Áfengislög

Þriðjudaginn 22. janúar 2008, kl. 17:49:32 (3867)


135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[17:49]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Tilgangurinn með þátttöku minni í þessum umræðum var síður en svo sá að reyna að afvegaleiða málflutning flutningsmanna frumvarpsins. Ég var einmitt að gera það sem hv. þingmaður var reiðubúinn til að gera hér, þ.e. að ræða hvort leyfa ætti áfengisauglýsingar á Íslandi eða ekki. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég sé hlynntur því að það verði gert. En hv. þingmaður svaraði náttúrlega ekki þeirri spurningu sem ég varpaði fram, hvort hann teldi það ekki galla á frumvarpinu og þá núgildandi lögum um áfengisauglýsingar, eins og hann kýs að túlka þau, að innlendum fjölmiðlum sé bannað að birta auglýsingar á áfengi en erlendir fjölmiðlar, sem standa landsmönnum hér til boða, þar á meðal erlend tímarit, vefsíður, sjónvarpsstöðvar og aðrir fjölmiðlar, hafi heimild til að gera það. Hvaða jafnræði er það? Hvaða jafnræðissjónarmiðum samræmast slíkar reglur að svo sé gert? Af hverju mega ekki íslenskir fjölmiðlar sitja við sama borð og hinir erlendu hvað þetta varðar? Það væri fróðlegt að fá svör við þessum spurningum.