Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 535. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 889  —  535. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um niðurfellingu á meðlagsskuldum.

     1.      Hve margir einstaklingar hafa óskað eftir heimild til samninga um niðurfellingu á meðlagsskuldum að hluta eða öllu leyti eða lækkun á mánaðarlegum greiðslum á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, frá því að lögin voru sett, sundurliðað eftir árum?
    Á tímabilinu 1. júlí 1996 til 31. desember 2006 voru tekin fyrir á stjórnarfundum Innheimtustofnunar sveitarfélaga samtals 16.454 erindi frá meðlagsskuldurum og skiptast þau þannig á milli ára:.

Ár Fjöldi
1996 818
1997 1592
1998 1337
1999 1438
2000 1641
2001 1326
2002 1458
2003 1644
2004 1862
2005 1662
2006 1676

     2.      Hversu margar umsóknir hafa verið samþykktar á framangreindu tímabili, sundurliðað eftir árum?
    Nákvæm tölfræðileg greining á afgreiddum málum hefur ekki verið gerð enda eru niðurstöður með ýmsu móti. Þó eru til tölur um þriggja ára samninga, þ.e. samninga þeirra skuldara sem greitt hafa samfellt í þrjú ár og öðlast hafa möguleika á afskrift höfuðstóls. Hannað hefur verið eftirlitskerfi til að fylgjast með efndum á hinum fjölmörgu samningum sem stjórnin gerir við meðlagsgreiðendur.
    Heildarfjöldi afskrifaðra mála á tímabilinu er 841 og skiptist þannig:

Ár Fjöldi
1999 20
2000 90
2001 111
2002 120
2003 150
2004 105
2005 110
2006 135

     3.      Hvaða félagslegir erfiðleikar umsækjenda hafa haft áhrif á samþykkt framangreindra umsókna? Svar óskast sundurliðað eftir samþykktum umsóknum.
    Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga hefur byggt afgreiðslu mála á 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, eins og henni var breytt með lögum nr. 71/1996, og reglugerð nr. 491/1996. Í lögunum segir m.a.: „Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu skuldara á lægri upphæð en fellur til mánaðarlega þegar til skuldarinnar hefur verið stofnað sökum félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem af heilsufarsástæðum, ónógum tekjum, skertri starfsorku, mikilli greiðslubyrði, barnamergð eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Slíka samninga skal endurskoða reglulega og a.m.k. á sex mánaða fresti. Ef um áframhaldandi félagslega og fjárhagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara og stjórnin telur fulljóst að aðstæður skuldara séu þannig að hann geti eigi greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans, auk meðlaga sem falla til mánaðarlega, er stjórninni heimilt að afskrifa höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti. Heimild til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans er bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við samning skv. 1. málsl. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett í reglugerð.“ Ákvæði um framkvæmdina voru síðan sett í reglugerð nr. 491/1996 sem tók gildi 6. september 1996.
    Í samræmi við framangreint lagaákvæði tekur stjórn Innheimustofnunar tillit til félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem heilsufars, lágra tekna, skertrar starfsorku, skulda, ómegðar og annarra ástæðna sem skert hafa greiðslugetu skuldara. Tæmandi listi yfir þau vandkvæði sem um er að ræða liggur ekki fyrir og félagsfræðileg eða tölfræðileg úttekt í þessum efnum hefur ekki verið gerð.