Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 233. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 491  —  233. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins og Friðbert Traustason frá Samtökum íslenskra bankamanna. Nefndinni hafa auk þess borist umsagnir um frumvarpið.
    Í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar. Annars vegar er lagt til að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað úr 10% í 12% af iðgjaldsstofni og gert ráð fyrir því að iðgjald launagreiðanda hækki úr 6% í 8% en iðgjald launþega haldist hið sama, þ.e. 4%. Ástæður þessa eru einkum aukið langlífi, stóraukin fjölgun öryrkja og mikil hækkun launa umfram verðlag.
    Hins vegar er lögð til breyting í þá veru að lífeyrissjóðum sem njóta, eða nutu, bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags eða banka verði mögulegt að breyta samþykktum sínum til samræmis við ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þar sem kveðið er á um heimild til að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum ef meira en 10% munur verður á milli eigna og skuldbindinga eða ef munur milli eigna og skuldbindinga hefur verið meiri en 5% samfellt í fimm ár.
    Fram komu athugasemdir frá Fjármálaeftirlitinu, Landssamtökum lífeyrissjóða og Seðlabanka Íslands um síðarnefnda atriðið. Var talið að yrði frumvarpið óbreytt að lögum mundu 2. og 3. gr. þess hafa þau áhrif að sjóðum, sem falla undir 51. og 54. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, yrði heimilt að gera breytingar á samþykktum sínum, sbr. 2. mgr. 39. gr. Þeir sjóðir sem njóta bakábyrgðar eru LH, LSR og ýmsir eftirlaunasjóðir sveitarfélaga og má einnig nefna Lífeyrissjóð starfsmanna Útvegsbankans og Lífeyrissjóð starfsmanna Íslandsbanka (Glitnis). Kom m.a. fram í umsögn Fjármálaeftirlitsins að þær breytingar sem lagðar eru til með framangreindum ákvæðum næðu ekki aðeins til þeirra sjóða sem ekki njóta lengur bakábyrgðar á skuldbindingum heldur jafnframt til þeirra sjóða sem enn njóta slíkrar ábyrgðar. Nú hefur 54. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða verið túlkuð á þann veg að ekki sé heimilt að hreyfa við réttindum og réttindaöflun sjóðfélaga þeirra sjóða sem þar falla undir þrátt fyrir að 2. mgr. 39. gr. geti gefið tilefni til slíks. Leggur því nefndin til þá breytingu á frumvarpinu að það einskorðist við þá sjóði sem ekki njóta lengur bakábyrgðar, t.d. hlutfallsdeild Lífeyrissjóðs bankamanna og Lífeyrissjóðs starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, og að þeim sjóðum sé þá skylt að gera nauðsynlegar breytingar til samræmis við 2. mgr. 39. gr. laganna.
    Nefndin leggur einnig til breytingar sem eru tæknilegs eðlis svo sem leiðréttingar á tilvísunum í önnur lagaákvæði og breytingar á hlutfallstölum annarra laga. Þess má geta að nefndin leggur til breytingu á prósentum í lögum um Ábyrgðasjóð launa og lögum um fæðingar- og foreldraorlof.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ágúst Ólafur Ágústsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 29. nóv. 2006.


Pétur H. Blöndal,

form., frsm.

Jóhanna Sigurðardóttir,

með fyrirvara.

Dagný Jónsdóttir.



Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Kolbrún Baldursdóttir.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


með fyrirvara.



Ásta Möller.


Sæunn Stefánsdóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.