Almannatryggingar og málefni aldraðra

Miðvikudaginn 06. júní 2007, kl. 14:56:52 (0)


134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:56]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar eru töluvert mikil fyrirheit hvað varðar úrbætur í málefnum aldraðra og öryrkja og er það vel. Það voru því miklar væntingar sem lágu í loftinu þegar kynnt var að nú skyldi stigið fyrsta skrefið í þá átt sem þar var lýst — en jafnframt nokkur vonbrigði sem fylgja því að líta þetta plagg hér augum. Einkum tel ég svo vera fyrir öryrkja.

Það sem vekur athygli mína er að það er ekkert fyrir þann hóp sem er 67–70 ára sem er hópur sem er alla jafna betur í stakk búinn til að afla sér atvinnutekna en hópurinn sem er 70 ára og eldri. Vegna þess að hv. þm. Ásta Möller vakti athygli á því að þetta frumvarp er í samræmi við kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar, ekki Samfylkingarinnar, þá spyr ég: Af hverju horfði Sjálfstæðisflokkurinn ekki í kosningastefnu sinni og í þessu frumvarpi til þess hóps sem er 67–70 ára?