Húsakostur fangelsa og lögreglunnar

Fimmtudaginn 17. janúar 2008, kl. 10:56:24 (3618)


135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

húsakostur fangelsa og lögreglunnar.

[10:56]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um Litla-Hraun og sölu á landi þar, þá er það svo að það eru að takast samningar á milli ráðuneytanna og sveitarstjórnarinnar í Árborg um það mál. Ég tel að þar muni fást fjármunir til þess að fara í framkvæmdir á Litla-Hrauni og það liggja fyrir áform um að ráðast í að að reisa sérstakt móttökuhús og betri aðstöðu til að sinna þeim hlutum sem falla undir fyrsta áfanga við uppbyggingu á Litla-Hrauni.

Það hefur komið í ljós varðandi Hólmsheiðina að eftir að menn ákváðu að kanna hvort þar væri unnt að leggja flugvöll þá virðast lóðamál þess fangelsis sem við höfðum í huga að reisa þar vera í einhverju uppnámi af hálfu skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar. Það er mál sem þarf að leysa og fara sérstaklega yfir og kom okkur í opna skjöldu í ráðuneytinu og öðrum sem unnið hafa að þessu máli að það séu einhver vandamál varðandi þá lóð. En það þarf að klára það til að átta sig á hvort þar sé í raun og veru rými til að reisa fangelsi miðað við önnur áform sem yfirvöld í borginni hafa varðandi nýtingu á því svæði.

Ég tel að skoða eigi til hlítar hvort ekki sé unnt að sameina byggingu lögreglustöðvar og byggingu fangelsis og þá verði mótuð sú stefna að rými verði fyrir ákveðinn fjölda fanga á höfuðborgarsvæðinu og síðan lögð meiri áhersla en við höfum gert á uppbyggingu á Litla-Hrauni.