Almannatryggingar og málefni aldraðra

Miðvikudaginn 06. júní 2007, kl. 15:05:00 (0)


134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[15:05]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi skilmerkilegu svör. Ég hefði sjálfur talið mun hyggilegra að fara með þessar greiðslur beint í gegnum almannatryggingakerfið en blanda ekki lífeyrissjóðunum inn í það.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru konur sem standa höllustum fæti í þessu máli og það er mjög gott markmið að tryggja þeim, þ.e. þeim konum sem hafa verið heimavinnandi húsmæður helftina af ævi sinni, að tryggja þeim lífeyri á við karlmenn sem hafa unnið alla sína starfstíð úti og áunnið sér fullan lífeyrisrétt eins og lög um lífeyrissjóði mæla fyrir um, þ.e. að eftir 42 ára starfstíma þá ná launamenn 60% af launum sínum. Það er viðmiðunin.

Þetta er mjög gott markmið. Ég hygg samt að mun æskilegra sé að fara með þetta beint í gegnum almannatryggingakerfið en ekki að blanda frjálsum lífeyrissjóði þar inn.