlits skilvirkara. Ekki er ástæða til að ætla að þessar breytingar hafi umtalsverð áhrif á útgjöld við framkvæmd laganna en tekjur af sektum kynnu að aukast nokkuð, a.m.k. fyrst um sinn þar til tilætluð varnaðaráhrif verða komin fram. Þá er í frumvarpinu lagt til að lækkun olíugjalds úr 45 kr. í 41 kr. á hvern lítra og lækkun á gjaldskrá vegna sérstaks kílómetragjalds, sem falla átti úr gildi um næstu áramót, verði framlengd til loka næsta árs þar sem ekki eru horfur á að óhagstæð verðþróun á dísilolíu gagnvart bensíni á heimsmarkaði gangi til baka á næstunni. Áætlað er að sú ráðstöfun leiði til þess að tekjur ríkissjóðs verði um 450 m.kr. lægri en ella hefði orðið og hefur þegar verið reiknað með því í forsendum tekjuhliðar fjárlagafrumvarps fyrir árið 2007. Er því ekki gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.