Aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna

Fimmtudaginn 07. júní 2007, kl. 12:33:26 (0)


134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[12:33]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að hvetja til ræðuskyldu hér en furðaði mig samt á því að aðeins einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins sæi ástæðu til að tjá sig um málið. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal kærlega fyrir að lýsa skoðun sinni og fagna þessari umræðu um fæðingarorlofið. Það sem ég velti fyrir mér og velti upp í ræðu minni var hvort ekki væri ástæða til að horfa til aukins sveigjanleika í kerfinu — þó að mér sé fullljóst um þau jafnréttissjónarmið sem lágu til grundvallar hugmyndinni um fæðingarorlofið — sérstaklega þegar kemur að einstæðum foreldrum, af því að þar vitum við að aðstæður eru erfiðar og þar höfum við auðvitað heyrt að fólk veltir vöngum yfir þessu tímabili frá sex mánaða aldri og svo t.d. ef lengja ætti fæðingarorlofið, hvort sú lenging mundi nýtast að einhverju leyti einstæðum foreldrum. Ég vil kalla eftir umræðu um þau mál.