Mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskkvóta

Fimmtudaginn 24. janúar 2008, kl. 10:36:28 (3966)


135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskkvóta.

[10:36]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir tiltölulega jákvæð viðbrögð við fyrirspurn minni þó að ekki hafi ég fengið bein svör sem kannski var of mikið að ætlast til að maður fengi óundirbúið. Þegar við framsóknarmenn tölum um að fiskvinnslufólk t.d. fái þessi tækifæri er það vegna þess að við óttumst atgervisflótta úr greininni. Það er gott og gilt að tala um að mála hús og annað slíkt og ýmsar tillögur hæstv. ríkisstjórnar gengu út á það m.a. Það sem er mikilvægt fyrir sjávarútveginn er að við missum ekki fólkið. Þess vegna væri hugmyndin sem ég reifaði hér mikilvæg til að efla fólkið í staðinn fyrir að draga það niður. Miðað við svör hæstv. ráðherra trúi ég því að hann taki hugmyndina með í púkkið þegar áfram verður unnið að því að (Forseti hringir.) reyna að bregðast við þessum gríðarlega vanda sem fiskvinnslufólk, útgerðir og almennt landsbyggðarfólk stendur (Forseti hringir.) frammi fyrir vegna niðurskurðarins.