Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 436  —  1. mál.




Breytingartillaga



við frv. til fjárlaga fyrir árið 2007.

Frá minni hluta fjárlaganefndar (JBjarn, EMS, EBS, GAK, KJúl).



Skv. frv.
m.kr.

Breyting
m.kr.

Tillaga
m.kr.

Breytingar á sundurliðun 2:
    Við 08-204 Lífeyristryggingar
    a. 1.21 Tekjutrygging ellilífeyrisþega          14.850,0     602,0     15.452,0
    b. 1.25 Tekjutrygging örorkulífeyrisþega          8.920,0     350,0     9.270.0
    c. 1.50 Ný framtíðarskipan lífeyrismála          0,0     6.431,7     6.431,7     
    Greitt úr ríkissjóði          18.699,4     7.383,7     26.083,1

Greinargerð.


    Þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðu fram í upphafi þessa þings þingsályktunartillögu um nýja framtíðarskipan lífeyrismála (þskj. 3). Með þessari breytingartillögu er lagt til að eftirtaldir liðir í þeirri tillögu komist til framkvæmda strax 1. janúar 2007:
     1.      Ný tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. kr. og öryrkja 86 þús. kr. frá 1. janúar 2007 að viðbættum vísitölubreytingum sem orðið hafa. Frá sama tíma verði dregið úr skerðingaráhrifum tekna þannig að í stað þess að skattskyldar tekjur yfir frítekjumarki skerði tekjutryggingu um 45% þeirra tekna sem umfram eru, verði hlutfallið 35%.
     2.      Frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007 og skerði ekki tekjutryggingu. Skoðað verði hvort nýta megi hluta þessa frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóði. Öryrkjar hafi val um þetta nýja frítekjumark eða eldri reglu eftir því hvort er þeim hagstæðara.
     3.      Ráðstöfunarfé (vasapeningar) við dvöl á stofnun hækki um 50% frá frá 1. júlí 2006 ásamt því að frítekjumark gagnvart tekjum þeirra sem dvelja á stofnunum verði hækkað úr 50 þús. kr. í 75 þús. kr. Frá 1. janúar 2008 verði stefnt að því að breyta greiðslufyrirkomulagi á daggjaldastofnunum fyrir aldraða í svipaða veru og gildir fyrir fatlaða á sambýlum.
     4.      Afnumin verði að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka.
     5.      Öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót þegar farið er á ellilífeyri.
    Í ofangreindri þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar kemur fram að það er ætlun flutningsmanna hennar að ráðast í skilgreiningu á neysluútgjöldum lífeyrisþega sem myndi viðmiðun fyrir grunnlífeyri og tekjutryggingu. Þessi viðmiðun hækki í samræmi við neysluvísitölu þannig að tryggt sé að hún haldi verðgildi sínu. Hækki launavísitalan umfram neysluvísitölu verði tekið mið af henni þannig að lífeyrisþegum sé tryggð hlutdeild í auknum kaupmætti í samfélaginu.