Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 435. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 654  —  435. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Eyþórsson, Skúla Helgason, Guðlaug Þór Þórðarson, Kristínu Halldórsdóttur og Eyjólf Ármannsson frá nefnd fulltrúa þingflokka, Árna Pál Árnason, starfsmann nefndarinnar, Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, Gylfa Magnússon, dósent í viðskiptafræði, og Teit Einarsson og Þórlind Kjartansson frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Umsagnir bárust um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sambandi ungra sjálfstæðismanna.
    Frumvarpið er samið á vegum nefndar fulltrúa allra þingflokka sem skipuð var árið 2005 til að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi. Það er lagt fram í þeim tilgangi að kveða á um fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum stjórnmálasamtaka, með það að markmiði að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir verulegri breytingu á starfsumgjörð íslenskra stjórnmálaflokka. Nefndin leggur áherslu á að með ákvæðum frumvarpsins er verið að treysta grundvallarhlutverk stjórnmálaflokkanna í lýðræðislegri stjórnskipan til muna.
    Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi þá að viðmiðun í 5. gr. um heimild og skyldu sveitarfélaga til að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 2,5% akvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar verði breytt þannig að samtökin hafi hlotið a.m.k. 5% atkvæða. Einnig er lögð til sú breyting á greininni að fellt verði brott ákvæði um að fjárhæð sem sveitarfélög úthluta til stjórnmálasamtaka sé í eðlilegu hlutfalli við stærð sveitarfélagsins. Í öðru lagi leggur nefndin til að ákvæði 6. gr. frumvarpsins um framlög úr ríkissjóði til frambjóðenda til embættis forseta Íslands verði fellt brott, en nefndin telur rétt að íhuga betur hvernig staðið skuli að slíkum framlögum áður en ráðist verði í lagasetningu um þau. Nefndin beinir því eindregið til forsætisráðherra að hafa forgöngu um tillögugerð sem lúti að því að um framlög og fjármálalega umgjörð framboða til embættis forseta gildi sömu meginreglur og um aðra frambjóðendur í persónukjöri. Þessu tengt verður breyting á c-lið 2. gr. frumvarpsins. Í þriðja lagi leggur nefndin til breytingu á 8. gr. frumvarpsins þess efnis að stjórnmálasamtök og frambjóðendur megi ekki þiggja framlög frá öðrum einstaklingum en þeim sem eru lögráða, þ.e. þeim sem eru 18 ára og hafa forræði á búi sínu.
    Í 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um leiðbeiningarreglur Ríkisendurskoðunar um fyrirkomulag sölu þjónustu á vegum stjórnmálasamtaka. Nefndin leggur áherslu á að slíkar reglur verði settar í samráði við stjórnmálaflokkana og með samstöðu þeirra þannig að unnt verði að greina með skýrum hætti milli sölu á þjónustu og eiginlegrar fjáröflunar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Björgvin G. Sigurðsson, Birgir Ármannsson og Kjartan Ólafsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.
                                  

Alþingi, 9. des. 2006.



Guðjón Ólafur Jónsson,


varaform., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.



Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.


Ásta Möller.


Kjartan Ólafsson,


með fyrirvara.



Magnús Þór Hafsteinsson.