Verðbréfaviðskipti

Miðvikudaginn 06. júní 2007, kl. 13:54:45 (0)


134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

verðbréfaviðskipti.

7. mál
[13:54]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þremur frumvörpum til innleiðingar á tveimur tilskipunum Evrópuþingsins og Evrópuráðsins, tilskipun um markaði með fjármálagerninga og tilskipun um gegnsæi. Þessi frumvörp eru frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti, frumvarp til laga um kauphallir og frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl.

Frumvörpum þessum er ætlað að innleiða hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins um markaði með fjármálagerninga sem birt var í Stjórnartíðindum EB 30. apríl 2004 og tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í apríl 2005. Tilskipunina bar að innleiða í landslög fyrir 20. janúar sl. og skulu reglur hennar taka gildi 1. nóvember nk.

Áður en ég fer í efni sjálfrar tilskipunarinnar er rétt að líta til bakgrunns þessara mála sem er sá að umbreytingin á íslensku atvinnulífi á undanförnum árum hefur m.a. leitt til mikillar framrásar ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi og þar á meðal fjármálastarfsemi. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefur lýst í stjórnarsáttmála sínum ríkum vilja til að slík starfsemi vaxi mjög hér á landi og sótt verði inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði. Þess vegna er mjög brýnt að innleiða þær tilskipanir sem hér um ræðir í dag til að íslenskur fjármálamarkaður fái tíma til að laga sig að nýju umhverfi og breyttum reglum af því að tilskipunin tekur gildi alls staðar í Evrópu þann 1. nóvember eins og ég nefndi áðan og mun nefna enn frekar á eftir þegar ég fer efnislega í málið.

En áfram um bakgrunninn. Í árslok 2006 má áætla að hlutdeild fjármálafyrirtækja hafi numið um 10% af landsframleiðslu, staðið á bak við einn þriðja, að áætlað er, af hagvexti undanfarinna ára þannig að umfang fjármálastarfsemi og fjármálaþjónustu á Íslandi er orðið mjög mikið, og verðmæti útflutningsþekkingar og þjónustu hafi numið um 60 milljörðum á því ári. Í fyrra komu um 52% af tekjum viðskiptabankanna erlendis frá sem undirstrikar það hve mikilvægt er að þessi lög taki hér gildi þannig að þeir njóti sambærilegrar stöðu og fjármálastarfsemi erlendis. Þótt erlendar tekjur vátryggingafélaga séu enn þá ekki svipur hjá sjón miðað við viðskiptabankana stefnir þróunin þar í sömu átt og hjá viðskiptabönkunum.

Þessar staðreyndir sýna svo ekki verður um villst að útrás fjármálageirans hefur orðið mjög afgerandi og hefur mikla þýðingu í efnahagslífi okkar og gerir ekkert annað en að margfaldast og stigvaxa á komandi árum ef við byggjum myndarlega undir þessa starfsemi í atvinnulífi okkar.

Innganga Íslands í Evrópska efnahagssvæðið 1994 og innleiðing Evrópureglna í íslenska löggjöf gerðu EES-löndin að mögulegum heimamarkaði íslenskra fyrirtækja og þeir möguleikar, sem sameiginlegar reglur sköpuðu, hafa síðan verið nýttir með miklum myndarbrag og hafa m.a. orðið til hinnar miklu útrásar okkar fjármála- og þjónustufyrirtækja á síðustu árum sem er nokkuð einstök í sinni röð og þar er langmesti vöxtur einstakra greina á Íslandi á seinni tímum. Þeir möguleikar sem sameiginlegar reglur sköpuðu hafa skipt þarna miklu máli og að sjálfsögðu skiptir þar meginmáli að á leikreglum viðskiptalífsins sé gagnkvæm þekking og skilningur og að fjármálakerfi og fjármálamenning á Íslandi njóti trausts og góðs álits annars staðar frá. Það er sameiginlegt verkefni markaðarins og opinberra aðila að byggja upp og viðhalda því orðspori sem svo mikilvægt er til að slík starfsemi fái skotið rótum og eflist á erlendri grundu. Þar liggur að sjálfsögðu til grundvallar orðspor og undirstaða fjármálastarfseminnar hér á landi þannig að hún fái notið sín erlendis og skjóti rótum þar.

Í stjórnarsáttmálanum segir að tryggt skuli að íslensk fyrirtæki búi við bestu samkeppnis- og rekstrarskilyrði sem völ er á. Af því leiðir að nauðsynlegt er að innleiða tímanlega hér á landi þær gerðir ESB sem að fjármálaþjónustu snúa til að lög og reglur um fjármálageirann á Íslandi verði í meginatriðum sambærileg við það sem gildir í öðrum EES-löndum frá og með 1. nóvember nk. Þess vegna mæli ég nú fyrir þessum þremur frumvörpum til innleiðingar á þeirri tilskipun um fjármálagerninga, sem í daglegu tali hefur gengið undir nafninu MiFID-tilskipunin, sem kemur til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu þann 1. nóvember nk. Væri örðugt að bíða haustþings til að ljúka innleiðingunni vegna hins skamma tíma sem íslenskur fjármálamarkaður hefur til að laga sig að hinu breytta umhverfi.

Inntak frumvarpanna þriggja sem hér eru til umræðu eru breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl., um verðbréfaviðskipti og um kauphallir. Fyrrnefnd tilskipun er hluti af skilvikrum innri markaði um fjármálaþjónustu, svo sem styttri viðbragðstíma, skilvirkara eftirliti og öflugri neytendavernd. Markmiðið með tilskipuninni er að skapa skilvirkari innri markað en verið hefur og efla hlutverk Fjármálaeftirlitsins.

Frumvörpum þessum er jafnframt ætlað að innleiða hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins um gagnsæi. Tilskipunin var birt í Stjórnartíðindum EB 31. des. 2004 og var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar frá 30. september 2005 og bar að innleiða hana hér í landslög fyrir 20. janúar sl. Þessi mál hafa að geyma mikilvægar samevrópskar reglur á sviði verðbréfaviðskipta eins og áður hefur verið nefnt og bar að innleiða hér fyrr á þessu ári. Ákvæði tilskipunar um markaði með fjármálagerninga skuli taka gildi á Evrópska efnahagssvæðinu 1. nóvember nk.

Frumvörp þessi voru lögð fram á síðasta þingi en komu ekki til efnislegrar umræðu þá. Mikilvægt er að innleiðingu þessara gerða verði hraðað eins og kostur er og þar liggja ýmsar ástæður að baki sem skýra það að málin koma inn á sumarþingið sem er að störfum nú og stendur kannski ekki lengi fram eftir sumri, mikilvægt er að freista þess að taka málin fyrir núna og sjá hver afdrif þeirra verða.

Í fyrsta lagi eru hagsmunir íslenskra fjármálafyrirtækja miklir af því að frekari töf verði ekki á innleiðingu þessara gerða. Íslensku fjármálafyrirtækin gætu misst af þeim tækifærum sem felast í því að aðlagast nýjum reglum á tilsettum tíma. Þá gæti slík töf torveldað þeim að starfa óhindrað á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í öðru lagi er mikilvægt að hraða vinnu við frumvörp þessi til að íslenska ríkið standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en mikil áhersla hefur verið lögð á það af hálfu Evrópusambandsins að tímafrestir til innleiðinganna standist.

Í þriðja lagi er mikilvægt fyrir trúverðugleika íslensks fjármálamarkaðar að lagaumhverfi hér á landi sé ávallt með því besta sem gerist í Evrópu.

Viðskiptaráðuneytið sendi frumvörp þessi til umsagnar hagsmunaaðila og annarra umsagnaraðila í vor. Umsagnir hafa þegar borist og er óhætt að segja að þær séu jákvæðar og aðilar á verðbréfamarkaði leggi áherslu á mikilvægi frumvarpanna.

Tilskipun um markaði með fjármálagerninga hefur að geyma reglur um starfsleyfi fjármálafyrirtækja til að stunda verðbréfaviðskipti og kauphalla til að reka skipulega verðbréfamarkaði. Þá er kveðið á um innra skipulag fjármálafyrirtækja og viðskiptahætti þeirra gagnvart viðskiptavinum. Þar er að finna ákvæði um upplýsingagjöf, um tilboð og viðskipti með verðbréf og gilda þær reglur um skipulega verðbréfamarkaði, markaðstorg fjármálagerninga svo og fjármálafyrirtæki. Þá er þar að finna ákvæði um tilkynningarskyldu fjármálafyrirtækja um viðskipti með fjármálagerninga. Í lok tilskipunarinnar eru ákvæði um eftirlit og samvinnu eftirlitsyfirvalda innan EES-svæðisins.

Gegnsæistilskipunin mælir einkum fyrir um samræmingu reglna um birtingu reglulegra upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skiptanlegum verðbréfamarkaði. Þá fjallar hún um birtingu upplýsinga um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar eða svokallaðar flöggunarreglur. Þær reglulegu upplýsingar sem útgefendum verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði ber að birta opinberlega samkvæmt frumvarpinu, eru eftir atvikum ársreikningur, árshlutareikningur vegna fyrstu sex mánaða og greinargerð frá stjórn.

Þá vík ég, virðulegi forseti, að frumvarpi um verðbréfaviðskipti en með því er gerð tillaga að nýjum lögum um verðbréfaviðskipti sem leysi af hólmi núgildandi lög um verðbréfaviðskipti. Eins og áður sagði er frumvarp þetta lagt fram samhliða frumvarpi til laga um kauphallir og frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki almennt. Lagt er til að lögin skiptist í alls 16 kafla en þar af eru 6 kaflar sem eru að mestu samhljóða núgildandi lögum. Í frumvarpinu eru gerðar auknar kröfur til fjármálafyrirtækja með leyfi til verðbréfaviðskipta, hvernig þau skipuleggja rekstur sinn og til viðskiptahátta þeirra gagnvart viðskiptavinum sínum. Er kveðið á um auknar kröfur til upplýsingagjafar fjármálafyrirtækja til viðskiptavina og skyldu þeirra til að meta hvort verðbréfaviðskipti séu við hæfi viðskiptavina. Frumvarpið hefur að geyma ítarlegar reglur um kvaðir á fjármálafyrirtæki, að ná bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína, og kveðið er á um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja um tilboð og viðskipti, bæði gagnvart markaðnum og Fjármálaeftirlitinu. Þá er að finna nýjar reglur um markaðstorg fjármálagerninga og í frumvarpinu er einnig gerðar tillögur um auknar kröfur um upplýsingagjöf útgefenda verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og auknar kröfur um flöggun í kjölfar breytinga á verulegum hlut á atkvæðisrétti.

Með frumvarpinu um kauphallir er gerð tillaga að nýjum lögum um kauphallir sem leysi af hólmi núgildandi lög um starfsemi kauphalla og skipulega tilboðsmarkaði. Í frumvarpinu er m.a. lagt til að skipulegur tilboðsmarkaður verði lagður af, hugtakið kauphöll verði notað yfir hlutafélag sem rekur skipulegan verðbréfamarkað. Lagt er til að skýr greinarmunur verði gerður á opinberri skráningu og töku fjármálagerninga til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Í frumvarpinu er jafnframt gerð tillaga að nýjum reglum um gagnsæi á skipulegum verðbréfamarkaði. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið muni hér eftir veita og afturkalla starfsleyfi skipulegra verðbréfamarkaða. Þá er lagt til að hægt verði með tilteknum skilyrðum að taka verðbréf til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis útgefanda.

Með frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki er gerð tillaga að breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í frumvarpinu er m.a. lagt til að fjárfestingar, ráðgjöf og rekstur markaðstorgs fjármálagerninga verði starfsleyfisskyld starfsemi. Lagt er til að gerðar verði mismunandi eiginfjárkröfur til verðbréfafyrirtækja með hliðsjón af ólíkum starfsheimildum þeirra. Lagt er til að breytingar verði gerðar á undanþágum frá starfsleyfisskyldri starfsemi og lagt til að Fjármálaeftirlitið veiti kauphöll leyfi til að reka markaðstorg fjármálagerninga. Þá er lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með tilteknum þáttum varðandi starfrækslu erlendra útibúa á sviði verðbréfasviðskipta og hafi heimildir til að grípa til tiltekinna úrræða vegna þess eftirlits. Loks eru lögð til fyllri ákvæði varðandi hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og tilkynningarskyldu fjármálafyrirtækja um breytingar á skipan slíkra aðila.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða viðamikil frumvörp sem varða mikilvæga hagsmuni eins og komið var inn á áðan og er ekki tóm hér til að rekja miklu frekar efni þeirra. Ég hef því farið yfir mikilvægustu þættina og mælt fyrir frumvörpunum þremur.