Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 529. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 977  —  529. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði, uppsagnir og sveigjanleg starfslok.

     1.      Hvernig metur ráðherra stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði með sérstöku tilliti til atvinnuöryggis, samkeppnishæfni og möguleika á sí- og endurmenntun?
    Atvinnuþátttaka er mikil hjá öllum aldurshópum á Íslandi ólíkt því sem tíðkast í öðrum vestrænum samfélögum. Þróunina má m.a. rekja til áttunda áratugarins en þá var brugðist við miklu atvinnuleysi meðal ungs fólks með því að auðvelda starfsmönnum að hverfa af vinnumarkaði og hefja töku lífeyris. Minnkandi atvinnuþátttaka er samfélagslegt vandamál þar sem sífellt færri einstaklingar standa undir þjóðarframleiðslunni og velferðarkerfinu sem verður æ dýrara eftir því sem þjóðir eldast. Nú eru Evrópuríkin að bregðast við þróuninni sem af þessu hlaust en hins vegar bendir ýmislegt til þess að við Íslendingar munum standa frammi fyrir svipuðum vanda eftir nokkur ár verði ekkert að gert. Helstu ástæður þess er breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, auknir lífsmöguleikar, velmegun og tilkoma séreignarlífeyrissjóðanna.
    Kannanir sýna að það dregur úr þátttöku í sí- og endurmenntun með aldri og dregur það án efa úr samkeppnishæfni þeirra sem eldri eru. Vinnumarkaðurinn krefst sífellt meiri þekkingar og hraðari tækniþróun kallar á öflugri sí- og endurmenntun. Menntun er ekki lengur átaksverk heldur er hún orðin æviverk og símenntun er einn af þeim þáttum sem viðheldur færni fólks á vinnumarkaði. Rannsóknir benda hins vegar til að sí- og endurmenntunarþátturinn sé alls ekki einsleitur. Verulegur munur kemur fram eftir menntunarstigi. Lítill munur er á aldurshópum hvað varðar þátttöku í sí- og endurmenntun þegar litið er á þá sem hafa mesta menntun, en verulegur munur meðal þeirra sem minnsta menntunina hafa.
    Erlendar rannsóknir og kannanir sýna að aldurstengd mismunun á vinnumarkaði er staðreynd. Viðhorfið til eldra fólks er einkum að það eigi erfiðara með að tileinka sér nýja hluti og taka breytingum. Þetta hafi áhrif á framgang eldra starfsfólks á vinnustað og birtingarmyndirnar eru einkum þær að þeir sem eldri eru fá ekki að taka fullan þátt í menntun/endurmenntun og fá sjaldnar ný verkefni og ögrandi viðfangsefni en þeir sem yngri eru.
    Niðurstöður úr könnun sem unnin var á Íslandi árið 2004 gáfu ekki einhlítt svar við spurningum um aldurstengda mismunun hérlendis. Þegar fólk var spurt beint um eigin reynslu sagðist það ekki hafa fundið fyrir mismunun en margir kváðust hins vegar þekkja til fólks á sínum vinnustað sem hefði orðið fyrir slíkri mismunun. Í könnun sem Samtök atvinnulífsins létu gera á árinu 2004 meðal félaga sinna kom fram að eldra fólk er ekki talið síðri starfskraftur en yngra fólk. Það er sjaldnar frá vinnu vegna veikinda og er jákvæðara í garð vinnunnar en yngra fólk. Erlendar rannsóknir sýna sömu niðurstöður.

     2.      Er langtímaatvinnuleysi algengara hjá miðaldra og eldra fólki en þeim sem yngri eru og ef svo er, hvaða úrræði sér ráðherra til að bæta úr því?
    Á Íslandi er atvinnuleysi meðal miðaldra og eldra fólks ekki meira en í öðrum aldurshópum. Hins vegar er langtímaatvinnuleysi meira viðvarandi hjá þessum hópi sem bendir til þess að fólki sem komið er yfir miðjan aldur og missir vinnuna reynist erfiðara að fá vinnu að nýju en fólki sem yngra er.
    Á vegum félagsmálaráðuneytisins starfar starfshópur sem gengur undir nafninu „50 plús“ og hefur það hlutverk að kanna stöðu eldra fólks á vinnumarkaði og koma með tillögur um úrbætur þar sem þeirra er þörf. Hópurinn var skipaður til fimm ára og unnið er að því að kanna stöðu fólks á vinnumarkaði sem orðið er eldra en 50 ára. Þegar niðurstaða þeirrar könnunar liggur fyrir mun hópurinn móta tillögur um aðgerðir og úrræði fyrir þennan aldurshóp á íslenskum vinnumarkaði. Starfshópurinn hefur jafnframt staðið fyrir opinberri umræðu um stöðu eldra fólks á vinnumarkaði.

     3.      Hver er afstaða ráðherra til þess að ætíð sé skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns?
    Þessi liður snýst um afstöðu til fullgildingar samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Þegar hefur verið svarað tveimur fyrirspurnum um sama efni á yfirstandandi þingi (mál nr. 143 og 495). Í svörum við þeim hefur komið fram að málið hefur lengi verið ágreiningsefni fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.
    Stjórnvöld hafa ekki viljað beita sér fyrir fullgildingu samþykktar ILO nr. 158 í fullri andstöðu annars aðilans á vinnumarkaðnum. Samtök atvinnulífsins hafa eindregið lagst gegn fullgildingu með þeim rökum að með henni og framkvæmd samþykktarinnar dragi úr sveigjanleika og hreyfanleika á íslenskum vinnumarkaði. Hreyfanleiki, sveigjanleiki og öryggi eru aðalviðfangsefni vinnumála um þessar mundir. Alþýðusamband Íslands hefur lagt ríka áherslu á að samþykktin verði fullgilt og hefur fært fram sem rök að meiri harka sé á vinnumarkaðnum gagnvart fólki sem stendur höllum fæti vegna skorts á færni eða heilsu eða af öðrum ástæðum. Félagsmálaráðuneytið hefur haft að leiðarljósi í þessu máli sem og öðrum er varða vinnumarkaðinn að ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins. Í því skyni var Rannsóknarsetri í vinnurétti og jafnréttismálum við Háskólann á Bifröst falið að semja tillögu að leiðbeiningarreglum varðandi uppsagnir starfsmanna í anda samþykktar ILO nr. 158. Þegar tillagan liggur fyrir verður hún lögð fyrir samstarfsnefnd félagsmálaráðuneytisins um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins til frekari umfjöllunar.

     4.      Hvað hefur ríkisstjórnin aðhafst til að auðvelda sveigjanleg starfslok?
    Um þetta málefni hefur m.a. fjallað nefnd sem starfaði á vegum forsætisráðuneytisins og skilaði af sér skýrslu í október 2002. Um efnisleg svör við fyrirspurninni er því vísað á forsætisráðuneytið.