Tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi

Miðvikudaginn 16. janúar 2008, kl. 15:14:14 (3592)


135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.

322. mál
[15:14]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða sem við tökum hér um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að tryggja umferðaröryggi, það þarf að auka og bæta aðkomu að borginni og leiðir út úr henni og þar er það Sundabrautin sem við ræddum áðan og það er tvöföldun Vesturlandsvegarins. Það er rétt sem bent hefur verið á að þetta er mjög varasamur vegur og hættulegur oft og tíðum og hann þarf að tvöfalda. Við verðum að tryggja að fjölmennasta svæðið hér á landi búi við sómasamlegar samgöngur. Það má kannski segja að þingmenn hafi verið of værukærir hvað varðar aukna áherslu á höfuðborgarsvæðið. Tími höfuðborgarsvæðisins er kominn, við verðum að setja samgöngumál á þessu svæði í forgang.