Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 550. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 821  —  550. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon.



1. gr.

    Við 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
    Maður sem enga launaða vinnu hefur með höndum skal reikna sér endurgjald sem um hálft starf væri að ræða við fjármálaumsýslu fyrir óskyldan eða ótengdan aðila hafi hann 6 millj. kr. eða meira í árlegar fjármagnstekjur og sem um fullt starf væri að ræða séu tekjurnar 24 millj. kr. eða meira.

2. gr.

    Við 31. gr. laganna bætist nýr töluliður er verður 9. tölul. og orðast svo:
    Rekstrarhagnað lögaðila yngri en 15 ára sem ráðstafað er til að styrkja eiginfjárstöðu þeirra fyrstu þrjú rekstrarár þar sem afkoma er jákvæð og eftir að frádráttur skv. 8. tölul. þessarar greinar er að fullu nýttur, enda sé ekki greiddur arður til hluthafa á sama tíma.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2008 vegna tekna á árinu 2007.

Greinargerð.


    Að undanförnu hafa komið fram upplýsingar um að þeim fjölgi nú ört sem engar launatekjur telja fram til skatts en hafa hins vegar umtalsverðar fjármagnstekjur og lifa af þeim. Sérstaka athygli vekur að fleiri hundruð einstaklingar, og ört stækkandi hópur, hafa nú orðið mjög umtalsverðar fjármagnstekjur, svo nemur a.m.k. fleiri tugum eða hundruðum milljóna, án þess að telja fram neinar tekjur vegna launaðrar vinnu. Þetta leiðir til þess að viðkomandi borgar ekki gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, greiðir ekki útsvar til síns sveitarfélags og mun ekki borga nefskatt til Ríkisútvarpsins, sbr. nýsamþykkt lög um Ríkisútvarpið ohf., komi álagning hans til framkvæmda 2009 eins og lög gera nú ráð fyrir. Telja verður eðlilegt að þeir sem þannig háttar til um séu meðhöndlaðir sem séu þeir sjálfstætt starfandi við fjármálaumsýslu, þ.e. í vinnu fyrir sjálfa sig við að ávaxta eigið fé. Þeim verði því gert að reikna sér endurgjald eins og öðrum sjálfstætt starfandi aðilum og þeim sem vinna við eigin atvinnurekstur eins og kveðið er á um í 1. gr.
    Hitt efnisatriði frumvarpsins lýtur að því að nýstofnuðum fyrirtækjum og yngri en 15 ára sé gert kleift að styrkja eiginfjárstöðu sína fyrstu rekstrarár sem afkoma þeirra er jákvæð og áður en til skattgreiðslna kemur. Með ákvæðinu er sérstaklega haft í huga að gera smærri fyrirtækjum sem oft hefja starfsemi með takmörkuðu hlutafé og eiga erfitt uppdráttar fyrstu árin kleift að styrkja stöðu sína með því að nota rekstrarhagnað fyrstu áranna sem afkoma er jákvæð og uppsöfnuð töp hafa verið að fullu nýtt til skattfrjálsrar aukningar á eigin fé. Líta má á ákvæðið sem skattalegt hvatningarúrræði og til stuðnings stofnun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja. Með lagabreytingum 2002 var einstaklingum gert auðveldara að flytja rekstur af eigin kennitölu yfir í einkahlutafélög án þess að þurfa að greiða skatt af þeirri eignamyndun sem kunni að hafa orðið til í rekstrinum með sama hætti og áður. Sá tæplega 20% munur sem er á skattlagningu hagnaðar af fyrirtækjum og af launatekjum hjá frumkvöðlum í atvinnulífi sem reka sína starfsemi á eigin kennitölu skiptir vissulega verulegu máli, enda nýta sífellt fleiri sér leið einkahlutafélagaformsins. Eftir stendur samt að fyrirtæki frumkvöðla og ný fyrirtæki almennt sem leggja upp með takmarkað fjármagn og veika eiginfjárstöðu hafa mikla þörf fyrir að nota sem allra mest af hagnaði fyrstu rekstraráranna til að byggja upp eigið fé og styrkja stöðu sína. Frumvarpið felur í sér tiltekið skattalegt hagræði fyrirtækja einmitt við slíkar aðstæður.