Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 522. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1132  —  522. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á samkeppnislögum, nr. 44/2005.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Andrés Magnússon og Einar Örn Davíðsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Helga Magnús Gunnarsson, saksóknara efnahagsbrota, Ásgeir Einarsson og Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Guðlaug Stefánsson, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Áslaugu Árnadóttur, Jónínu S. Lárusdóttir og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti. Nefndinni bárust einnig umsagnir um frumvarpið.
    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði (þskj. 789, 523. mál). Frumvörpin byggjast á starfi nefndar sem forsætisráðherra skipaði um viðurlög við efnahagsbrotum en formaður nefndarinnar var dr. Páll Hreinsson.
    Með frumvarpinu eru einkum lagðar til breytingar á IX. kafla samkeppnislaga sem fjallar um viðurlög við brotum á lögunum.Verður hér gerð grein fyrir helstu breytingum í stuttu máli. Er í fyrsta lagi lagt til að refsiábyrgð einstaklinga vegna brota gegn samkeppnislögum verði afmörkuð nánar. Í öðru lagi er lagt til að sett verði ítarlegra ákvæði um heimildir Samkeppniseftirlitsins til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja vegna brota gegn samkeppnislögum. Í þriðja lagi er lagt til að brot einstaklinga gegn samkeppnislögum sæti einungis opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Í fjórða lagi eru lagðar til ítarlegri niðurfellingarheimildir en eru í gildandi lögum en með niðurfellingarheimildum er átt við reglur sem heimila lækkun eða niðurfellingu á stjórnvaldssekt vegna samvinnu þess aðila sem hefur framið lögbrot. Í fimmta lagi er lagt til að Samkeppniseftirlitið geti lokið málum með sátt. Í sjötta lagi er lagt til að kveðið verði á um að ekki sé heimilt að nota upplýsingar, sem fyrirsvarsmaður fyrirtækis hefur veitt Samkeppniseftirlitinu, sem sönnunargagn í opinberu máli sem höfðað er gegn honum vegna brota gegn ákvæðum laganna.
    Hvað varðar refsiábyrgð einstaklinga vegna brota gegn samkeppnislögum er með frumvarpinu lagt til að tiltekin samráðsbrot verði lýst refsiverð, sbr. 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Er einnig lagt til að sú háttsemi sem miðar að því að spilla sönnunargögnum og torvelda rannsókn á samkeppnisbrotum verði lýst refsiverð. Þá er lagt til að ákvæði samkeppnislaga um sektir eða fangelsi nái einungis til einstaklinga og að fyrirtæki sæti stjórnvaldssektum vegna brota gegn samkeppnislögum. Er lagt til að refsihámark vegna brota einstaklinga verði hækkað úr fjórum árum í sex.
    Í 2. mgr. 2. gr. er mælt fyrir um skyldu Samkeppniseftirlitsins til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja vegna brota á samkeppnislögum. Í 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. er lagt til sérstakt ákvæði um álagningu stjórnvaldssekta vegna brota samtaka fyrirtækja. Ákvæðið er svohljóðandi: „Ef brot samtaka fyrirtækja tengjast starfsemi aðila þeirra skal fjárhæð sektar ekki vera hærri en 10% af heildarveltu hvers fyrirtækis sem á fulltrúa í stjórn samtakanna.“ Nefndin telur óheppilegt að tengja sektarfjárhæð og -innheimtu við setu í stjórn líkt og lagt er til með þessu ákvæði. Fólk er kosið í stjórn sem einstaklingar en ekki sem fulltrúar einhverra fyrirtækja auk þess sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu að fyrirtæki þyrftu að sanna sakleysi sitt, þ.e. að hafa ekki tekið þátt í samráði samtaka, til að sleppa við sektir. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ef samtökin greiddu ekki sektina væri unnt að krefja hvert það fyrirtæki sem átti fulltrúa í stjórn samtakanna um greiðslu sektarinnar án þess að sök þeirra væri sönnuð. Leggur nefndin því til breytingu á frumvarpinu á þann veg að fjárhæð sektar nemi ekki hærri fjárhæð en 10% af heildarveltu hvers aðila sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna nær til. Lagt er til að heimild Samkeppniseftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir falli niður þegar sjö ár eru liðin frá því að háttsemi lauk en þetta tímamark miðast við varðveislu bókhaldsgagna, sbr. lög um bókhald, nr. 145/1999.
    Eitt af verkefnum nefndar um viðurlög við efnahagsbrotum var að fjalla um hlutverk eftirlitsaðila og verkaskiptingu þeirra á milli, þar á meðal skil milli annars vegar þeirra sem er heimilt að beita stjórnvaldssektum og hins vegar lögreglu og ákæruvalds. Markmið tillagna nefndarinnar lýtur meðal annars að því að eyða óvissu um verkaskiptingu. Í 5. gr. frumvarpsins eru sett ákvæði um verklag við rannsókn mála sem beinast bæði gegn einstaklingum og fyrirtækjum og um samskipti milli samkeppnisyfirvalda og lögreglu og ákæruvalds. Lagt er til að brot gegn samkeppnislögum sæti einungis opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Hér er um að ræða ákveðna takmörkun á valdi ríkissaksóknara og lögreglu til rannsóknar sakamála, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. og 2. málsl. 5. mgr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála. Nefndin telur mikilvægt að Samkeppniseftirlitið gæti samræmis við afgreiðslu mála og gæti að jafnræði sakborninga.
    Í 2. mgr. 5. gr. er kveðið á um að varði meint brot á lögunum bæði stjórnvaldssektum og refsingu meti Samkeppniseftirlitið m.t.t. grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða hvort sá hluti málsins sem varðar refsiábyrgð einstaklings skuli kærður til lögreglu. Nefndin tekur undir það sjónarmið sem fram kom í minnisblaði saksóknara efnahagsbrota til nefndarinnar að ekki komi til greina að Samkeppniseftirlitið kæri til lögreglu mál þar sem meint brot varða einungis atvik, eitt eða fleiri, sem bersýnilega eru framin af gáleysi. Tilgangur ákvæðisins er því sá að ljóst sé að aðeins alvarlegustu málin, þau sem framin eru af ásetningi eða vítaverðu gáleysi, verða kærð til lögreglu.
    Í 3. mgr. 5. gr. er kveðið á um heimild Samkeppniseftirlitsins til að falla frá kæru á hendur einstaklingi hafi hann, eða fyrirtæki sem hann er í stjórn í eða starfar fyrir, haft frumkvæði að því að veita Samkeppniseftirlitinu upplýsingar eða gögn. Við umfjöllun nefndarinnar um þetta atriði kom fram að ákvæðið mætti skilja sem svo að Samkeppniseftirlitinu sé heimilt að afturkalla kæru sem send hefur verið lögreglu með þeim afleiðingum að mál verði fellt niður hjá lögreglu. Nefndin leggur til að orðalag þessa ákvæðis verði breytt í þá veru að Samkeppniseftirlitið geti ákveðið að kæra ekki einstakling sem hefur haft frumkvæði að því að veita upplýsingar eða gögn.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og lúta að verklagi byggjast á því markmiði frumvarpsins að samhæfa hið almenna viðurlagakerfi og viðurlagakerfi eftirlitsstofnana þegar bæði refsing og stjórnsýsluviðurlög liggja við broti. Með þessu er stefnt að því að mál tiltekins aðila sé ekki rannsakað á sama tíma bæði hjá stjórnvaldi og hjá lögreglu.
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. mars 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Dagný Jónsdóttir.



Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson.


Drífa Hjartardóttir.



Sæunn Stefánsdóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.