Almannatryggingar og málefni aldraðra

Miðvikudaginn 06. júní 2007, kl. 14:35:33 (0)


134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:35]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Í aðdraganda alþingiskosninganna í síðasta mánuði voru málefni eldri borgara mjög á dagskrá eins og öllum er vel kunnugt um. Mikil og almenn umræða fór fram í fjölmiðlum um þennan málaflokk, einstaklingar og fjöldasamtök létu í sér heyra á opinberum vettvangi og stjórnmálaflokkarnir, flestir ef ekki allir, lögðu áherslu á úrbætur í málefnum sem snúa að eldri borgurum. Um tíma stóð jafnvel til að efna til nýrra framboða sérstaklega, þá í nafni eldri borgara, þannig að það var vissulega mikill grundvöllur og full ástæða fyrir hv. Alþingi og hæstv. ríkisstjórn til að taka mið af þessum umræðum og þeim hljómi sem barst úr grasrótinni.

Það fer heldur ekkert á milli mála að aðgerða var og er þörf til að rétta hlut aldraðra í þjóðfélaginu. Það er almennur útbreiddur skilningur á slíkum úrbótum meðal almennings og stjórnmálaflokkanna. Hann kemur líka fram í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar sem mynduð var í kjölfar kosninganna þar sem lögð er sérstök áhersla á að málefni annars vegar barna og unglinga og hins vegar eldri borgara hafi forgang. Þessari yfirlýsingu fagna ég fyrir mitt leyti og tel að svo sannarlega sé kominn tími til að sýna eldri kynslóðinni viðeigandi virðingu. Er þá jafnt átt við aðbúnað og þjónustu í elli- og/eða dvalarheimilum, heimaþjónustu og hjúkrun og umönnun á sjúkrastofnunum, og sömuleiðis og ekki síst að því er varðar lífeyri, bætur og skattaumhverfi þessa fólks. Gamla fólkið á ekki að vera afgangsstærð, skilið eftir á köldum klaka þegar starfsævinni er lokið og þetta fólk hefur skilað sínu dagsverki. Það á betra skilið og það á það inni hjá þjóðinni að njóta ævikvöldsins.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir og er til afgreiðslu er góðra gjalda vert og spor í rétta átt. Ég vil árétta og undirstrika að ég lít svo á að þetta skref sem nú er stigið sé aðeins byrjunin á þeirri vegferð af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að gera mun betur og meir í málefnum eldri borgara. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar, eins og kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra, kveður á um það og það er hljómgrunnur fyrir því í stjórnarflokkunum báðum, og reyndar held ég líka í öllum stjórnmálaflokkunum og úti í öllu samfélaginu. Okkur er hins vegar öllum ljóst að það krefst skoðunar og meiri tíma að samræma þetta samspil eða þau tengsl sem eru á milli lífeyris, almannabóta og skatta og það þarf að skoða tengingu ellilífeyris fyrir tekjur maka, það þarf að skoða skattleysismörk, frítekjumörk, grunnlífeyri og tengsl almannatryggingakerfisins við lífeyrissjóðstekjur einstaklinga. Þetta er allt mjög flókið dæmi, svo flókið að jafnvel eru fæstir sem skilja það. Ég hef þess vegna fullan skilning á því að stjórnvöld þurfi að fara vel ofan í saumana á þessu kerfi öllu áður en tillögur eru lagðar fram til að skynsamleg niðurstaða fáist. Ég treysti því að sú vinna hefjist sem allra fyrst og skili sér fljótt, og strax nú í haust í nýjum og fleiri frumvörpum sem taka á þeim augljósa vanda og þeim kjörum sem snúa að eldri borgurum þessa lands.