Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2008, kl. 19:01:25 (3883)


135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

almenn hegningarlög.

192. mál
[19:01]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að við 206. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verði 1. mgr., svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Hver sem lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.“

Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Atli Gíslason, Auður Lilja Erlingsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

Þetta er mál sem á sér nokkuð langa sögu í sölum Alþingis. Ég hef mælt fyrir sambærilegu máli áður og það hefur farið svo langt að meira að segja hefur það verið afgreitt frá allsherjarnefnd. Síðast þegar kynferðisbrotakafli almennra hegningarlaga var tekinn til gagngerrar endurskoðunar lagði ég fram breytingartillögu við það mál sem hafði að geyma samhljóða ákvæði. Þá breytingartillögu dagaði uppi og var aldrei borin undir atkvæði þingsins sem mér þótti afar miður því að ég taldi að það hefði verið mjög nálægt því að meiri hluti hefði verið fyrir tillögunni á þeim tíma. Ef ég man rétt var þetta á 133. löggjafarþingi.

Það fór svo í átökum milli sjónarmiða innan allsherjarnefndar að breytingartillagan var ekki borin upp en engu að síður fékk stjórnarandstaðan framgengt ákveðnum baráttumálum sínum í endurskoðun kynferðisbrotakafla en þetta ákvæði varð að bíða. Nú er kominn þessi betri tími sem við biðum eftir og við, þingmenn úr þremur flokkum, getum flutt tillöguna sjálfstæða hér og nú. Það höfum við reyndar gert áður. Fyrir einum fjórum árum fluttu þingkonur úr öllum flokkum öðrum en Sjálfstæðisflokknum samhljóða tillögu. Þar sýndu þingkonur samstöðu og sjónarmið þeirra voru og eru að öllum líkindum enn þau að gera þurfi eitthvað í þessum málum sem eru erfið viðureignar og vandmeðfarin. Æ fleiri tilfelli um vændi virðast vera að skjóta upp kollinum í samfélagi okkar og í auknum mæli virðist vera þar um erlendar stúlkur að ræða. Það er auðvitað vísbending um að angi af mansalinu sem grasserar í öðrum löndum í Evrópu sé farinn að teygja anga sína hingað.

Ýmislegt hefur verið unnið á vettvangi Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis í þessum efnum. Við höfum fengið þrjár gagnmerkar skýrslur um vændi á Íslandi sem ég vil nefna hér. Í fyrsta lagi nefni ég skýrslu frá árinu 2001 sem Rannsóknir og greining gerðu fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneyti um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess. Þar leiða skýrsluhöfundar í ljós með hvaða hætti vændi er stundað á Íslandi og voru það sláandi niðurstöður og sú skýrsla er enn sláandi lesning. Síðan kom önnur skýrsla ári síðar, árið 2002, frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Það var skýrsla nefndar sem falið hafði verið að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis. Sú nefnd hafði tekið til umfjöllunar þá leið sem hér er mælt fyrir, þ.e. að það sé virkt tæki í baráttunni gegn vændi að gera það refsivert að kaupa vændisþjónustu. Sú nefnd komst hins vegar ekki að niðurstöðu um að leggja þá leið til að svo komnu máli, hún taldi ekki vera nægar sannanir fyrir því að hún hefði reynst vel í Svíþjóð, upprunalandi sínu. Síðan vil ég nefna þriðju skýrsluna sem unnin var af starfshóp á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi og fleira á Norðurlöndum og víðar og gaf út skýrslu árið 2006. Í þeim starfshópi átti ég sæti en til hans hafði verið stofnað til að reyna að ná sáttum um þau ólíku sjónarmið sem tekist hefur verið á um í sölum Alþingis.

Enn eina ferðina klofnaði starfshópurinn. Hann klofnaði í afstöðu sinni til þessarar leiðar og náði ekki sameiginlegri niðurstöðu enda kannski ekki við öðru að búast þar sem ljóst var fyrir fram að þau sjónarmið sem einstaklingar fóru með inn í þá nefnd voru mjög skýr og afdráttarlaus. Í sjálfu sér skipti enginn um skoðun frá því að starfshópurinn hóf störf þangað til skýrsla starfshópsins lá fyrir í febrúar 2006.

Hvatt hefur verið til þess af kvennasamtökum á Íslandi að Íslendingar fari að dæmi Svía í þessum efnum og geri kaup á vændi refsiverð. Haustið 2003 sendu 14 kvennasamtök, eða samtök sem tengjast kvennahreyfingum, þingmönnum áskorun um að leiða slíkt bann í lög. Þessi félög voru Bríet, félag ungra femínista, Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennakirkjan, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Neyðarmóttaka vegna nauðgunar, Stígamót, tímaritið Vera, UNIFEM á Íslandi, Félag kvenna í læknastétt á Íslandi, Landssamband framsóknarkvenna og V-dagssamtökin. Í greinargerðinni sem okkur þingmönnum var send með áskoruninni var lögð áhersla á tengsl klámiðnaðarins og vændis og tekið undir það sjónarmið að vændið væri kynbundið ofbeldi sem vinna bæri gegn. Voru þessar hreyfingar allar sammála um að það væri virk leið til varnar í þessum efnum að gera kaup á vændi refsivert á Íslandi.

Dagana 21.–27. mars 2007 gerði Capacent Gallup símakönnun fyrir Ríkisútvarpið um viðhorf fólks til þess að kaup á vændi væru gerð refsiverð. Svarhlutfall var nokkuð gott, um 62%, og spurningin sem lögð var fyrir þátttakendur var eftirfarandi: Ertu hlynnt/hlynntur eða andvíg/andvígur því að kaup á vændi verði gerð refsiverð? Niðurstaðan kom í sjálfu sér nokkuð á óvart. Í ljós kom að samkvæmt könnuninni voru um 70% þjóðarinnar mjög hlynnt því að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð á landi. Sömu sögu er að segja af nágrannaþjóðum okkar því að Finnar hafa innleitt sambærilegt ákvæði og er í lögum í Svíþjóð. Það gengur að vísu ekki eins langt en er sambærileg hugmynd. Einnig kom fram stjórnarfrumvarp í norska þinginu um að þessi leið verði farin í Noregi og þegar ég síðast vissi var það mál í umsagnarferli. Ég veit ekki hversu langt það er komið. Nú geta andmælendur þessarar aðferðar ekki lengur skýlt sér á bak við það að aðferðin sé svo vitlaus sem sjáist best á því að hún hafi hvergi verið innleidd annars staðar en í Svíþjóð, en það eru rök sem heyrst hafa í umræðunni frá þeim sem mótfallnir eru þessari leið.

Segja má að það sé kannski að bera í bakkafullan lækinn að fara djúpt ofan í saumana á því sem að baki tillögunni liggur, svo oft hef ég mælt fyrir henni. Búið er að skrifa gríðarlega mikið á Norðurlöndunum um afleiðingar vændis og mansals. Við höfum fjöldann allan af áskorunum sem Norðurlandaráð hefur samþykkt og beint til ríkisstjórna Norðurlandanna til að reyna að koma böndum á mansal og vændi. Mjög mikil vinna er unnin í Norðurlandaráði í þessum málaflokki þar sem allir þingmenn virðast vera orðnir sammála um að tala þurfi um þessa hluti í sama orðinu, ekki hægt að greina á milli mansals og vændis. Ef við ætlum að reyna að koma í veg fyrir mansal verðum við að reyna að uppræta vændi.

Sömuleiðis er lögð mikil áhersla á að klámiðnaðurinn sé hluti af þessari tilhneigingu og að klám sé í sjálfu sér ekkert annað en ein mynd vændis og þess vegna eigi að tala um þessa hluti í samhengi, hafa þá uppi á borðinu og til skoðunar alla í senn, mansal, klám og vændi. Fyrir því hef ég talað og get vitnað í ályktun nr. 25/2005, þar sem Norðurlandaráð sendi norrænu ráðherranefndinni ályktun sem hvatti til að tekið yrði frumkvæði að rannsókn sem varðaði dvalarleyfi fórnarlamba mansals í móttökulandi. Mjög mikið er búið að vinna á Norðurlöndunum í þeim efnum við að kanna örlög þeirra sem lenda í klónum á þeim glæpamönnum sem stunda mansal. Í Norðurlandaráði er fólk sér meðvitað um að rannsaka þurfi þessi mál til að átta sig á því hvaða aðferðir eru bestar til að ná að uppræta glæpi af þessu tagi. Safna þarf reynslu frá öðrum Evrópuríkjum og gera samanburð á árangri. Tilmæli um það hafa verið send til norrænu ráðherranefndarinnar og eru að öllum líkindum í vinnslu. Sömuleiðis beindi Norðurlandaráð þeim tilmælum til norrænu ráðherranefndarinnar að á óformlegum samráðsvettvangi, baráttu gegn mansali innan norðlægu víddarinnar, yrði hugað að þeim þáttum sem varða miðlun upplýsinga og reynslu. Kanna á hvaða aðferðir hafa reynst best í viðleitninni við að hafa upp á fórnarlömbum mansals og bera kennsl á og meta hvernig tilboð um vernd sem stendur fórnarlömbum til boða hafa reynst, þar með talið möguleikar fórnarlambanna á vernd óháð landamærum.

Ég fagna því að komin skuli vera í gang vinna hjá íslensku ríkisstjórninni við það að búa til aðgerðaáætlun gegn mansali. Hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra tilkynntu um það í lok 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi nú í haust, að farið yrði út í gerð aðgerðaáætlunar gegn mansali sem er sannarlega tímabært. Ég hef kallað eftir því nokkuð lengi, allt frá því að talað var um að samningurinn væri undirritaður árið 2000. Síðan erum við búin að fá Evrópuráðssamning sem stendur til að fullgilda og ég tel að stigið hafi verið ákveðið skref þegar ráðherrarnir gáfu yfirlýsingu um að aðgerðaáætlun af þessu tagi yrði unnin. Þar með tel ég að hæstv. dómsmálaráðherra sem var viðstaddur þessa umræðu — og ég þakka honum fyrir að hann skuli vera viðstaddur hér og vona að hann taki til máls um þetta — hafi skipt um skoðun varðandi aðgerðaáætlunina gagnvart mansali. Hann hafði áður lýst sig andvígan því í umræðum í fyrirspurnatíma á Alþingi að setja slíka aðgerðaáætlun. Hann taldi það tímaeyðslu að vera alltaf að búa til einhverjar áætlanir og taldi að hann léti verkin tala með öðrum hætti, t.d. með tilraunum til að loka landamærum og öðrum aðferðum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera aðgerðaáætlun og ég fagna því og tel að hún sé nauðsynlegur liður í því að við náum að koma einhverjum böndum á þetta ástand, sem ég vil kalla svo.

Í mínum huga er vændi hluti af kynbundnu ofbeldi. Ég tel að við verðum að horfast í augu við það. Það er enginn sem velur sér vændi að atvinnu. Þegar grannt er skoðað og farið er undir yfirborðið þá sýna allar rannsóknir fram á að ef konum, eða þeim sem leiðast út í vændi, hefði staðið til boða annað starf, hefðu þær ekki valið vændi. Þarna er vitnað til fjölda rannsókna sem sýna fram á það, t.d. í norrænum ritum sem dreift hefur verið til þingmanna. Í mínu huga velur enginn sér af fúsum og frjálsum vilja vændi sem atvinnugrein. Það er ekki þannig að ungt fólk hafi lista af einhverjum stöðuheitum, læknir, lögfræðingur, vændiskona, og velji vændi. Það er bara ekki þannig. Vændi er ógeðfellt mannréttindabrot. Í því er falin mjög niðurlægjandi hegðun. Það er ævinlega sá sem hefur peninginn sem hefur í raun og veru valið og valdið en ekki sá eða sú sem leiðist út í vændi. Ég tel það vera skyldu okkar, löggjafans á Íslandi, að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að niðurlæging þeirra sem leiðast út í vændi haldi áfram. Ég tel að þetta frumvarp sé liður í því og legg til við hv. Alþingi að málinu verði vísað til allsherjarnefndar og til 2. umr.