Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 367. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 953  —  367. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun.

(Eftir 2. umr., 21. febr.)



1. gr.


     Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Til að sinna hlutverki sínu skv. 3. tölul. 1. mgr. er Orkustofnun heimilt að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun, þ.m.t. gagna um innflutning, geymslu og sölu á jarðefnaeldsneyti. Skylt er þeim sem stunda atvinnurekstur er varðar framangreint að afhenda stofnuninni nauðsynleg gögn innan frests sem hún tilgreinir. Í reglugerð skal kveða nánar á um tegund gagna, gæði þeirra og skilafrest.
    Sé gögnum ekki skilað innan tilgreinds frests er Orkustofnun heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Dagsektir geta numið 10–100 þús. kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar. Innheimtar dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.