Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 568. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1130  —  568. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um starfstengda eftirlaunasjóði.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Rögnvaldsson og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti. Nefndinni hafa einnig borist umsagnir um frumvarpið.
    Með frumvarpinu er kveðið á um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/41/EB, frá 3. júní 2003, um starfsemi og eftirlit með lögaðilum sem sjá um starfstengd eftirlaun. Tilskipunin nær til lögaðila sem hafa heimild til að taka á móti iðgjöldum til myndunar og útgreiðslu eftirlaunaréttinda, starfa á sjóðsmynduðum grunni og eru aðskildir frá þeim fyrirtækjum sem greiða iðgjöld til þeirra. Frá þessu almenna gildissviði eru hins vegar mikilvægar undantekningar sem kveðið er á um í tilskipuninni. Samhliða frumvarpinu er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem tekur af öll tvímæli um skattlagningu greiðslna í og úr starfstengdum eftirlaunasjóðum sem og skattlagningu sjóðanna sem slíkra.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu í samræmi við umsögn Fjármálaeftirlitsins um það, þ.e. að við frumvarpið bætist þrjú ákvæði sem fjalli um varasjóð, upplýsingaskyldu og eftirlit. Slík ákvæði er að finna í tilskipuninni en voru ekki tekin upp í frumvarpið. Á það má benda að um þessar mundir eru engir slíkir sjóðir starfræktir hér á landi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. mars 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Birkir J. Jónsson.


Lúðvík Bergvinsson.



Birgir Ármannsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Ásta Möller.



Sæunn Stefánsdóttir.


Ögmundur Jónasson.