Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 570. máls.

Þskj. 846  —  570. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 40/2001, um stofnun hlutafélags
um Orkubú Vestfjarða, og lögum nr. 25/2006, um stofnun hlutafélags
um Rafmagnsveitur ríkisins, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 40/2001, um stofnun hlutafélags
um Orkubú Vestfjarða, með síðari breytingum.

1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf.
    Eignarhlutur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf. skal lagður til Landsvirkjunar sem viðbótareigandaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Landsvirkjun fer eftir það með eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf.
    Stjórn Orkubús Vestfjarða hf. skal skipuð þremur til fimm mönnum og jafnmörgum til vara samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
    Starfsemi Orkubús Vestfjarða hf. sem tengist framleiðslu og sölu raforku skal falin sjálfstæðu sölufélagi sem einungis hefur þá starfsemi með höndum. Orkubúi Vestfjarða hf. er heimilt að eiga og reka slíkt sölufélag í samvinnu við Rafmagnsveitur ríkisins hf. Um eignaraðild annarra aðila að sölufélaginu og samruna Orkubús Vestfjarða hf. og sölufélagsins við önnur fyrirtæki fer samkvæmt samkeppnislögum.
    Tryggja skal að fullur rekstrarlegur og stjórnunarlegur aðskilnaður verði á milli sölufélagsins og Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar. Skal sölufélagið rekið sem sérstakur lögaðili.
    Fjármálaráðherra tilnefnir stjórnarmenn sölufélagsins, sem skulu vera þrír, og jafnmarga til vara. Stjórnarmenn og starfsmenn Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar skulu ekki sitja í stjórn eða varastjórn sölufélagsins. Á sama hátt er stjórnarmönnum og starfsmönnum sölufélagsins óheimilt að sitja í stjórn eða varastjórn Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar. Hið sama gildir um þá sem eru makar umræddra stjórnarmanna og starfsmanna, skyldir þeim eða mægðir í beinan legg eða systkini þeirra.
    Öll viðskipti sölufélagsins og Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar skulu byggð á sömu sjónarmiðum og viðskipti milli óskyldra aðila. Hvers konar samvinna eða samstilltar aðgerðir milli sölufélagsins og Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar eru óheimilar, sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Ákvæði samkeppnislaga, þar með talin bannákvæði samkeppnislaga og úrræði til eftirlits og íhlutunar, gilda um þessa starfsemi.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fyrir árslok 2009 skal taka ákvæði 4.–7. mgr. 7. gr. laga þessara til endurskoðunar með hliðsjón af þróun samkeppni á mörkuðum fyrir framleiðslu og sölu raforku.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 25/2006, um stofnun hlutafélags
um Rafmagnsveitur ríkisins, með síðari breytingum.

3. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Rafmagnsveitum ríkisins hf.
    Eignarhlutur ríkisins í Rafmagnsveitum ríkisins hf. skal lagður til Landsvirkjunar sem viðbótareigandaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Landsvirkjun fer eftir það með eignarhlut ríkisins í Rafmagnsveitum ríkisins hf.
    Stjórn félagsins skal skipuð þremur til fimm mönnum og jafnmörgum til vara samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
    Starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins hf. sem tengist framleiðslu og sölu raforku skal falin sjálfstæðu sölufélagi sem einungis hefur þá starfsemi með höndum. Rafmagnsveitum ríkisins hf. er heimilt að eiga og reka slíkt sölufélag í samvinnu við Orkubú Vestfjarða hf. Um eignaraðild annarra aðila að sölufélaginu og samruna Rafmagnsveitna ríkisins hf. og sölufélagsins við önnur fyrirtæki fer samkvæmt samkeppnislögum.
    Tryggja skal að fullur rekstrarlegur og stjórnunarlegur aðskilnaður verði á milli sölufélagsins og Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar. Skal sölufélagið rekið sem sérstakur lögaðili.
    Fjármálaráðherra tilnefnir stjórnarmenn sölufélagsins, sem skulu vera þrír, og jafnmarga til vara. Stjórnarmenn og starfsmenn Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar skulu ekki sitja í stjórn eða varastjórn sölufélagsins. Á sama hátt er stjórnarmönnum og starfsmönnum sölufélagsins óheimilt að sitja í stjórn eða varastjórn Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar. Hið sama gildir um þá sem eru makar umræddra stjórnarmanna og starfsmanna, skyldir þeim eða mægðir í beinan legg eða systkini þeirra.
    Öll viðskipti sölufélagsins og Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar skulu byggð á sömu sjónarmiðum og viðskipti milli óskyldra aðila. Hvers konar samvinna eða samstilltar aðgerðir milli sölufélagsins og Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar eru óheimilar, sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Ákvæði samkeppnislaga, þar með talin bannákvæði og úrræði til eftirlits og íhlutunar, gilda um þessa starfsemi.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fyrir árslok 2009 skal taka ákvæði 4.–7. mgr. 3. gr. laga þessara til endurskoðunar með hliðsjón af þróun samkeppni á mörkuðum fyrir framleiðslu og sölu raforku.

III. KAFLI
Gildistaka.
5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðbirgða.

    Eignarhlutur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf. og Rafmagnsveitum ríkisins hf. skal lagður til Landsvirkjunar sem viðbótareigandaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun fyrir 1. júlí 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í desember 2006 samþykkti Alþingi breytingar á ýmsum lögum á orkusviði sem fólu í sér að fyrirsvar ríkisins varðandi eignarhluti í Hitaveitu Suðurnesja hf., Orkubúi Vestfjarða hf. og Rafmagnsveitu ríkisins hf. fluttust frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra. Jafnframt var þá lagt til að allur eignarhlutur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins yrði lagður til Landsvirkjunar sem viðbótareigandaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Sú breyting náði þá ekki fram að ganga.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að allur eignarhlutur ríkisins, annars vegar í Orkubúi Vestfjarða hf. og hins vegar í Rafmagnsveitum ríkisins hf., en íslenska ríkið á og fer með fullan hlut í báðum félögunum, verði lagður til Landsvirkjunar sem viðbótareigandaframlag ríkisins. Með því verða Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins að fullu dótturfélög Landsvirkjunar, sem fer eftir það með eignarhlutina. Verði frumvarpið að lögum verður því eign ríkisins óbein í félögunum tveimur. Með breytingunni má ná fram ýmiss konar hagræðingu í rekstri fyrirtækjanna tveggja. Auk þess er æskilegt að ríkið reyni að halda utan um hagsmuni sína í rekstri raforkufyrirtækja í einu öflugu félagi. Slíkt viðbótareigandaframlag ríkisins til Landsvirkjunar mun einnig styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar. Ekki liggur fyrir endanlegt mat á virði þessara hluta, en eigið fé félaganna tveggja, Rafmagnsveitna ríkisins hf. og Orkubús Vestfjarða hf., samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2005 nemur samanlagt rúmum 17 milljörðum kr. Sú fjárhæð var líklega nokkru hærri í árslok 2006. Gert er ráð fyrir því að eignarhlutir ríkisins í félögunum tveimur (verðgildi hlutafjár) verði lagðir til Landsvirkjunar miðað við bókfært verð eigin fjár að undangengnu mati, ef þurfa þykir, í árslok 2006.
    Af hálfu Samkeppniseftirlitsins hefur komið fram að með framangreindu fyrirkomulagi þurfi að huga að markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar á markaðnum fyrir smásölu raforku til stórnotenda og á markaðnum fyrir framleiðslu og heildsölu á raforku. Enn fremur kunni Landsvirkjun að komast í markaðsráðandi stöðu á markaðnum fyrir smásölu raforku til almennra nota. Gæta verði að því að fyrirkomulagið á þessu sviði hindri ekki virka samkeppni á mörkuðum fyrir framleiðslu og smásölu raforku í skilningi 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga. Með hliðsjón af þessu og samkeppnisaðstæðum að öðru leyti er því lagt til í frumvarpinu að sett verði skilyrði sem miða að því að tryggja aðskilnað í framleiðslu og sölu raforku. Þessi skilyrði koma fram í 4.–7. mgr. 1. og 3. gr. frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er lagt til að starfsemi Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins sem tengist framleiðslu og sölu raforku skuli falin sjálfstæðu félagi sem einungis hefur þá starfsemi með höndum. Félögunum er heimilt að reka slíkt orkusölufélag saman og í samvinnu við aðra en Landsvirkjun, sem hefur markaðsráðandi stöðu í framleiðslu og sölu raforku, þ.e. á meðan staða Landsvirkjunar á raforkumarkaði er eins og hún er nú. Um eignaraðild annarra að sölufélaginu og samruna félaganna tveggja (Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða) og/eða sölufélagsins við önnur fyrirtæki eða félög fer samkvæmt samkeppnislögum.
    Í öðru lagi fela skilyrðin í sér að orkusölufélagið verði rekið sem sérstakur lögaðili og að tryggður verði fullur rekstarlegur og stjórnunarlegur aðskilnaður milli slíks orkusölufélags og Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar.
    Í þriðja lagi er lagt til að fjármálaráðherra tilnefni alla stjórnarmenn og varastjórnarmenn orkusölufélagsins. Þá er kveðið á um að stjórnar- og starfsmenn Landsvirkjunar og annarra félaga innan samstæðu Landsvirkjunar skuli ekki sitja í stjórn orkusölufélagsins.
    Í fjórða lagi er kveðið á um að öll viðskipti orkusölufélagsins við Landsvirkjun og önnur félög innan sömu samstæðu skuli byggð á sömu sjónarmiðum og viðskipti milli óskyldra aðila. Þá gildi bann 10. gr. samkeppnislaga um hvers konar samvinnu eða samstilltar aðgerðir milli orkusölufélagsins og Landsvirkjunar eða annarra félaga innan samstæðunnar. Ákvæði samkeppnislaga gildi og um þessa starfsemi. Enn fremur er lagt til að framangreind skilyrði verði endurskoðuð fyrir árslok 2009 í ljósi samkeppnisaðstæðna á þeim tíma.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 2. efnismgr. er lagt til að eignarhlutur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf. verði lagður til Landsvirkjunar sem viðbótareigandaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Landsvirkjun fer eftir það með eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf. Gert er ráð fyrir að eignarhlutur ríkisins í félaginu (verðgildi hlutafjár) verði lagður inn til Landsvirkjunar miðað við bókfært verð eigin fjár að undangengnu mati, ef þurfa þykir, í árslok 2006.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að stjórnarmenn Orkubús Vestfjarða geti verið þrír til fimm samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Stjórnin er nú skipuð fimm mönnum en þyki ástæða til þess að fækka stjórnarmönnum í fjóra eða þrjá þyrfti ekki að koma til sérstök breyting á lögum félagsins. Eðlilegt er að slík ákvörðun liggi hjá eiganda félagsins.
    Í 4.–7. mgr. koma fram þau skilyrði sem eðlilegt þykir að setja vegna stöðu Landsvirkjunar á raforkumarkaðnum. Vísast í þessu efni til almennra athugasemda.

Um 2. gr.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er lagt til að framangreind skilyrði í 4.–7. mgr. 7. gr. laganna verði endurskoðuð fyrir árslok 2009 með hliðsjón af þróun samkeppni á þessu sviði. Rétt þykir að fjármálaráðherra, sem fer með eignarhlutinn í Landsvirkjun, hafi forgöngu um slíka endurskoðun og að iðnaðarráðuneytið komi eftir atvikum jafnframt að þeirri vinnu.

Um 3. gr.

    Í 2. efnismgr. er lagt til að allur eignarhlutur ríkisins í Rafmagnsveitum ríkisins hf. verði lagður til Landsvirkjunar sem viðbótareigandaframlag ríkisins í Landsvirkjun. Með því verða Rafmagnsveitur ríkisins hf. dótturfélag Landsvirkjunar og í 100% eigu Landsvirkjunar. Gert er ráð fyrir að eignarhlutur ríkisins í félaginu (verðgildi hlutafjár) verði lagður til Landsvirkjunar miðað við bókfært verð eigin fjár að undangengnu mati, ef þurfa þykir, í árslok 2006.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að stjórnarmenn félagsins geti verið þrír til fimm samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Um þetta atriði vísast til athugasemda við 3. mgr. 1. gr.
    Í 4.–7. mgr. koma fram þau skilyrði sem eðlilegt þykir að setja vegna stöðu Landsvirkjunar á raforkumarkaðnum. Vísast í þessu efni til almennra athugasemda.

Um 4. gr.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er lagt til að framangreind skilyrði í 4.–7. mgr. 3. gr. laganna verði endurskoðuð fyrir árslok 2009 með hliðsjón af þróun samkeppni á þessu sviði. Rétt þykir að fjármálaráðherra, sem fer með eignarhlutinn í Landsvirkjun, hafi forgöngu um slíka endurskoðun og að iðnaðarráðuneytið komi eftir atvikum jafnframt að þeirri vinnu.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Rétt þykir að taka fram með skýrum hætti fyrir hvaða tíma flutningur á eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf. og Rafmagnsveitum ríkisins hf. skuli fara fram. Miðað er við að flutningurinn fari fram fyrir 1. júlí árið 2007.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 40/2001,
um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, og lögum nr. 25/2006,
um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að eignarhlutur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf. og Rafmagnsveitum ríkisins hf. verði lagður inn til Landsvirkjunar sem viðbótar- eigendaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Landsvirkjun mun eftir það fara með eignarhlut ríkisins í þessum fyrirtækjum. Með hliðsjón af samkeppnisaðstæðum eru í frumvarpinu skilyrði sem tryggja eiga aðskilnað í framleiðslu og sölu raforku. Þar er m.a. lagt til að starfsemi Orkubús Vestfjarða hf. og Rafmagnsveitna ríkisins hf. sem tengst hefur framleiðslu og sölu á raforku skuli vera falin sjálfstæðum sölufélögum sem einungis hafi þá starfsemi með höndum. Enn fremur skuli vera tryggt að fullur rekstrarlegur og stjórnunarlegur aðskilnaður verði á milli þessara sölufélaga og Landsvirkjunar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa aukin útgjöld í för
með sér fyrir ríkissjóð.