Vernd lögreglumanna og refsingar við líkamsárásum

Fimmtudaginn 17. janúar 2008, kl. 10:52:25 (3615)


135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

vernd lögreglumanna og refsingar við líkamsárásum.

[10:52]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin. Það er spurning í ljósi þeirra staðreynda sem nú liggja fyrir í þjóðfélaginu hvort ákvæði 106. gr., sem ekki hefur reynt á fyrir dómstólum eftir því sem ég best veit, eru nægjanleg vernd eða hvort Alþingi þarf að taka þessi sjónarmið til frekari skoðunar vegna þess að svo virðist sem jafnvel sé verið að reyna að beita ógnun gagnvart lögreglu til að reyna að koma í veg fyrir eðlilega rannsókn á máli.

Mig langar til að spyrja í framhaldi af þessu og ég velti því fyrir mér að miðað við það að fyrir liggur að refsingar við alvarlegum líkamsrárásum eru mjög vægar á Íslandi, er þá ekki nauðsynlegt að setja ákveðna óundanþæga lágmarksrefsingu vegna alvarlegra líkamsárása? Ég minnist þess þegar þáverandi dómsmálaráðherra flutti ræðu við vígslu nýja Hæstaréttarhússins, dómshús Hæstaréttar, talaði hann um að herða bæri viðurlög við líkamsárásum. Það hefur ekki orðið enn en verður væntanlega ef (Forseti hringir.) Alþingi sendir slík skilaboð.